Archive for the ‘Fótbolti’ Category

Við mættum á forsýningu á heimildarmynd þeirra Sævars og Sölva, „Jökullinn logar“, um þátttöku íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í undankeppni EM2016.

Það kom svo sem ekkert á óvart öll vinnsla er fyrsta flokks, klipping, hljóð, myndataka – gott og vel, auðvitað að undanskildum fjölskyldu upptökum af leikmönnum þegar þeir voru litlir, en innihaldið vegur heldur betur upp tæknilegar takmarkanir.

En, sem sagt, myndin er einstaklega vel heppnuð.. ekki bara ná þeir að festa sögulegan „leiðangur“ á filmu heldur ná þeir að setja hann í skemmtilegt samhengi og kynna þá einstaklinga sem sköpuðu þetta ævintýri. Tengingin við náttúruna er sérstaklega vel heppnuð og sama gildir um stoltið.. þeir ná þessu án þess að fara nokkurn tímann yfir strikið.

Þetta er auðvitað ómissandi mynd fyrir alla sem hafa minnsta áhuga á fótbolta og alla sem hafa fylgst með ótrúlegri leið landsliðsins.

En þetta er líka saga einstaklinga sem eru að eltast við (nánast) ómögulegt markmið.

Þú þarft ekki að vera áhugamaður um fjallgöngur til að njóta Everest. Og þú þraft ekki að hafa nokkurn minnsta áhuga á fótbolta til að þessi mynd heilli þig.

Jökullinn logar - 4

Dýfur, lyf og annað svindl

Posted: apríl 9, 2015 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Ég hef gaman af að horfa á góðan fótbolta. Eyði reyndar allt of miklum tíma í að horfa á leiðinlegan fótbolta, eftir að fótboltarásum fjölgaði á heimilinu, en það er önnur saga.

Einhvern veginn finnst mér sem dýfur leikmanna séu í sögulegu hámarki.. kannski er bara verið að grípa fleiri með betri tækni, en þetta er óþolandi og allt, allt of mikið.

Og það sem verra er, margir „spekingar“ tala um að þetta sé nú bara allt í lagi.. mikið undir og leikmenn eigi að gera það sem þeir geti fyrir sitt lið.

Kjaftæði.

Hættið að segja leikmönnum og áhorfendum að þetta sé í lagi. Þetta er svindl. Alveg á sama hátt og að taka ólögleg lyf, fela ás uppi í erminni, stytta sér leið og þar fram eftir götum..

En þar til ekki er tekið á þessu á sama hátt og öðru svindli – og á meðan svona hegðun er afsökuð í bak og fyrir þá breytist auðvitað ekkert.

Er ekki hreinlegast að taka á þessu eins og hverju öðru svindli, svo sem lyfjanotkun? Leikmaður sem sannanlega dýfir sér í leik fái þannig eins til þriggja ára leikmann.

Úrslitaleikurinn…

Posted: júlí 13, 2014 in Fótbolti

Þá er bara að reyna að spá einhverju fyrir um úrslitaleikinn á HM… nánast engin spá hefur gengið eftir hjá mér þannig að ég verð að reyna einu sinni enn.

Þýska liðið er það lið sem hefur heillað mig einna mest í keppninni í Brasilíu. Það er ekki bara leikurinn á móti heimamönnum, heldur nánast í öllum leikjum sem ég hef séð til þeirra.. mis mikið auðvitað. Hér áður fyrr gat ég aldrei haldið með Þjóðverjum, mér fannst þeir spila grófan, stórkarlalegan og óspennandi fótbolta þar sem oftar en ekki var hugsað frekar um manninn en boltann. Auðvitað var þetta einföldun, en það gengur ekki að hafa sí breytilega eða flókna fordóma.

Síðustu ár hefur áferðin breyst talsvert á leik liðsins, liðið spilar góðan bolta og að öðrum ólöstuðum hefur Özil kannski hrifið mig mest.

