Af þorpum, af-þorpum og ærandi þögn

Posted: apríl 2, 2016 in Spjall, Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Nú hef ég nýlega (einhverra hluta vegna) verið að velta fyrir mér aflandsfélögum, (sennilega) í kjölfar frétta af nokkurs konar hjarðhegðun fólks sem finnst víst erfitt að eiga peninga, amk. hér á landi.

Ég er auðvitað enginn hagfræðingur, en hver er það svo sem? En ég velti gjarnan fyrir mér hvernig hlutirnir líta út frá einu heimili eða litlu þorpi.

Ein saga hentar ágætlega til að heimfæra á lítið þorp. Einn þorpsbúinn sótti arf frá föður sínum, nokkuð miklar eignir sem voru til komnar eftir áratuga vinnu föðursins við að byggja upp fyrirtæki í þorpinu. Þorpsbúar höfðu tekið fyrirtækinu vel, enda lagði fyrirtækið áherslu á góða vöru og fyrsta flokks þjónustu og fyrirtækið blómstraði. Þorpsbúinn sótti sem sagt arfinn og ákvað að geyma peningana sína í öðru þorpi og leyfa þorpsbúum þar að njóta þeirra. Maki þorpsbúans virðist hafa verið (það sem kallað var) „eilífðarstúdent“ á þessum tíma og ekkert hafa haft til málanna að leggja.

En þetta er bara eitt lítið dæmi, þetta var orðin einhvers konar hjarðhegðun þeirra sem áttu peninga og önnur verðmæti sem höfðu verið sköpuð í þorpinu, í mörgum tilfellum með því að nýta sameiginlegar auðlindir þorpsbúa.

Þessir peningar voru flutt í önnur þorp og íbúum þeirra leyft að njóta, eigendunum virist finnast erfitt að eiga peninga í þorpinu. „Hvers vegna er það erfitt?“ – var spurt, en engin svör.

Í mörgum tilfellum voru miklir fjármunir geymdir í þorpum sem veittu svokölluð skattaskjól, en eigendurnir fullyrtu að þeir væru ekkert að leita eftir skattaskjóli og hefðu greitt sína skatta af eignunum. „Hvers vegna eruð þið þá að flytja peningana í skattaskjól ef þið eruð ekki að nýta ykkur að þetta er skattaskjól?“ – var spurt, en engin nothæf svör. Einhverjir gáfu þær skýringar að það gætu verið aðrar ástæður og aftur var spurt „Já, já, gott og vel, hverjar?“ – en engin svör.

Svo voru þeir sem fullyrtu að þorpið væri langbest, gjaldmiðillinn þeirra væri sterkastur, þar væri mestur uppgangur væri þar og bestu tækifærin. „Já, hvers vegna geymið þið þá ekki peningana ykkar hér og ávaxtið með sterkum gjaldmiðli og í hagkerfi í miklum uppgangi?“ – var spurt, en engin svör.

Margir sögðu að einhver bankamaðurinn hefði ráðlagt þeim að geyma peningana annars staðar. „Já, já, og hver rök voru fyrir ráðleggingu bankamannanna?“ – var spurt, en engin svör. „Voru þetta bara ráðleggingar út í bláinn sem þið fóruð hugsunarlaust eftir?“ – var spurt, en engin svör.

Bankamaðurinn reið reyndar á sama tíma um önnur héruð og þorp og lofaði íbúum þeirra gulli, grænum skógum og óhóflegum vöxtum ef þeir kæmu með peninga og leggðu inn í banka þorpsins. „Hvers vegna eruð þið þá að ráðleggja íbúum þorpsins að geyma og ávaxta peningana sína annars staðar?“ – var spurt, en engin svör.

Svo hrundi banki þorpsins og allir þorpsbúar þurftu að taka skellinn. Eftir það hófst uppbygging og allir þorpsbúar þurftu að leggja sitt að mörkum.

Hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir að bankinn færi á hausinn ef hjarðfólkið hefði geymt peningana sína og ávaxtað í þorpinu? Við vitum það auðvitað ekki, vegna þess að við vitum ekki hversu miklir peningar þetta voru.. en kannski er ekki ólíklegt að það hefði að minnsta kosti mildað áfallið verulega.

Hefðu peningarnir nýst vel við að byggja upp eftir hrun? Já, ég ætla að leyfa mér að fullyrða það.

Gott og vel, ég veit fullvel að það er nokkurn veginn hundrað prósent löglegt að geyma peninga í öðrum þorpum.

Siðlaust? Ég ætla ekki að alhæfa en mér finnst það að minnsta kosti orka tvímælist þegar um er að ræða eignir sem verða til í þorpinu.

Og.. ef einhver býður sig fram til hreppstjóra eða annarra forystustarfa í þorpinu á þeim forsendum að hann hafi tröllatrú á efnahagslífi og gjaldmiðli þorpsins, þá vil ég vita fyrir víst að hann hafi sýnt það í verki og sé ekki háður efnahag annarra þorpa.. og gildir einu hvort sú tenging er skráð á annan eða báða aðila í hjónabandi þar sem eignir eru sameiginlegar.

Og ég vil líka vita þegar einhver býður sig fram til þess að semja við önnur þorp og íbúa þeirra hvort viðkomandi á einhverra hagsmuna að gæta í öðrum þorpum. Það má vel vera að viðkomandi ætli sér ekki að láta þá hagsmuni hafa áhrif. Það gæti vel verið að ég treysti viðkomandi eftir að hafa fengið þessar upplýsingar. En á ég vil fá að vita og ég vil fá að meta.

Mér finnst nefnilega bæði siðlaust og óheiðarlegt að bjóða sig fram til starfa án þess að gera grein fyrir þessu og sé bara eina mögulega skýringu á því að halda þessu leyndu.

Þannig finnst mér að um leið og viðkomandi er gripinn í bólinu og í ljós kemur að hann hafi leynt upplýsingum fyrir kosningar, þá er kosning hans til starfa orðin marklaus í mínum huga.

Lokað er á athugasemdir.