2013

Posted: desember 31, 2013 in Spjall

Er ekki við hæfi að „gera árið upp“ svona þegar það er rétt að hverfa? Kannski ekki, en samt…

Fyrsta hugsun er að þetta hefur verið nokkuð gott ár, að minnsta kosti fyrir okkur hér í fjölskyldunni. Við Iðunn erum enn með góða vinnu (vinnur?), Andrés hefur unnið allt árið, Guðjón nýlega kominn með vinnu og Viktor sinnir nokkrum störfum – og er á leiðinni í framhaldsnám. Guðjón flutti aftur heim í Kaldasel en Viktor flutti út í haust.

Stóra afmæli ársins var hjá okkur Iðunni, við áttum þrjátíu ára brúðkaupsafmæli 6. maí.

En ætli árið verði ekki fyrst og fremst minnistætt fyrir góða tíma með góðu fólki.

Einifellsferðirnar hafa verið nokkrar í frábærum hóp og GoutonsVoir matarklúbburinn hefur hist oft á árinu og átt ógleymanlegar stundir.

Sambindið hittist reglulega, helgarferð í upphafi ársins kannski það sem ber hæst.

Annar ónefndur matarklúbbur hittist reyndar sjaldnar en er ekki síður skemmtilegur.

Fótboltahópurinn „Postularnir“ hittist reglulega yfir vetrartíminn í fótbolta og „uppskeruhátíðir“ hópsins tvisvar á ári eru með skemmtilegustu helgum ársins. Þá hittist hópurinn nokkrum sinnum að spila póker, gjarnan með öðrum gestum.

Og ekki ætla ég að gleyma fjölmörgum fjölskylduhittingum, bæði reglulegum og óreglulegum.

Við Fræbbblar reynum að æfa vikulega, þó það takist reyndar ekki alltaf. Við spiluðum átta sinnum á árinu og gáfum út tvö lög. Í nóvember voru liðin þrjátíu fimm ár frá því að við spiluðum fyrst. Þar fyrir utan hittumst nokkrum sinnum utan æfinga… að elda, éta og drekka.

Við Iðunn mættum nokkrum sinnum í viku í Karate hjá Breiðablik, hefðum kannski mátt ná betri mætingu, en þetta mjakast.

Svo eru alltaf skemmtilegir fastir og lausir viðburðir, sumargrill, frænkuhittingur, jólamót í skák, áramót í bridge, skötuveisla, laufabrauðsgerð, hugþraut („mænd-geims“).

En skemmtileg ferðalög, aðallega út fyrir landssteina, voru óvenju mörg og einstaklega vel heppnuð.

Í upphafi ársins fórum við (næstum því) árlega helgarferð til London með Höskuldi og Sirrý þar sem við kíktum á Arsenal-Stoke og hittum á frábæra veitingastaði, sérstaklega með Katý og Óla.

Næsta ferð var til Amsterdam á úrslitaleikinn í Evrópudeildinni, Benfica-Chelsea. Við fengum fjóra miða og við mættum þrír, ég, Alli og Maggi. Dísa (kona Magga) kom og var með okkur um helgina, en fáránlegt verð á flugi, sló út að Iðunn kæmist líka. Stemmingin í borginni var frábær og eiginlega alltaf gaman að koma þarna.

Við fórum svo í ógleymanlega siglingu í júní frá og til Barcelona með viðkomu í Túnis, Ítalíu, Frakklandi og Monaco. Alli, Magnús & Sylvía voru með, en hugmyndina áttu þau Anna-Lind og Skúli sem voru að ferðast með synina fjóra. Fyrir fáránlega tilviljun hafði Guðjón kynnst undarlegri en moldríkri norskri stúlku sem hafði boðið honum, einmitt, til Barcelona og hélt honum uppi þar. En eitthvað gekk erfiðlega að fá uppfyllt loforð um að hann kæmist heim þegar hann vildi, enda stúlkan hálf bjargarlaus án hans. En það nýttist honum á endanum að við vorum á leiðinni heim.

Iðunn fór svo á ráðstefnu til Marrakech í Marokkó og getur ekki beðið eftir að komast þangað aftur, helst í úlfaldaferð.

Ég fór svo á ráðstefnu til Boston í október með Jóni Eyfjörð. Iðunn og Jóhanna (kona Jóns) ákváðu að koma með og vera með okkur í nokkra daga áður en ráðstefnan byrjaði. Ráðstefnan var fín, en dagarnir áður voru alveg sérstaklega vel heppnaðir, Jón var búinn að kortleggja veitingahús borgarinnar og finna veitingastaði sem toppuðu hver annan.

Ferðirnar innanlands voru færri, aðallega Einifellsferðir og jú, góð ferð í bústað með Brynju og Gauta. Ferð með systkinum, Öggu og Kidda og Magga mági á Fiskidaginn á Dalvík var eins vel heppnuð og fyrri árin..

Að öðru… þá voru stærstu vonbrigði ársins uppgjöf í stjórnarskrármálinu. Úrslit alþingiskosningarnanna voru talsverð vonbrigði en sem betur fer voru nú grófustu kosningaloforðin svikin, eða eru réttara að kalla þetta „kosningahótanir“?

Það var gaman að fylgjast með karlaliði Breiðbliks í fótbolta framan af sumri, sérstaklega var frábær árangur í Evrópudeildinni skemmtilegur… en sumarið varð þó frekar endasleppt. Landsliðið í fótbolta átti svo sitt besta ár og var grátlega nálægt sögulegum árangri. Á Englandi er mitt lið til meira en fjörutíu ára á mikilli siglingu í næst eftstu deild og Arsenal á toppnum í úrvalsdeildinni um áramótin.

Svo kom upp undarlegt tilfelli þar sem ég sá um mína fyrstu hjónavígslu sem athafnastjóri Siðmenntar.

Þá var undarlegt að horfa á kosningasjónvarp heima eftir að hafa unnið við útsendingar fr á 1986, að 1995 slepptu. Báðar stöðvarnar ákváðu að sjá sjálfar um sín mál, sem var svo sem í góðu lagi og auðvitað kominn tími á að hætta þessu… en ég hefði óneitanlega þegið að öðru vísi hefði verið staðið að þessu.

Þá verður ekki sleppt að hugsa til þeirra sem létust á árinu. Ingólfur Júlíusson, gítarleikari, ljósmyndari og eðaldrengur lést fyrri hluta ársins eftir stutta baráttu við illvígan sjúkdóm. Konni, Bliki (ég held að þetta sé besta tengingin), lést einnig á árinu – einn af þessum öðlingum sem ég kynntist þegar ég starfaði fyrir Breiðablik. Þá missti nokkrir vinir fjölskyldumeðlimi… kannski er þetta óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera kominn á miðjan sextugsaldur, jarðarförunum fjölgar á hverju ári.

En fyrir áhugasama eru nánari fréttir hér frá seinni hluta ársins og hér fyrir fyrri hluta ársins.

Lokað er á athugasemdir.