Meirihlutastjórnir og eggin..

Posted: nóvember 16, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Getur hugsast að þessi ofur áhersla á meirihlutastjórnir sé einfaldlega misskilningur, hugsanavilla og/eða tímaskekkja? Að minnsta kosti ekki endilega besta leiðin til að taka sem bestar ákvarðanir.

Það virðist til að mynda ekki ganga neitt sérstaklega illa hjá þeim þjóðum sem búa við minnihlutastjórnir til lengri eða skemmri tíma.

Meirihlutastjórnir geta nefnilega valdið því að minnihluti ráði í ákveðnum málum.

Og meirihlutastjórnir geta hæglega orðið til þess að slæmar ákvarðanir eru teknar.

Tökum dæmi um egg.

Egg voru aðal þrætuepli (þrætuegg?) í kosningabaráttunni.

Segjum sem svo að það séu fjórir flokkar á þingi, þrír þeirra (td. hver með 5 þingmenn) mynda ríkisstjórn og á stefnuskrá þeirra er að allir landsmenn borði eggin sín með því að snúa breiðari hlutanum niður.. um þetta eru þeir allir sammála í þingflokkunum sem mynda ríkisstjórnina og góður meirihluti fyrir þessu á þingi.

En málið vandast þegar kemur að því að spæla eggin. Þá eru tveir flokkanna harðir á því að nauðsynlegt sé að landsmenn spæli egg sín báðum megin, en einn sannfærður um að eggin séu miklu betri ef þau eru aðeins spæld öðru megin, saman gildir um eina stjórnarandstöðuflokkinn (með sína 10 þingmenn), þeirra skoðun er augljós, það fer ekkert á milli mála að landsmenn séu mun betur settir ef þeir spæli sín egg aðeins öðru megin.

En í stjórninni er meirihluti (10 á móti 5) fyrir því að spæla egg báðum megin og þess vegna verður það hluti af stjórnarsáttmála að spæla egg báðum megin því eini flokkurinn sem er á móti gefur eftir fyrir hinum tveimur í stjórnarmyndunarviðræðunum.

En þá er minnihlutinn kominn í „meirihluta“, þeas. ræður í gegnum meirihluta, þrátt fyrir að vera í minnihluta (10 á móti 15).

Svo má auðvitað taka þetta enn lengra og skoða hvað gerist þegar ákveða þarf hvort það eigi að setja pipar í eggjahrærur. Þá er ekki eining innan flokkanna. Naumur meirihluti tveggja stjórnarflokkann vill ekki sjá pipar í eggjahrærum, allir meðlimir þriðja stjórnarflokksins og allir meðlimir stjórnarandstöðunnar geta ekki hugsað sér eggjahræru án pipars. En innan flokkanna tveggja ræður meirihluti (3 á móti 2) þannig að tveir stjórnarflokkanna krefjast piparlausra eggjahræra. En eðli meirihlutastjórna er þannig að lítill minnihluti (6 á móti 19) ræður sem meirihluti! Þetta dæmi á reyndar frekar almennt við um „flokksræði“ og „flokksaga“ sem er að mínu viti afskaplega vont fyrirbæri.

Egg eða ekki egg – hlífið mér við fimm aurabröndurum, þeir eru of augljósir – en þessi dæmi lýsa vel gallanum á meirihlutastjórnum.

Fyrir all löngu kynntist ég einstaklinga sem var sérstaklega áhugasamur um stjórnmál – og er enn, að því er ég best veit – látum nafn liggja á milli hluta enda er langt um liðið og ég er ekki alveg viss um hvort ég fari nákvæmlega rétt með.

En þessi einstaklingur skilgreindi lýðræðið sem rétt kjósenda til að skipta um stjórnvöld á nokkurra ára fresti og að meirihluti þyrfti að taka tillit til minnihlutans.

Nú heyrist mér að eitt helsta umkvörtunarefni nýlegrar ríkisstjórnar sé að minni hlutinn hafi beitt eina tækinu sem þau höfðu til að stöðva óæskileg mál, hið svokallað málþóf. Auðvitað er málþó hvimleitt, en það er neyðarúrræði ef meirihlutinn hefur bitið í sig að vaða áfram án tillits til minnihlutans.

Þess vegna eru minnihlutastjórnir kannski betri kostur, þær þurfa að taka tillit til annarra, hlusta á rök, gera málamiðlanir og ná sátt um lausn. Ég er ekki frá því að í flestum tilfellum skili það betri niðurstöðu en ef minni hlutinn veður áfram.

Og ef minnihlutastjórnir þurfa að taka tillit til annarra, þá eru þær kannski lýðræðislegri en meirihlutastjórnir.

Lokað er á athugasemdir.