Argentínumenn hafa gjarnan verið með frábæra einstaklinga en um leið farið í taugarnar á mér áratugum saman. Í einföldum heimi staðalmynda fótbolta landsliða þá hafa þeir verið liðið sem fann upp á leikaraskap.

Ég ímynda mér að ef Argentína og Þýskaland myndu spila fimm leiki (til þrautar) þá ynnu þjóðverjar fjóra og Argentínumenn einn – en þessi eini gæti allt eins verið úrslitaleikurinn á sunnudaginn. Úrslitaleikurinn er auðvitað bara einn leikur. Leikur með öllum sínum tilviljunum, mistökum leikmanna, mistökum dómara – og taugaspennu augnabliksins.

Kannski fær Neuer rautt spjald snemma leiks eftir aldrei-þessu-vant vanhugsað úthlaup. Eða eftir vel útfært úthlaup en jafn vel heppnaða dýfu sóknarmanns. Það væri synd, en kannski yrði það til að fráleit rauðuspjaldareglan verði endurskoðuð.

Kannski hittir Messi á leik sem hæfir tilefninu.

Kannski endar þetta í framlengdri vítakeppni.

Kannski skora Þjóðverjara á þriðju mínútu og halda út.

Neymar lærdómur

Posted: júlí 5, 2014 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Sennilega er HM 2014 í fótbolta eitthvert besta stórmót sem haldið hefur verið í fótbolta. Til þess að gera fáir dauðir leikir, mikið af mörkum, enn meira af næstum því mörkum að ógleymdum frábærum markvörslum og mikilli „dramatík“.

En ég er samt að hafa áhyggjur af því hvert fótboltinn stefnir.

Brassarnir voru „sparkaðir niður“ í fyrstu leikjunum. Þeir mættu í gær og spörkuðu leikmenn Kólumbíu niður. Sem aftur svöruðu fyrir sig með því að stórslasa einn besta leikmann heims, sem missir í kjölfarið af þeim leikjum sem eftir eru í mótinu. Og við missum af honum.

Það hefur verið bent á í kjölfar bitsins hjá Suarez að það séu nú fleiri dæmi um grófa og stórhættulega hegðun, sem menn komist upp með án mikilla refsinga. Þetta hefur verið sagt Suarez til varnar og sem rök fyrir því að hans bann fyrir ítrekuð brot hafi verið of langt. Þetta er auðvitað kjaftæði, hann átti sitt bann skilið og jafnvel lengra. Hitt er svo annað mál að miklu fleiri leikmenn eiga skilið að fá gott frí frá fótbolta.

Ég veit að fótbolti er leikur með snertingu. En hvaða snertingar eru leyfðar og hvernig er ágætlega vel skilgreint.

Í leik Brasilíu og Kólumbíu í gær flautaði dómarinn á svona um það bil fimmta hvert brot. Hann var samt stöðugt flautandi og leikurinn hvað eftir annað stopp. Á endanum var einn leikmanna stórslasaður. Viljandi. Einn sá besti í heimi.

Það er stöðugt verið að halda í leikmenn, toga í peysur, fara örlítið utan í, grípa í, setja úr jafnvægi, sparka aðeins í leikmann, smá snerting við boltann um leið og andstæðingurinn er straujaður, klipið, kýlt.. og svo á hinn bóginn verið að þykjast detta eða meiða sig til að fá eitthvað frá dómaranum.

Það er einfalt að hreinsa fótboltann af þessum sóðaskap. Fyrir það fyrsta á að aðstoða dómara við að grípa öll tilfelli með myndavélum. Gult spjalt og 10 mínútur af leikvelli fyrir hvert brot þar sem farið er í leikmann í stað bolta.. mögulega ein aðvörun fyrir fyrsta brot ef saklaust. Kannski mætti á móti bíða með rautt spjald eftir þriðja gula spjaldinu. Og leikmaður á ekki að komast upp með að þykjast vera að reyna að fara í boltann, það er hans ábyrgð að snertingin við andstæðinginn sé leyfileg. Sama gildir um hvers kyns leikaraskap og óheiðarleika.

