Aumingja Einstein

Posted: ágúst 29, 2012 in Umræða
Efnisorð:

Nú hef ég enga trú á fra haldslífi og því auðvitað tilgangslaust að tala um að vorkenna löngu látnum manni. Hvað þá að tala um að hann myndi snúa sér við í gröfinni – nema auðvitað sem líkingamál. En sumir, sem vakta færslurnar mínar, hafa ekki lesskilning til að skilja litbrigði ritmáls eða líkingar…

En mér finnst óneitanlega ömurlegt að horfa á allar tilvitnanirnar í Einstein þar sem einhver bölvuð þvæla er höfð eftir honum, sem hann hefur aldrei látið út úr sér og engar heimildir finnast um.

Það er vinsælt hjá að trúboðum að vitna í Einstein, hann á að hafa sagt eitt og annað sem trúaðir taka sem sönnun þess að hann hafi verið trúaður.

Annar hópur sem nauðgar minningu Einstein er fólk sem trúir nánast hvaða samsæriskenningu sem er og hefur enga hæfileika til að greina hvað stenst skoðun og hvað ekki.

Nú skil ég ekki tilganginn með að reyna að tengja sig við Einstein. Einstein var afburða vísindamaður og hefði líkast til haft skömm á aðferðum þeirra sem trúa óstaðfestum kjaftasögum, getgátum, kerlingabókum og tilvist hindurvitna. Ekki það að ég þykist geta haft það eftir honum, en það er ekki flókið að reikna út að maður sem vann þrekvirki á vísindasviðinu hafi ekki mikla trú á óstaðfestum og grautarlegum kenningum.

En hvað veldur? Hvaðan kemur þessi, nánast sjúklega, þörf til að tengjast Einstein?  Svona að nokkru eins og smákrakkar sem hoppa í mynd þegar verið er að taka viðtal við þekkta íþróttamenn.. Jú, sennilega vegna þess að hann var virtur vísindamaður og tilvitnun í virtan vísndamann gefur til kynna að viðkomandi hafi nú þekkingu á vísindum.

En þetta verður svo kjánalegt sjálfsmark þegar í ljós kemur að viðkomandi hafði ekki burði til að kanna einu sinni hvort heimildirnar sem hann vísar til séu réttar.

Lokað er á athugasemdir.