Og sá íþróttamaður sem má drulla yfir næstu daga er…

Posted: desember 30, 2013 in Fótbolti, Umræða
Efnisorð:,

og ekki gleyma meðlimum í samtökum íþróttafréttamanna, það má hrauna yfir þá núna eins og allt árið, nánast skylda.

Gott og vel, ég veit að það þýðir ekkert að blanda mér í umræðuna um íþróttamann ársins. En ég hef ekki enn lært að þegja þegar mér misbýður..

Ár eftir ár er eitthvert tilefni til að skammast yfir valinu.

Gott og vel. Það er ekkert að því að hafa skoðun á því hver á þetta helst skilið, það er hægt að færa góð og gild rök fyrir að nokkrir hefðu átt titilinn skilið árið 2013. Gylfi Þór er vel að titlinum kominn, ég hefði sett hann í fyrsta sæti, en bara mín skoðun. Hefur til dæmis ekkert með kyn að gera.

Það er einfaldlega erfitt að velja á milli einstaklinga sem keppa í einstaklingsgreinum annars vegar og þeirra sem keppa í hópíþróttum hins vegar. Það er ekki sjálfgefið hvernig á að meta árangur í aldurskiptri keppni á móti árangri í keppni þar sem allir eru með. Hvað þá að nokkrar skýrar viðmiðanir séu um það hvernig á að „verðleggja“ árangur í grein sem 270 milljónir stunda, tugir þúsunda horfa á viðkomandi einstakling keppa vikulega og milljónir sjá í sjónvarpi, grein þar sem fáránlega há laun draga kannski að þá hæfileikaríkustu… á móti öðrum greinum.

En umræðan er að þróast út í hreint og klárt skítkast… hver Facebook færslan poppar upp á eftir annarri þar sem gert er lítið úr frammistöðu Gylfa með rangfærslum og/eða misskilningi. Þetta er út í hött, það má deila um vægi árangurs Gylfa, en hvers vegna að hrauna yfir hann með útúrsnúningum? Og hvers vegna að gera lítið úr honum, þó einhverjum þyki árangur annarra meira virði?

Samhliða þessu hrúgast inn athugasemdir sem ganga út á einhvers konar kynja samsæri hjá samtökum íþróttafréttamanna. Það er einfaldlega fráleitt að halda því fram að kyn hafi ráðið úrslitum, ég man til dæmis eftir fullt af körlum sem hafa náð frábærum árangri í yngri eða eldri flokkum en ekki orðið fyrir valinu.

Ég legg til að þessum útnefningum verði hætt.. þá á enginn skilið að lenda í því sem virðist óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera útnefndur íþróttamaður ársins.

Taka kannski upp „lakasti íþróttamaður ársins“, þá væri kannski einhver innistæða fyrir skítkastinu.

Lokað er á athugasemdir.