Má ekki velja og hafna í stað þess að trúa?

Posted: maí 26, 2013 in Trú
Efnisorð:, , ,

Fyrir nokkrum dögum lýsti þýskur kardináli því yfir að best væri að þýskar konur sætu heima og stuðluðu að fólksfjölgun til að vinna á móti fjölgun innflytjenda.

Karluglunni tókst að slá þrjár flugur í einu höggi þarna í einni setningu.. og staðfesta þannig að söfnuðir eins og hann vinnur hjá á ekkert erindi í nútímasamfélag.

Fyrir það fyrsta er auðvitað kvenfyrirlitningin. Þar bætast við kynþáttafordómarnir. Og ekki gleyma hræsninni, hann er jú vígður kaþólskur prestur og leggur ekkert að mörkum við að fjölga kynstofninum sem honum finnst svona mikilvægur.

Þetta væri auðvitað fyndið ef þetta væri ekki hátt settur embættismaður hjá nokkuð áhrifamikilli stofnun.

Og þetta væri kannski líka fyndið ef þetta væri ekki af sömu rótum og sú ótrúlega mannfyrirlitning sem Parísarbúsar opinbera á götum borgarinnar til að mótmæla giftingum samkynhneigðra.

Allt í nafni og undir áhrifum trúarinnar.

Höfum við virkilega eitthvað að gera við þetta?

Og kannski enn frekar, ég veit að sumir finna margt jákvætt í trúnni og sækja þangað ákveðin gildi – sem í flestum tilfellum eru auðvitað jákvæð.

En má ekki sleppa trúnni og halda gildunum, hvort sem viðkomandi vill kalla þau „kristin“ eða eitthvað annað, því flest eru þau jú eldri en kristnin – og losna þannig undan þessu fargi mannfyrirlitningar sem trúin virðist leggja á fólk?

Athugasemdir