Ég hef spilað fótbolta tvisvar í viku síðustu árin, ekki svo mikil átök, í öðrum hópnum er ég nú með eldri mönnum, eiginlega sá elsti af fastagestunum, en eitthvað um miðjan hóp í hinum.
Ég hef verið að velta fyrir mér hvenær við getum byrjað að spila fótbolta aftur, auðvitað klæjar okkur í tærnar, en engum okkar dettur í hug annað en að fylgja leiðbeiningum og engum okkur dettur í hug að taka óþarfa áhættu.
Þannig að mér hefur dottið í hug hvort hægt sé að spila einhvers konar útgáfu af fótbolta án snertingar. Kannski hef ég að einhverju leyti spilað fótbolta þannig síðustu árin hvort sem er!
En þetta þarf ekki að vera flókið, reglurnar væru einfaldlega
- leikmaður með bolta má ekki nálgast annan nema utan tveggja metra, hvorki andstæðing né samherja, þetta þýðir að ekki verður mögulegt að „sóla“.
- að sama skapi getur andstæðingur þess sem er með boltann ekki „tæklað“ eða reynt að ná boltanum beint
- það verður samt hægt að
- skjóta á mark
- senda milli leikmanna
- verja skot
- grípa inn í sendingar
- það verður tilgreindur markvörður sem verður að halda sig innan markteigs (eða eins lítils svæðis og hægt er við markið) og aðrir leikmenn mega ekki fara inn í þann markteig
- þá held ég að það sé fín regla að viðkomandi markvörður megi verja með höndum en ekki grípa eða halda bolta
Einu tvö vandamálin sem ég sé er þegar boltinn er laus, þá gæti reynst snúið að halda tveggja metra fjarlægð… en það er einfaldlega eitthvað sem verður að virða.
Hitt er að ef ekki er hægt að „tækla“ eða taka boltann af leikmanni þá er auðvitað sá möguleiki að leikmaður liðs haldi einfaldlega boltanum endalaust. Annað sem gæti komið upp er að tveir leikmenn sendi endalaust sín á milli.
Sennilega er þarf að bæta við að
- leikmaður hafi í mesta lagi þrjár (fimm?) sekúndur með boltann á sama stað
- ekki megi senda til baka á leikmann nema hann hafi fært sig um tvo metra eða meira
En hvernig er með brot?
Ætli það sé ekki einfaldast að
- andstæðingar þess sem brjóta fjarlægðarreglur fái víti
- ef lið brýtur reglu um að halda bolta of lengi fá andstæðingarnir aukaspyrnu
Kannski, sennilega, mjög líklega er þetta tóm vitleysa og kemur aldrei til með að ganga upp… en mig langar að prófa þegar aðstæður leyfa.