Eitt kjördæmi

Posted: apríl 30, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef lengi talað fyrir því að landið verði eitt kjördæmi. Rökin fyrir því eru aðallega þau að mér finnst fráleitt að fólk sé kosið á þing eftir landssvæðum, til að vinna að löggjöf – og eins og staðan er hjá okkur – til að mynda ríkisstjórn. Ég hefði reyndar viljað sjá framkvæmdavaldið kosið sérstaklega, en það er önnur saga.

Við erum fámenn þjóð og við þurfum ekki þann hrepparíg sem fylgir kjördæmum og kjördæmapoti. Það eru einfaldlega allt of mörg dæmi þess að þingmenn styðji mál sem nýtast sínu „héraði“ en taki um leið vonda ákvörðun fyrir þjóðina í heild. Kannski finnst þeim þeir vera skuldbundnir þeim sem sendu þá á þing. Það eiga auðvitað allt önnur sjónarmið að ráða hverjir setjast á þing en hvaða landssvæði þingmenn tilheyra.

Á móti kemur að mér finnst sjálfsagt að færa vald meira „heima í hérað“ þannig að íbúar á hverjum stað hafi meira sín mál að segja en virðist í dag. Þannig get ég alveg verið hallur undir einhvers konar fylkja eða landshlutafyrirkomulag í stjórnsýslunni. Á móti kemur auðvitað að við erum tiltölulega fá…

Svo má ekki gleyma því að þetta er einfaldasta leiðin til að ná fullum jöfnuði þingsæta á milli flokka, reyndar ekki eina leiðin – svo því sé haldið til haga – það má gera með fleiri jöfnunarsætum og sérstaklega með jafnari fjölda þingsæta á milli kjördæma.

Lokað er á athugasemdir.