Gagnrýnislaust kjaftæði á Rúv

Posted: ágúst 26, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Kannski er ég óheppinn með að hlusta á útvarpið, geri það auðvitað ekki mikið, vinnunnar vegna. En mér finnst gagnrýnislaust kjaftæði fara vaxandi á Rúv. Þetta á auðvitað líka við um aðra miðla. En ég gagnrýni RÚV hér vegna þess að ég hef heyrt of mörg dæmi nýlega og vegna þess að ég geri aðrar kröfur til Rúv en sjálfstæðra miðla.

Um daginn flutti, annars ágætur grínisti, pistil þar sem hann endurtók bábiljur og fullyrðingar samsæriskenningasmiða sem standast enga skoðun. Kannski (vonandi) var þetta grín hjá honum.

Í gær heyrði ég viðmælendur, sem voru að auglýsa bók og geisladisk í spjallþætti, vera að röfla eitthvað um að tala við frumurnar í líkamanum.

Og fyrir nokkrum vikum birti fréttastofa Rúv „frétt“ þess efnis að klínískar rannsóknir hefðu sannað að eitthvert seyði virkaði sem lyf í baráttu við ákveðinn sjúkdóm. Daginn eftir þurfti Rúv að leiðrétta fréttina, það hafði engin rannsókn sýnt fram á nokkra virkni. Rannsóknin hafði sýnt fram á að það væri skaðlaust að drekka þetta. Með öðrum orðum, það gerði ekki neitt til eða frá.

Annað dæmi er þegar fréttastofa Rúv birti gagnrýnislaust fullyrðingar annars aðila í viðkomandi deilumáli án þess að hafa fyrir að leita álits mótaðila. Ég sendi viðkomandi fréttamanni tölvupóst og spurði hvort ekki hefði verið við hæfi að fá fram fleiri skoðanir. Hann sá ekki ástæðu til að virða það viðlits og svara mér, hvað þá að bregðast við.

Og ekki má gleyma heilum Kastljósi þætti í vetur þar sem einstaklingur fékk að fara athugasemdalaust með staðlausa stafi um þekkta einstaklinga án þess að viðkomandi einstaklingar fengju tækifæri til að svara. Ég spurði stjórnendu Kastljóss hvort ekki hefði verið við hæfi að fá sjónarmið þeirra sem verið var að úthúða, en fékk engin svör. Og ekki var þeim gefinn kostur á að koma í Kastljós og svara fyrir sig.

Nú er ég ekki að fara fram á að undarlegar skoðanir séu bannaðar. En ég geri kannski kröfu til fréttastofunnar að hún kanni hvort einhver fótur sé fyrir frétt – áður en hún fer í loftið. Kannski eiga pistlahöfunar að hafa frítt spil, svona að einhverju leyti, en væri þá kannski möguleiki að fá pistla til mótvægis?

Mér finnst ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til Kastljóss að þar sé gætt hlutleysis og báðir aðilar fái að skýra sín sjónarmið í deilumálum.

Og mér finnst allt í lagi að þáttastjórnendut staldri við fráleitar fullyrðingar viðmælanda þó ekki væri annað en að spyrja hvað viðkomandi hafi fyrir sér í fullyrðingunum.

En, þetta ber auðvitað ekki að skilja sem einhverja alls herjar gagnrýni á Rúv, þar er fullt af fínum þáttum.. en stundum má gera betur.

Athugasemdir
  1. Hilmar skrifar:

    Ég er sammála þér með Kastljósið. Sá þáttur hefur jafnt og þétt verið að þynnast út. Vægast sagt er tilviljunarkennt hvað þar er tekið fyrir hverju sinni og þá oftar en ekki er það efni í litlu samhengi við fréttir eða atburði líðandi stundar.
    Þá má kvalítetið á fréttamönnum þáttarins sannarlega muna sinn fífil fegri.

    Rás 2 er orðin ein og hver önnur síbyljustöð og er þá síðdegisútvarpið ekki undanskilið.
    Í raun er mér með öllu óskiljanlegt af hverju Rásin er ekki lögð af og gufan eða sjónvarp styrkt í staðin.

  2. Tja, þetta var nú reyndar ekki hugsað sem allsherjar gagnrýni á Rúv, heldur ábending um það sem mætti betur fara. Kannski geri ég miklar kröfur til fréttastofu og fréttatengdra þátta – en mér finnst allt í lagi að gera kröfur. Ég vil ekki taka eins djúpt í árinni með Kastljósið, þau hafa oft átt góða þætti og staðið sig vel. Hitt er svo stærri (eða önnur) spurning, hvort Rúv á að reka Rás 2… tökum þá umræðu seinna.