Að „smána“ erlent ríki

Posted: ágúst 17, 2012 in Umræða

Ég skal játa að dómurinn yfir Pussy Riot kom mér aðeins á óvart, ég átti von á réttarhöldum og í versta falli skilorðsbundnum dómi sem einhvers konar viðvörun. Annars held ég að allt hafi verið sagt sem þarf að segja um þetta mál og í rauninni aðeins einn einstaklingur hér á landi – mér vitanlega – sem hefur varið framgöngu stjórnvalda.

Hitt er annað að í fréttum er talað um að þeir sem stóðu að mótmælunum við rússneska sendiráðið geti átt von á ákæru vegna þeirra [ég hafði hugsað mér að mæta en átti ekki kost á því].

Þetta ku vera byggt á einhverri lagagrein sem segir

Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.

Nú finnst mér viðkomandi lagagrein fráleit. Það er sjálfsagt að sýna öðrum ríkjum kurteisi, en það er líka allt í lagi að láta heyra í sér þegar við á…

En ef hugmyndin er að ganga eftir bókstafnum að þessu leyti þá verður væntanlega gerð krafa um að henni verði fylgt eftir í öllum tilfellum. Skyldi vera fyrningarfrestur á svona „smánun“?

Það er eins og mig minni að harðstjórar hafi fengið það óþvegið í ummælum frá ýmsum forystumönnum í íslenskum stjórnmálum, oftar en ekki verðskuldað, og engum hafi dottið í hug að grípa til þessarar greinar.

Hvers vegna núna?

Lokað er á athugasemdir.