Þá bættist veitingastaður Friðriks V á Laugavegi við uppáhaldsveitingastaðalistann okkar – sem er nú ekki mjög langur. Humarhúsið, Við Tjörnina, Dill og Forrétttabarinn eru þar fyrir.
En bæði eru réttirnir einstaklega fjölbreyttir og spennandi, þjónusta til fyrirmyndar og umhverfið smellpassar.
En það sem er heillandi við staði eins og Friðrik V er að það er ekki einn stór og þungur aðalréttur heldur margir spennandi smáréttir. Og það að kynna hvern rétt í smáatriðum, hvernig hann er samsettur, hvaðan hráefnið kemur og hvaða vín er með gefur kvöldinu alveg sérstaka stemmingu. Það er ekki verið að flýta sér að „fóðra“ gestina heldur fær hver réttur sinn sess og fulla athygli. Auðvitað voru réttirnir mismikið fyrir minn smekk – eins og gengur – fyrr mætti nú vera – en það er enginn að klikka, allir voru spennandi og sumir voru beinlínis frábærir.
Jú, það er rétt að taka fram að ég þekki Friðrik nákvæmlega ekki neitt – þeas. fyrir utan ágætisspjall úti á götu eftir matinn – hann hafði reyndar reynst syninum vel fyrir nokkrum árum.