Facebook samdráttur

Posted: apríl 9, 2020 in Spjall
Efnisorð:
Ég er ekki til í að hætta á Facebook, mér finnst frábært að fá fréttir af vinum og kunningjum og fólki sem ég kannast lítillega við… oftast fréttir myndi ekki heyra annars.
Þá finnst mér ómetanlegt að heyra af viðburðum, útgáfum og öðrum fréttum af áhugaverðum hlutum.
Ég get alveg haft gaman af að rökræða.
En ég nenni ekki lengur að rífast við fábjána. Við stutta greiningu er nokkuð ljóst að ég eyði allt of miklum tíma í að þrasa við fólk sem tekur ekki rökum, getur ekki unnið úr upplýsingum, veit ekki hvað heimildir eru, skilur ekki aðferðir vísindanna og er í einhverju klappliði fyrir einhverja stjórnmálahreyfingar.. jafnvel í forsvari fyrir þær og/eða að koma sér á framfæri.
En auðvitað get ég að mestu kennt sjálfum mér um. Ég á það (allt of oft) til að gera athugasemdir við fráleitar færslur og ég held áfram að svara furðulegustu athugasemdum.
Ég sem sagt nenni þessu ekki lengur.
Það er ekki svo gott (eða slæmt) að ég sé hættur að tjá mig um allt sem mér dettur í hug að hafa skoðun á.. en ég ætla að færa einfaldar athugasemdir yfir á Twitter og lengri „ræður“ yfir á ‘bloggið’ mitt, þeas. hér.
Á ‘blogginu’ er líka mun þægilegra að halda rökræðum og útiloka röflið.
Svo ég skýri aðeins nánar, þá á ég mjög bágt með að þola að fólk sé að koma núverandi forseta Bandaríkjanna til varnar, þar fer sannanlega getulaust og illa innrætt kvikindi, hættulegur einstaklingur.. svona ef ég held mig við að vera kurteis. Sama gildir um fólk sem telur sig geta haft „skoðun“ á loftslagsmálum. Ekki ætla ég heldur að þola sjálfskipaða veiru- og sóttvarnarfræðinga sem þykjast hafa töfralausnir og kalla þá sem eru í framlínunni þessa dagana öllum illum nöfnum. Ég þarf víst ekki að nefna orkupakkann lengur eða Klausturbárðana.
Ég er ekkert að banna fólki að hafa sínar undarlegu skoðanir, ekki frekar en ég banna fólki að ganga um á skítugum skónum heima hjá sér. En það er ekki í boði að viðra þetta hér á mínum vegg, ekki frekar en að það er í boði að ganga inn heima hjá mér á skítugum skónum.
Þeir sem ekki virða þetta fara einfaldlega af vinalistanum. Það þýðir ekki að mér sé eitthvað illa við viðkomandi og vilji ekki þekkja lengur, ég er ekki til í að fá svona rugl inn á Facebook vegginn minn, þetta er komið svo að þetta er ekki lengur eitthvað til að hlægja að, margt að þessu er einfaldlega stórhættulegt.
Og svo eru nokkur atriði sem ég skal alveg reyna að hafa þolinmæði fyrir en ég geri ráð fyrir að setja ‘unfollow’ á þá sem dæla þessu stöðugt, án þess taka af vinalistanum.
Þetta verður eflaust til að ég dett í gamli-geðstirði-gaurinn flokkinn, en sennilega lítið við því að segja, hvort sem er væntanlega ekki svo fjarri lagi:
  • Ég er frekar þreyttur á leikjum og áskorunum og þrautum, stundum gæti ég haft gaman ef, en mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja ‘deildu-án-skýringa’ áráttuna, þar fer eiginlega síðasta ástæðan fyrir því að hafa áhuga!
  • Ég nenni ekki að svara betli um „like“ og/eða ef-þú-manst-eftir-mér…
  • Þá er er frekar hvimleitt þegar fólk getur ekki komið frá sér einföldum texta án þess að setja á svokallaðan „tuddaflöt“, stóran flöt með feitletruðum texta sem tekur óþarflega mikinn hluta af skjánum og bætir engu við innihaldið.
  • Og svo auðvitað fólk sem er stöðugt að skipa mér fyrir með „ræðið“ og „deilið“… fyrir alla muni, hættið þessari frekju! Ég ræði það sem ég hef áhuga á að ræða og ég deili því sem ég hef áhuga á að deila.
  • Ég var víst búinn að nefna þreytandi gjammið frá þeim sem þurfa stöðugt að verja einhverja pólitíkusa, en sú vísa er seint of oft kveðin.
  • Og áróður fyrir og frá svonefndum ‘sósíalistaflokki’ fer í sérstakan flokk, þeir sem dreifa því fara umsvifalaust á ‘unfollow’.

Lokað er á athugasemdir.