Ég hef lengi talað fyrir persónukjöri í kosningum. Hefði það verið í boði síðustu helgi hefði ég til dæmis getað stutt Skúla Helgason inn á þing án þess að eiga á hættu að atkvæðið nýttist Ólínu Þorvarðardóttur – að ég tali nú ekki um ýktari dæmi en það.
Það skiptir mig talsverðu máli að fá fólk inn á þing sem ég get treyst til að vinna úr málum og taka málefnalega afstöðu til þeirra þegar þar að kemur. Fólk sem hleypur ekki undir pilsfaldinn hjá formanninum þegar reynir, leggst ekki í flokksgrafir (flokkslínur + skotgrafir). Það er ekki ljóst fyrir kosningar hvaða mál koma til afgreiðslu á komandi þingi þannig að það að kjósa flokka eftir stefnumálum er til þess að gera gagnslítið. Jú, línur eru kannski lagðar með almennum hætti, en ganga kannski ekki svo mikið eftir þegar á reynir, sérstaklega ekki í samsteypustjórnum.
Eini maðurinn sem ég þekki sem kaus Framsókn – já, ég játa að ég þekki einn – hafði nákvæmlega enga trú á stefnumálum flokksins eða að flokkurinn gæti staðið við stóru orðin. En kaus samt, ef ég skil rétt, vegna þeirra einstaklinga sem voru í forystu fyrir flokkinn. Þannig fær flokkurinn samt þau skilaboð að viðkomandi kjósandi styðji stefnu hans.
Þá eru stefnuskrár flokkanna þannig að vonlaust er að finna flokk sem er að öllu leyti sammála mér – eða ég sammála flokki. Það eru miklu meiri líkur til að finna einstaklinga sem hafa svipaðar skoðanir, því innan flokkanna safnast jú saman fólk með ólíkar skoðanir.
Þannig er persónukjör miklu nærtækara – og talsvert einfaldari og hreinlegri leið kjósendur að hafa áhrif.
Hitt er, að auðvitað eru málefni líka mikilvæg. En aftur þá eru stefnuskrár flestra flokka undarleg karfa af ágætis málum, þokkalega góðum en óljósum vilja og svo satt best að segja, tómri þvælu.
Þetta er auðvitað ekkert flókið. Það má samhliða kosningum með persónukjöri greiða atkvæði um nokkur mál – förum nánar út í það síðar hverjir og hvernig á að velja þau mál.
Kjósa sem sagt bæði um menn og málefni án þess að styðja flokka.