Ég var spurður hvers vegna ég sé enn að mótmæla, hvort markmiðunum hefði ekki verið náð, forsætisráðherra hafi sagt af sér og boðað hafi verið til kosninga.
Eflaust eru mismunandi ástæður fyrir að fólk mætir að mótmæla, ég hef jafnvel séð fólk með „nató“ skilti og einhverjir virðast mæta til þess eins að vera sóðar.
Þannig að kannski er rétt að ég skýri aðeins hvað þarf til, amk. fyrir mitt leyti.
Það er ekki nóg að halda sömu ríkisstjórn með einni útskiptingu. Það þarf að koma til utanþingsstjórn, mögulega þjóðstjórn, í allra, allra versta falli stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokks (ekki Framsóknar), þeir eiga alveg ágæta einstaklinga á þingi.
Ég hefði viljað sjá kosningar í vor, en gott og vel, það sleppur í haust, en það dugar ekki að segjast ætla að stefna að kosningum, það þarf að ákveða þær.
SDG þarf að segja af sér þingmennsku og reyna að sækja umboð aftur í nýjum kosningum. Sama gildir um þá þingmenn sem tóku þátt í að níða niður fréttastofu RÚV – gott og vel, kannski alvöru einlæg afsökunarbeiðni myndi nægja í þeirra tilfelli..
Ég sé ekki að Bjarni komist hjá því að segja af sér.. Ég virði hann reyndar fyrir að hafa nálgast þessa umræðu á allt annan hátt en fyrrverandi forsætisráðherra, hann hefur svarað, verið málefnalegur, sleppt því að ráðast á spyrjendur, verið laus við yfirlæti og hroka (ja, svona að mestu, ég veit ekki enn hvað hljóp í hann í stiganum), hvað þá sjálfumgleðina sem einkenndi félaga hans og hann hefur alveg látið vera að detta í samsærisgírinn. Hans mál virðist líka talsvert minna en mál SDG.
En það eru samt atriði þarna sem nægja til að traustið er farið. Hann hefði átt að greina frá félaginu við hagsmunaskráningu, hvort sem hann skildi eða misskildi orðalag reglnanna þannig að það væri ekki tæknilega nauðsynlegt. Og hann átti að greina frá því fyrir kosningar að hann ætti verulegra hagsmuna að gæta í erlendu félagi. Kannski á hann nóg af peningum og gjaldeyrishagnaður eða tap var hugsanlega ekki stórmál fyrir honum. Og ég ætla honum svo sem engan veginn að hafa verið að hugsa um eigin hag. En kjósendur eiga einfaldlega rétt á að vita um mögulega hagsmunaárekstra fyrir kosningar. Hvað sem lög og reglur segja.
Ég er svo sennilega ósammála mörgum öðrum mótmælendum að því leytinu til að Ólöf Nordal þarf ekki nauðsynlega að segja af sér mín vegna..