Ný stjórn, hefa enga skoðun… enn

Posted: maí 22, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég hef auðvitað ekki hugmynd um hvað mér finnst um nýja ríkisstjórn. Það er nefnilega alveg eðlilegt, hún er ekki (eða varla) komin til starfa. Ég ætla að leyfa mér að meta hana af verkum hennar, ekki fyrirfram..

Vissulega er sumt sem mér líst ekkert sérstaklega vel á í stefnu stjórnarinnar, svo langt sem hægt er að festa hönd á henni, annað hljómar ágætlega. Ég held að lækkun skatta og einfaldara skattkerfi sé til bóta, að minnsta kosti ef rétt verður staðið að málum. Mér finnst fráleitt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild „í miðri á“ og ég hef ekki góða tilfinningu fyrir nálgun þeirra að nýrri stjórnarskrá. Ég var ekki sáttur við auðlindagjald fyrri stjórnar, taldi betri leiðir fyrir hendi, en að bakka aftur til fyrra horfs finnst mér enn verra. Og þetta tal um að það stangist á við stjórnarskrána er auðvitað út í hött, að minnsta kosti ef svo væri, þá er það endanleg sönnun þess að sú gamla er handónýt!

Ráðherravalið hefði getað verið talsvert verra – fljótt á litið þá virðist þarna veljast frekar fólk sem hægt er að ræða við, frekar en aðrir sem ég óttaðist að settust í ráðherrastól, nefnum engin nöfn.

Ég er alveg til í að gleyma kjánahrollinum við að sjá kosningaloforðin þynnast út og hverfa… það hefði verið svo miklu verra ef reynt hefði verið að standa við þau. Og sama gildir um fólkið sem var með allt á hreinu fyrir kosningar en þarf svo að fara að leggjast í að skoða þau eftir kosningar. Ég vil nefnilega miklu frekar að mál verði skoðuð og vandað til vinnu við lausnir, en að hlaupið verði eftir þeim yfirýsingum sem boðið var upp á í kosningabaráttunni.

En, aðalatriðið er… ég ætla ekki að dæma fyrirfram.

Lokað er á athugasemdir.