Myndum við fá sjö rauð spjöld í hverjum leik? Nei, leikmenn læra strax..það tekur ekki langan tíma að hreinsa fótboltann. Og ef það verður gert þá sjáum við bestu leikmenn heims óáreitta og óslasaða – leikurinn flæðir og að minnsta kosti fyrir minn smekk verður hann miklu skemmtilegri.

og ekki gleyma meðlimum í samtökum íþróttafréttamanna, það má hrauna yfir þá núna eins og allt árið, nánast skylda.

Gott og vel, ég veit að það þýðir ekkert að blanda mér í umræðuna um íþróttamann ársins. En ég hef ekki enn lært að þegja þegar mér misbýður..

Ár eftir ár er eitthvert tilefni til að skammast yfir valinu.

Gott og vel. Það er ekkert að því að hafa skoðun á því hver á þetta helst skilið, það er hægt að færa góð og gild rök fyrir að nokkrir hefðu átt titilinn skilið árið 2013. Gylfi Þór er vel að titlinum kominn, ég hefði sett hann í fyrsta sæti, en bara mín skoðun. Hefur til dæmis ekkert með kyn að gera.

Það er einfaldlega erfitt að velja á milli einstaklinga sem keppa í einstaklingsgreinum annars vegar og þeirra sem keppa í hópíþróttum hins vegar. Það er ekki sjálfgefið hvernig á að meta árangur í aldurskiptri keppni á móti árangri í keppni þar sem allir eru með. Hvað þá að nokkrar skýrar viðmiðanir séu um það hvernig á að „verðleggja“ árangur í grein sem 270 milljónir stunda, tugir þúsunda horfa á viðkomandi einstakling keppa vikulega og milljónir sjá í sjónvarpi, grein þar sem fáránlega há laun draga kannski að þá hæfileikaríkustu… á móti öðrum greinum.

En umræðan er að þróast út í hreint og klárt skítkast… hver Facebook færslan poppar upp á eftir annarri þar sem gert er lítið úr frammistöðu Gylfa með rangfærslum og/eða misskilningi. Þetta er út í hött, það má deila um vægi árangurs Gylfa, en hvers vegna að hrauna yfir hann með útúrsnúningum? Og hvers vegna að gera lítið úr honum, þó einhverjum þyki árangur annarra meira virði?

Samhliða þessu hrúgast inn athugasemdir sem ganga út á einhvers konar kynja samsæri hjá samtökum íþróttafréttamanna. Það er einfaldlega fráleitt að halda því fram að kyn hafi ráðið úrslitum, ég man til dæmis eftir fullt af körlum sem hafa náð frábærum árangri í yngri eða eldri flokkum en ekki orðið fyrir valinu.

Ég legg til að þessum útnefningum verði hætt.. þá á enginn skilið að lenda í því sem virðist óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera útnefndur íþróttamaður ársins.

Taka kannski upp „lakasti íþróttamaður ársins“, þá væri kannski einhver innistæða fyrir skítkastinu.

Derby County eða Arsenal

Posted: september 29, 2013 in Fótbolti

Ég fór að halda með Derby County í enska boltanum um 1970. Þrátt fyrir slakt gengi og ansi mörg mögur ár þá hefur þetta alltaf verið „mitt lið“. Hér áður fyrr fylgdist ég mjög vel með, keypti bæði ensk dagblöð og fótboltatímarit, Goal, Shoot og fleiri. En ég fylgist svo sem ekki svo mikið með þeim í dag og held satt að segja að ég geti ekki nefnt einn einasta leikmann, eða réttara sagt, ég get ekki nefnt einn einasta leikmann. Og aldrei hef ég séð liðið spila.

Ég byrjaði að halda með þeim vegna þess að þeir spiluðu góðan fótbolta, nokkuð sem var ekki algengt á Englandi á áttunda áratugnum.

