Að dreyma um „bara eitthvað annað“

Posted: maí 30, 2013 in Umræða

Mig dreymdi undarlegan draum, Við fjölskyldan höfðum (í draumnum) ágætis tekjur af því að skola grænmeti. Við keyptum þetta ódýrt, skoluðum og þrifum og seldum með talsverðum hagnaði. Við höfðum reyndar þurft að fjárfesta í búnaði, bæði við að skola og þurrka og eins til að dreifa vatninu. Til málamynda borgaði ég konunni fyrir vatnsnotkunina en það er frekar lítið, ég man ekki hvers vegna, sennilega vegna þess að hún hafði sett upp allan búnaðinn.

Svona rétt rúmlega þriðjungur tekna heimilisins kom af þessari vinnu.

En aðalinnihaldið var að aðrir fjölskyldumeðlimir, og einhverjir kunningjar, voru alltaf að segja okkur að hætta þessu og fara að gera eitthvað annað, þetta sé óþriflegt og allt of hátt hlutfall tekna heimilisins komi af þessu. Þá séu græjurnar ljótar og garðurinn sé ekki eins fallegur. Þau tala líka mikið um að konan geti fengið miklu hærra verð fyrir vatnið ef við gerum eitthvað annað við það, notum það bara sjálf í eitthvað annað.

Þetta vafðist samt fyrir mér. Ég gat alveg fallist á að í sjálfu sér væri gott að hafa tekjur af fjölbreyttari vinnu. En ég vildi ekki að hætta þessu til að gera „bara eitthvað annað“ fyrr en ég fengi svör um hvað þetta „bara eitthvað annað“ ætti að vera og hvernig það myndi skila heimilinu tekjum – nú eða spara nægileg útgjöld á móti. Þá var ég ekki að skilja að það myndi breyta miklu þó ég borgaði konunni minni miklu hærra verð fyrir vatnið, ef það eru hvort sem er bara tilfærslur innan heimilisins.

Athugasemdir
  1. Hilmar skrifar:

    Mér sýnist á öllu að þessi draumur sé fyrir því að þú eigir fljótlega eftir að vakna upp til kristinnar trúar, fara að lofsyngja gömul góð kristin gildi, drífa þig sem trúboði til framandi landa og láta af allri vantrú.