Já, eitthvað er amk. á hvolfi …

Posted: mars 28, 2016 in Umræða

Ég lét mig hafa það að þræla mér í gegnum viðtal forsætisráðherra við sjálfan sig, nokkuð sem er auðvitað fínasta leið til að komast hjá óþægilegum spurningum. En mér fannst sjálfsagt að skoða þeirra hlið fyrst ég hef verið að tjá mig um málið.

Ég nenni svo sem ekki að elta öll þau atriði sem kalla á fleiri spurningar. Ég eftirlæt fólki sem vinnur við fjölmiðla að skoða betur.

En forsætisráðherra segir að þau hafi ekki talið æskilegt að kona þingmanns og ráðherra stundaði fjárfestingar hér á landi. Þetta segir hann bara svona út í loftið og færir engin rök fyrir og gefur engar skýringar á því hvers vegna það sé ekki einmitt sjálfgefið að kona þingsmanns og ráðherra geri allt sem hún getur til að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf. Ég er kannski eitthvað tregur en verð að játa að mér finnst þetta verulega undarleg fullyrðing.

Hitt er að, að jafnvel þó við gefum okkur að þetta standist skoðun, þá flytja þau heim áður en hann nær kjöri á þing, hvað þá að hann verður ráðherra, reyndar virðist fara nokkuð mörgum sögum af því hvað hann var að sýsla á þessum tími. Hver er skýringin á því hvers vegna hún – kona námsmanns, ef ég les rétt í söguna – fjárfesti ekki á þessum tíma í íslensku atvinnulífi?

En þetta er auðvitað ekki aðalatriðið.. við erum með forsætisráðherra sem skilur ekki hugtakið „siðferði“.

Lokað er á athugasemdir.