Ég hef heillast af liði Arsenal síðustu árin, hef nokkrum sinnum farið á leik með þeim og kann vel við þá „heimspeki“ sem Arsene Wenger hefur fylgt, reyna aðeins að takmarka vitleysuna í leikmannakaupum en byggja upp lið sem spilar góðan fótbolta. Það er eiginlega eina ástæða þess að ég nenni að horfa á fótbolta, þeas. lið sem spila skemmtilega. Barcelona er fyrirmyndin í dag og Breiðablik er mitt lið hér heima, enda vel spilandi lið.

Í dag bárust þær fréttir að Derby sé að ráða Tony Pulis sem knattspyrnustjóra. Ég held að ég geri að minnsta kosti hlé á stuðningi mínum við félagið á meðan hann er við stjórnvölinn. Og fylgist með Arsenal. Gallinn við að halda með Arsenal er að þeir eiga sennilega ömurlegustu stuðningsmenn í víðri fótboltaveröld [innskot: nei ég meina þetta ekki bókstaflega, aðeins að leita að ástæðu til að skipta ekki um lið]. Endalausar kröfur um afsögn Wengers eru beinlínis fáránlegar… og ég er smeykur um að mögulega fái þeir sínu framgengt ef heppnin verður ekki með liðinu í ár… já „heppnin“ því það þarf töluvert að detta með liði til að það geti unnið titil í dag – gott lið er forsenda, en dugar ekki alltaf til.

En ég get þá alltaf snúið aftur til Derby County, jafnvel þó gert sé stólpagrín að mér. Fyrir nokkrum árum leit ég við í íþróttavörubúð í London að kaupa afmælisgjöf fyrir einn félaga sem er mikill Arsenal aðdáandi. Ég spurði í leiðinni um hvort hann ætti ekkert fyrir Derby aðdáendur.. það stóð ekki á svarinu, „Sorry, mate, we only do football“.

PS. Reyndar virðast þetta hafa verið óþarfa áhyggjur – Tony Pulis sé ekki að taka við, heldur Steve McClaren.

Blikinn Konni kvaddur

Posted: ágúst 15, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Konráð Kristinsson er í margra hugum ímynd Blikans, þeas. stuðningsmanns Breiðabliks.

Konni, eins og hann var kallaður, lést fyrir nokkrum dögum 93 ára að aldri, og náði því að sjá félagið tryggja sér langþráða bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitla í karlaflokki. Ég fer varla á völlinn án þess að verða hugsað til Konna, nú síðast þegar ég fylgdist með frábærri frammistöðu liðsins í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Ég kynntist Konna þegar ég vann fyrir meistaraflokk fyrir um tuttugu árum. Þá var hann liðsstjóri hjá meistaraflokknum, sá um búninga og að hafa alla hluti klára í leikjum og á æfingum. Mikilvægt starf en nánast ósýnilegt öðrum en leikmönnum, þjálfurum og þeim sem unnu fyrir liðið. Konni var alltaf með allt sitt á hreinu, lagði á sig ómælda vinnu við að hafa allt klárt og til staðar þegar á þurfti að halda.

Ég man samt best eftir Konna þegar við fórum með liðinu í æfingaferð til Danmerkur 1994, við deildum þá litlum kofa og það var bæði gaman og fróðlegt að spjalla við Konna eftir æfingar.

 

Flott Blikalið

Posted: ágúst 9, 2013 in Fótbolti

Svona þegar svekkelsið yfir að tapa í vítakeppni í forkeppni Evrópudeildarinnar er aðeins farið að minnka..

Þá er allt í lagi að hafa í huga hversu vel liðið hefur staðið sig í Evrópukeppninni í sumar. Öruggur sigur í fyrstu umferð á liði frá Andorra, gamla stórveldið Sturm Graz lagt í annarri umferð og sigur heima á Aktope frá Kasakstan. Tæpt víti í fyrri leiknum kom gestunum í vítakeppnina sem gekk svo engan veginn nógu vel.

