Sarpur fyrir apríl, 2015

Ferðamenn í barnaafmælum

Posted: apríl 8, 2015 in Spjall
Efnisorð:

Þegar synirnir voru yngri hafði skapast sú hefð, eða vani, að barnaafmæli væru frekar einföld en flestum skólafélögunum var boðið. Yfirleitt einföld veisla (ja, kannski allur gangur á því) og hvert barn gaf svona 500 til 1.000 krónur (ég man ekki upphæðina nákvæmlega).

Eitt skiptið gat einn sonurinn ekki mætt – ekki man ég hvers vegna – en afmælisbarnið spurði hvort hann ætlaði ekki samt að borga.

Það er varla hlustandi á fréttatíma eða umræðuþætti þessa dagana án þess að verið sé í öðru orðinu að tala um hversu mikilvægt sé að sinna ferðamönnum vel og hversu miklum tekjum þeir geti skilað í þjóðarbúið. En á sama tíma er stöðugt verið að spyrja hvort það sé ekki allt of mikið af ferðamönnum. Það er nánast hallærislegt hversu oft og mikið er staglast á þessari sömu spurningu.

Kannski endum við eins og barnið sem ég sagði frá hér að ofan, biðjum ferðamennina að vera heima, en spyrjum hvort þeir ætli ekki samt að borga.

Vínbúðirnar hafa um nokkuð langt skeið birt til þess að gera langar auglýsingar með (að þeim finnst væntanlega) skondnum tilraunum unglinga til að fá að kaupa áfengi án skilríkja. Það eru nokkrar útgáfur í gangi og ég er nokkuð viss um að þær hafa kostað sitt í framleiðslu. Þá er heldur ekki ókeypis að birta sjónvarpsauglýsingar þetta oft.

Ég efast um að þetta sé raunverulega stórt vandamál, þeas. að krakkar komi með fáránlegar afsakanir.. og svarið er (gef ég mér) auðvitað „nei“ og málið er leyst.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessi auglýsingaherferð stendur ekki undir sér – það er að segja, hún skilar örugglega ekki þeim tekjum eða sparar þann kostnað í rekstri vínbúðanna að hægt sé að réttlæta þetta. Jafnvel þó skilríkjalausir einstaklingar séu margir, þá ætti að vera mun ódýrara og einfaldara að koma afdráttarlausum skilaboðum til væntanlegra kaupenda.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Jú, vegna þess að þetta er dæmi um niðurgreiddan rekstur ríkisins á verslun sem ríkisvaldið þarf ekkert að standa í að sinna. Á endanum koma þessir peningar úr ríkissjóði (eða það fer minna í hann) og við borgum brúsann.

PS. jú, ef bæði framleiðsla og birtingar hafa fengist gefins þá er sjálfsagt að éta þessar fullyrðingar ofan í mig.. eða ef hægt er að sýna fram á betri rekstur í kjölfarið..

Ég sá frétt um að dauðadæmdum fanga hafi loksins verið sleppt eftir nokkra áratugi í fangelsi. Það er ekki í frekari frásögur færandi.

En ein athugasemdin við fréttina vakti athygli mína, en þar bar einhver það saman við beint lýðræði að hafa kviðdóm og taldi þetta sanna, eða amk. dæmi um, hversu vont beint lýðræði geti verið.

Fyrir það fyrsta þá er ansi margt ólíkt með beinu lýðræði og kviðdómi, kviðdómendur eru valdir af handahófi, beint lýðræði gerir ráð fyrir að allir áhugasamir geti tekið þátt.

En aðallega þá er það enginn trygging fyrir betri niðurstöðu þó færri sjái um að dæma, þó þeir séu löglærðir, næg eru dæmin um alvarleg afglöð dómarar – hvort sem er í Bandaríkjunum (þaðan sem fréttin er) þar sem dómarar eru gjarnan kosnir – eða hér á landi þar sem þeir eru skipaðir.

Fyrir utan nú rökleysuna að taka eitt tiltekið dæmi og ætla sér að alhæfa út frá því.

Hitt er svo þessi mótsögn fulltrúalýðræðisins, að fólk geti ekki haft nægilegt vit fyrir sjálfu sér í einstaka málum en geti samt haft nægilegt vit til að kjósa sér fulltrúa – út frá fyrirheitum um þessi sömu mál.

Það er rétt, að það eru til dæmi um að almenningur hafi látið blekkjast til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum og tekið þannig ákvarðanir sem hafa ekki reynst gæfulegar.

En það eru ekki síður dæmi um að fólk hafa kosið sér fulltrúa sem hafa blekkt kjósendur til að greiða sér atkvæði – og setið þannig uppi sem svipaðan kött úr keyptum sekknum.

Páskar

Posted: apríl 5, 2015 in Spjall, Trú, Umræða
Efnisorð:

Nú kann ég ekki að skýra sögu páskanna svo vel fari og það myndi eflaust kalla á gagnrýni og/eða leiðréttingar.. en þetta er auðvitað ekki sér kristin hátíð, þó auðvitað sé hún mikilvæg hátíð í augum kristinna.

Fyrir flestum kristnum sem ég þekki (með undantekningum þó) þá er kristnin – eins og flest önnur trúaarbrögð – rammi utan um ákveðin siðferðislegan grundvöll. Þeim fylgja svo ákveðnar hefðir og siðir („ritúöl?“) sem fá sína merkingu ýmist við að gera sér dagamun, hitta vini, fjölskyldu og kunningja, njóta tónlistar, hlusta á sögur og breyta út af vananum öðru hverju. Þá eru margar hátíðanna tilefni til að setjast niður rifja upp siðferði og kannski ákveða að reyna að gera betur.

Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um þetta að segja, ég þarf svo sem ekki sérstaklega á þessu að halda, en það er mitt val. Og ég kann ómögulega við að þurfa að standa straum af kostnaði við siði annarra, en það er að breytast.

Ég á hins vegar sérstaklega erfitt með að skilja áráttu örfárra kristinna fyrir þessari þráhyggju að halda því fram að sögurnar séu bókstaflegar, að einhver hafi fæðst án þess að eiga líffræðilegan föður og að sá hinn sami hafi dáið og risið einhverjum dögum seinna upp frá dauðum. Það þarf ekki nema lágmarksmenntun til að vita að þetta stenst enga skoðun. Og það sem meira er, flestir kristinna þurfa ekkert á þessu að halda, trúin er þeim alveg jafn mikils virði án svona vitleysu, ef ekki meira.

Þannig að kannski er þjóðráð – og ég meina þetta vel – að sleppa því að gera kröfu á þá sem vilja teljast kristnir að þeir þurfi að játa trú á þessar sögur sem bókstaflegar staðreyndir. Hætta að hamra á sögunum sem raunverulegum atburðum, þetta er eiginlega hálf kjánalegt – og það vill enginn láta tengja sig við fáfræði.