Ég held að (því miður) séu ekki miklar líkur til að Tsú eða Google+ leysi Facebook af hólmi.
Það virðast fáir detta inn á Tsú – og ég fór sjálfur strax í baklás, eftir að hafa skráð mig og fengið nokkrum mínútum seinna tölvupóst þar sem átti að fara að selja mér eitthvað.
Google+ hefur sína kosti, en aftur virðist flokkun efnis langt á eftir Facebook.
Ég er svo sem enginn sérstakur Facebook aðdáandi, reyni að eyða ekki of miklum tíma í að þvælast þar og takmarka talsvert hvað ég nota.
Það er margt jákvætt við Facebook, til dæmis
- er gaman að sjá öðru hverju fréttir af vinum, kunningjum, gömlum skólafélögum og ekki-nánustu fjölskyldu
- hefur skilaboðakerfið reynst ágætlega í hópsamræðum
- er vel þegið að fá að vita af viðburðum sem annars gætu farið fram hjá mér
En ég held að Facebook væri enn betra ef..
- fólk hætti að skipta um mynd (profile picture) í fréttaskyni, það er miklu einfaldara að setja inn nýja stöðu
- fólk sleppti frekar tilgangslausum athugasemdum eins og að bjóða góðan daginn eða annað álíka
- fólki hætti að benda á YouTube myndskeið með einhverjum skoðunum – ef þær eru áhugaverðar, komið þeim frá ykkur í texta, YouTube myndskeiðin eru (að fenginni reynslu) oftar en ekki:
- tímasóun, það er verið að segja hluti í löngu máli sem tæki örstutta stund að lesa
- blekkingaleikur, það eru alls kyns tæknibrellur notaðar til að gera texta sennilegan sem getur ekki staðið einn og sér
- drepleiðinleg með útúrdúrum og löngum „hugleiðingar“ myndskeiðum
- þessi þú-verður-rosalega-hissa myndskeið hverfa, fyrir það fyrsta, þá hefur reynslan kennt mér að ég verð sjaldnast rosalega hissa, og ef þetta er áhugavert þá er miklu einfaldara að segja það beint út sem skiptir máli
- myndskreyttir textar verði sjaldgæfari, texti verður ekkert betri eða verri við að vera settur upp með bakgrunni og áberandi leturgerð (kannski, jú, stundum verri)
- fólk hætti að skipa mér fyrir, það fer amk. talsvert í taugarnar á mér þegar fólk setur inn einhverja hugleiðingu og bætir svo við „ræðið!“ eins og kennari að tala niður til nemenda.. það er í boði að ræða allar stöðu uppfærslur og óþarfi að vera með svona frekjutakta
- auglýsingar fyrirtækja og tilheyrandi leikir detti út, ég hef akkúrat engan áhuga á að sjá þetta, þar sem hægt er ná í vinning ef fólki lætur sér líka vel við eitthvert fyrirtækið
- fréttir af forsíðum helstu netmiðla hverfi, þetta er algjör óþarfi, þeir sem hafa á annað borð áhuga sjá þetta strax
- fólk næði aðeins að hemja sig í stað þess að drita inn athugasemdum um allt og ekkert, ég hef tekið af „fylgi“ af fólki sem var svo duglegt að setja inn athugasemdir að ég sá orðið ekkert annað, það einokaði nánast Facebook yfirlitið mitt
- þeir sem ætla ekki að mæta á viðburði hætti að segjast ætla að mæta, eflaust vill viðkomandi vera jákvæður, en þetta einfaldlega ruglar þá sem eru að skipuleggja
- það væri hægt að loka á allar leikjabeiðnir