Gjammaravæðingin

Posted: júlí 19, 2018 in Umræða

Einn ókosturinn við net- og bloggvæðingu síðustu ára er eitthvað sem kannski má kalla „gjammaravæðingu“ eða „upphafningu gjammarans“.

Einhverra hluta vegna virðast, til þess að gera fáir, en áberandi, einstaklingar nærast á því að vera stöðugt gjammandi um allt og ekki neitt.

Sumir virðast líta á það sem sitt hlutverk að reyna að koma með vitlausustu og/eða mest óviðkomandi og/eða langsóttustu athugasemdina inn í hverja umræðu.

Aðrir eru í raun stöðugt að upplýsa okkur hin um eigin fáfræði með glórulausum yfirlýsingum sem lágmarksþekking og/eða hugsun hefði nú kæft í fæðingu.

Fólk stofnar meira að segja stjórnmálaflokka utan um samhengislaust gjammið.

Og virtir fræðingar á sínu sviði þurfa endilega að básúna órökstuddar og illa upplýstar skoðanir á nánast hverju sem dúkkar upp í umræðunni.

Það er kannski tvennt sem gæti bætt umræðuna aðeins.

Annars vegar ef fréttamiðlar hættu að líta á hvaða glórulausa skoðun sem „frétt“.

Og hins vegar ef þetta klapplið sem tekur hugsunarlaust undir hvað sem er, væri nú kannski til í að lesa amk. þvættinginn áður en það sendir vel-líkingu, hjarta eða þumalinn-upp.

 

Lokað er á athugasemdir.