Sarpur fyrir ágúst, 2012

Menningarnótt

Posted: ágúst 17, 2012 in Tónlist
Efnisorð:, ,

Ég hef lengi verið hrifinn af Menningarnóttinni í Reykjavík. Eins og ég hef áður tuðað um þá finnst mér hún aðeins hafa misst sjarmann með stórtónleikunum. Stórtónleikar geta verið fínir út af fyrir sig, en þessi dagur á (fyrir minn smekk) að ganga út á marga litla viðburði sem fara fram hver í sínu horni. Það sérstakt við Menningarnótt og það gerist bara þennan dag. Það er alltaf hægt að halda stórtónleika.

Við Fræbbblar spilum að þessu sinni á Dillon, eða réttara sagt í bakgarði Dillon, svona eitthvað nálægt hálfsjö.

Forsvarsmenn Menningarnæturinnar biðja fólk um að nota strætó frekar en að hrúga bílum í miðbæinn. Við höfum reynt að fylgja þessu (reyndar hafa græjuflutningar stundum truflað þau áform) en við lendum svo í að komast ekki heim. Strætó hættir nefnilega að ganga allt of snemma. Fyrir nokkrum árum var þetta lítið mál, við tókum strætó heim um sex leytið, en nú virðist strætó eingöngu hugsaður fyrir þá sem ætla að fara beint heim eftir flugeldasýningu.

Annars eigum við eftir að setja saman dagskrá… við kíkjum örugglega á myndlistarsýningar Rúnu á Loka og KexHostel. En svo er líka partur af stemmingunni að ráfa um og detta inn á eitthvað sem virðist forvitnilegt.

Að sparka í eigin fót

Posted: ágúst 16, 2012 in Fótbolti

Þessi fyrirsögn hljómar sennilega betur á útlenskur („to kick yourself in the foot“) en merkingin ætti að nást.

Ég er enn eina ferðina að pirra mig á græðgi knattspyrnumanna. Menn á svimandi háum launum rjúka í fýlu og skipta um lið vegna þess að þeir fá ekki nógu há laun. Nú get ég alveg skilið að menn í þessari stöðu vilji nýta tækifærið, hafa það gott og tryggja sig og sína. En „Sexfalt meiri tekjur en ég get mögulega eytt á ævinni er engan veginn nóg, ég þarf sjöfalt. Bless“… hljómar, ja, eins og það hljómar.

Margir röfla eitthvað um metnað og að vinna bikara. Það þarf ekki mikla þekkingu til að vita að það er engin ávísun á fjölda titla þegar félög kaupa allt sem hreyfist á leikmannamarkaði. Real Madrid er kannski augljósasta dæmið. Og jú, ég veit að stundum hefur þetta tekist, amk. tímabundið. En ég er eitthvað að misskilja hugtakið „metnað“ þegar menn fara frá stóru félagi þar sem þeir geta spilað hvern leik sem fyrirliði í topp baráttu á stærstu mótum heims, með góða möguleika á titlum – til þess að sitja að einhverju leyti á bekknum og láta aðra um að vinna fyrir sig titla. Ef það tekst þá yfirleitt.

Ég velti fyrir mér hvort það komi að því að áhorfendum blöskri og áhuginn á íþróttinni minnki. Þeir borga jú brúsann, beint eða óbeint. Og ef áhuginn minnkar þá minnka tekjur leikmanna. Kannski ekki á allra næstu árum… en næsta kynslóð gæti farið að finna fyrir þessu.

UEFA er reyndar að setja reglur sem er ætlað að hafa hemil á vitleysunni, en fljótt á litið er ekki snúið að fara fram hjá þeim.

PS. Mitt lið í enska boltanum er Derby County, þó ég hafi oftar en ekki lýst aðdáun minni á þeim fótbolta sem Arsenal spilar og þeirri stefnu að reyna að minnsta kosti að takmarka ruglið í kringum laun leikmanna.

Ég sé að í grein í Fréttablaðinu skrifa tveir (að ég held) prestar grein þar sem bent er á að ekki þýði að taka biblíuna bókstaflega og úr samhengi við menninguna eins og hún var þegar textinn var ritaður.

Þetta er auðvitað hárrétt.

Auðvitað dettur engum í alvörunni í hug að einhver föðurleg vera hafi skapað heiminn á sjö dögum, spjallað sérstaklega við nokkra útvalda eða stýrt heilu plágunum, hvað þá syndaflóði.

Og auðvitað tekur (vonandi) enginn bókstaflega að einhver hafi fæðst meyfæðingu og síðan risið upp frá dauðum.

Það er verst að þegar búið er að sía út það sem engan veginn á við á okkar tímum – þá stendur nú ansi lítið eftir. Nema kannski ættartölurnar. Og það sem eftir stendur að öðru leyti – og er einhvers virði – má finna í flestum öðrum lífsskoðunum.

Hitt er svo annað mál, að sá hatursáróður sem (væntanlega) er tilefni þessara skrifa er ekki að neinu leyti tekinn úr samhengi.

Og svo er auðvitað þriðja atriðið. Skilji ég rétt þá er biblían orð guðs, skrifuð undir hans leiðsögn (innblæstri). Ef það sem þar stendur er svo háð menningarsamfélaginu á hverjum tíma (hjá gyðingum að mestu leyti) þá er þetta frekar undarleg yfirnáttúruleg vera, þeas. sem sveiflast í skoðunum eftir samfélagi mannanna hverju sinni.

Getur verið að það sé kominn tími til að horfast í augu við hvað þessi bók er í rauninni?

Og leggja um leið af allt hatrið sem byggir á tilvitnunum í hana?

Fræbbblar og málverkasýning

Posted: ágúst 9, 2012 in Myndlist, Tónlist

Við Fræbbblar tökum nýtt hlutverk að okkur annað kvöld, föstudagskvöldið 10. ágúst – við spilum á opnun myndlistarsýningar Guðrúnar Benediktu Elíasdóttur á KexHostel, sjá nánar http://sim.is/syningar/gudrun-benedikta-eliasdottir-med-tvaer-syningar/.

Við höfum sem sagt ekki tekið oft þátt í svona viðburðum, ég man ekki eftir neinu sambærilegau, en klárlega kominn tími til. Ég veit ekki hversu lengi við spilum, en við hættum væntanlega um ellefu leytið.

Léttari og „spjallvænni“ tónlist er kannski hefðbundnari opnunarhátíðartónlist, en þetta eru sérstakar og kraftmiklar myndir – og passar vel að hafa öðru vísi tónlist.