Popppunktsúrslit

Posted: ágúst 19, 2012 in Tónlist
Efnisorð:,

Þá er víst í lagi að segja frá því að ég mæti í úrslitaþátt Popppunkts í kvöld.

Ég hef alltaf haldið mikið upp á þennan þátt. Mér þykir umfjöllunarefnið stórskemmtilegt og hef alltaf haft gaman af sögum úr þessum „heimi“ – jafnvel af tónlistarfólki sem ég hef ekkert sérstaklega gaman af að hlusta á.

Ég reyndi að ná öllum þáttum Ingólfs Margeirssonar um Bítlana, ég hafði gaman af umfjöllun Ólafs Teits (sem er einmitt í liði „andstæðinganna“ í úrslitunum) um Pink Floyd og ég hlustaði á Guðna Rúnar tengja U2 við biblíuna. Og auðvitað fleiri.. Og ég reyni að ná Óla Palla í Rokklandi á hverjum sunnudegi og aftur skiptir litlu hvort ég hlusta á tónlist viðkomandi eða ekki.

Þá spillir ekki að þeim félögum, Gunnari og Felix – og væntanlega nokkuð mörgum sem ekki sjást á skjánum – hefur tekist alveg einstaklega vel til við að hafa hæfilega blöndu af almennum fróðleik, forvitnilegum smáatriðum og smáskammt af tilviljunum til að hafa þættina spennandi.

Það er reyndar þannig að þó ég viti fáránlegustu smáatriði og hafi einhverja þekkingu á nokkrum sviðum, þá er fyrir það fyrsta farið að fenna yfir ansi margt – og annað tekur einfaldlega allt of langan tíma að sækja í sívaxandi og stöðugt hægvirkari upplýsingabanka í hausnum.

Svo eru heilu tímanbilin sem ég fylgdist nánast ekkert með og allt of margar tónlistarstefnur sem ég hef einfaldlega engan áthuga á. Þannig að þó ég hafi gaman af hinum ýmsu sögum þaðan, þá man ég sjaldnast nokkuð af þeim.

Og.. svo er miklu auðveldara að svara heima í stofu en í keppninni sjálfri.  Gott dæmi er að einu sinni var spurt hvaða hljómsveit hefði gefið út ákveðið lag. Ég þekki hljómsveitina vel – bæði persónulega og við höfðum spilað með þeim – og ég hélt mikið upp á lagið sem var tiltölulega nýtt. Ég átti meira að segja alveg eins von á spurningunni. Það tók mig samt óratíma að koma svarinu óbrengluðu frá mér.

Þetta er þriðja þáttaröðin sem ég mæti í Popppunktinn. Við Fræbbblar mættum í fyrstu seríu og duttum þar út í undanúrslitum fyrir Rúnari Júl og sonum, án þess að vera okkur neitt sérstaklega mikið til skammar (vona ég) gegn öflugu liði þeirra feðga.

Síðan var einhvers konar „úrvalssería“ þar sem þeim sem hafði gengið hvað best á fyrstu árum var boðið að vera með. Í fyrstu umferð slógum við Fræbbblar út sigurvegara fyrsta árs, Ham, en áttum svo ekki möguleika á móti Geirfuglunum í annarri umferð.

Og mér sýnist að við eigum ekkert sérstaklega mikla möguleika á móti stóriðjunni. En það er allt í lagi, það er gaman að fá að mæta einu sinni í úrslitaþáttinn.

PS. uppfærði færsluna aðeins.

Lokað er á athugasemdir.