Menningarnótt

Posted: ágúst 17, 2012 in Tónlist
Efnisorð:, ,

Ég hef lengi verið hrifinn af Menningarnóttinni í Reykjavík. Eins og ég hef áður tuðað um þá finnst mér hún aðeins hafa misst sjarmann með stórtónleikunum. Stórtónleikar geta verið fínir út af fyrir sig, en þessi dagur á (fyrir minn smekk) að ganga út á marga litla viðburði sem fara fram hver í sínu horni. Það sérstakt við Menningarnótt og það gerist bara þennan dag. Það er alltaf hægt að halda stórtónleika.

Við Fræbbblar spilum að þessu sinni á Dillon, eða réttara sagt í bakgarði Dillon, svona eitthvað nálægt hálfsjö.

Forsvarsmenn Menningarnæturinnar biðja fólk um að nota strætó frekar en að hrúga bílum í miðbæinn. Við höfum reynt að fylgja þessu (reyndar hafa græjuflutningar stundum truflað þau áform) en við lendum svo í að komast ekki heim. Strætó hættir nefnilega að ganga allt of snemma. Fyrir nokkrum árum var þetta lítið mál, við tókum strætó heim um sex leytið, en nú virðist strætó eingöngu hugsaður fyrir þá sem ætla að fara beint heim eftir flugeldasýningu.

Annars eigum við eftir að setja saman dagskrá… við kíkjum örugglega á myndlistarsýningar Rúnu á Loka og KexHostel. En svo er líka partur af stemmingunni að ráfa um og detta inn á eitthvað sem virðist forvitnilegt.

Lokað er á athugasemdir.