Lýðræðið, Trump & Ólafur

Posted: maí 5, 2016 in Umræða

Nú hef ég lengi verið talsmaður lýðræðis, hef talað fyrir beinu lýðræði og meiri þátttöku fólks í ákvörðunum.

Núverandi forseti var kjörinn 2012 þrátt fyrir ansi skrautlegan feril og kosningabaráttu sem var fyrir neðan allar hellur. Fólk horfði fram hjá heimskulegum uppákomum á fyrri kjörtímabilum og óheiðarlegri kosningabaráttu, að því er virðist með því að einblína á eitt atriði, sem var engan veginn honum að „þakka“ og er nú kannski að koma í ljós að var ekkert til að þakka fyrir yfirleitt.

Og jafnvel eftir afhjúpanir síðustu daga þá virðist enn fullt af fólki vera tilbúið til að kjósa hann aftur.

Framsóknarflokkurinn fékk gríðarlegt fylgi í síðustu alþingiskosningum þrátt fyrir að kosningaloforðin væru klárlega óraunhæf, enda hefur lítið sem ekkert gengið að uppfylla þau. Fólk virtist fólk hrífast með loforðum um fullt af peningum, stórkarlalegum yfirlýsingum og óraunhæfum markmiðum.

Í Bandaríkjunum er Donald Trump (nokkuð örugglega) búinn að tryggja sér útnefningu Repúblikana fyrir næstu forsetakosningar, þrátt fyrir að góður hluti almennra flokksmanna sem og forystumanna hafi megna skömm á honum.. og kalla menn þar á bæ nú ekki allt ömmu sína. Það er svo sem enn óljósara hvað kemur til – óljósar, mótsagnakenndar, stórkarlalegar, heimskulegar yfirlýsingar og ítrekaðar lygar sem margsinnis er búið að afhjúpa.. En fólk ætlar bara samt að kjósa. Fólk er meira að segja spurt hvort það sé sammála megninu af stefnumálum hans og segir ýmist eitthvað á þessa leið „nei, en ég ætla samt að kjósa hann“ eða jafnvel „nei, en ef Trump segir það þá er ég sammála“.

Ég veit að fólk fær þá leiðtoga sem það kýs. Vandinn er sá að við hin sitjum uppi með þá líka.

Eina lausnin sem mér dettur í hug er að minnka völd kjörinna leiðtoga til að taka ákvarðanir.. þannig geti stjórnmálaflokkur sem fær þingstyrk út á innihaldslaus loforð ekki gengið um og sviðið jörðina, bæði bókstaflega og ekki, skuldbundið komandi kynslóðir og afhent útvöldum gríðarleg verðmæti sem eru í eigu þjóðarinnar.

Fyrsta hugmyndin er kannski að miða við að allar ákvarðarnir sem gilda lengur en hvert kjörtímabil skuli bornar undir þjóðaratkvæði.

Þannig hefðu bæði umsókn um Evrópusamband, það að hætta viðsókn, gjöld (eða niðurfelling gjalda) fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda, búvörusamningar sjálfkrafa farið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Og það þarf góða stjórnarskrá þannig að stjórnmálamenn sem komast tímabundið til valda geti ekki valdið ómældum skaða.

 

 

Lokað er á athugasemdir.