En liðið er firnasterkt og á (vonandi) eftir að standa uppi sem Íslandsmeistari í haust… það er að minnsta kosti allt til staðar sem þarf til að vinna Íslandsmótið, flottur hópur, frábær þjálfari og fín stemming hjá stuðningsmönnum.

Kannski er frábær árangur Blika, mjög góður árangur FH og ágæt frammistaða bæði KR og ÍBV til marks um að íslenski boltinn hafi tekið miklum framförum. Það eru örfá á síðan þetta sama lið frá Kasakstan vann FH 6-0.

Ronni „píanó“leikari

Posted: ágúst 1, 2013 in Fótbolti, Umræða

Ég hef fylgst lauslega með bráðefnilegum píanóleikara, honum Ronna…

Það hefur verið aðdáunarvert hvernig fjölskyldan hefur staðið við bakið á honum, fylgt honum gegnum súrt og sætt, kostað bestu þjálfara fyrir hann og komið honum á framfæri við hvert tækifæri.

Nú er Ronni að verða frægur og sér fram á að spila á stærstu stöðum heims sem virtur píanóleikari.. fjölskyldan var auðvitað bæði stolt og glöð.

Ronni tilkynnti fjölskyldunni reyndar að hann ætlaði að segja skilið við hana og styrkja í staðinn fólk sem hann hafði hitt stuttlega á ferðalagi þegar hann var ungur.

Fjölskyldan brást reyndar ekkert sérstaklega vel við, fannst hún kannski eiga inni að njóta að einhverju leyti þess sem hún hafði lagt á sig til að aðstoða hann. Kannski voru viðbrögð fjölskyldunnar meira að segja frekar klaufalega. Svo klaufalega að stofnuð var Facebook síða til stuðnings Ronna, hann mætti bara styðja þá sem honum sýndist.

Auðvitað má hann gera það sem honum sýnist. Og auðvitað má hann styrkja þann sem honum sýnist.

En mér má líka alveg finnast það hálf klént hjá honum. Jafnvel datt mér orðið „vanþakklæti“ í hug. En það er bara ég.

Blikasigur

Posted: júní 10, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:

Það var öruggur sigur í Kópavoginum áðan, en ekkert sérstaklega skemmtilegur leikur þegar Víkingur Ólafsvík kom í heimsókn, 2-0 fyrir Blikum.

Fyrsta markið kom þegar ég var rétt á leiðinni inn á völlinn, sá hvorki brotið né markið, en leikurinn var vægast daufur fram undir lok fyrri hálfleiks. Ég held að það hafi ekki komið skot í áttina á marki fyrr en þrjár, fjórar mínútur voru í leikhléið… þá komu reyndar nokkrar (frekar slakar) tilraunir.

Það kom svo sem ekkert á óvart að Víkingar börðust vel.. svo vel að ég áttaði mig ekki á að Blikar væru einum fleiri fyrr en langt var liðið á fyrri hálfleikinn. Það kom hins vegar aðeins á óvart að þarna eru margir ágætis leikmenn og liðið ætti að geta halað inn eitthvað af stigum í sumar. Á hinn bóginn fannst mér kappið full mikið á köflum, mikið af brotum og sum óþarflega hættuleg, hefðu hæglega getað kostað meiðsli.

Blikar voru engan veginn nógu beittir fram á við. Of mikið um misheppnaðar sendingar, óþarflega erfiðar langar sendingar, ónotuð tækifæri á sendingum og ekki síst allt of margar rangstöður. Um tíma hvarflaði að mér að þeir kynnu ekki almennilega við að nýta sér yfirburðina og klára leikinn.

En svo við tökum ekkert af öflugu liði.. mjög vel skipulagt og allir leikmenn vinna varnarvinnuna. Ég held að Víkingar hafi ekki einu sinni fengið hálf færi allan leikinn, auðvitað alltaf erfitt að spila einum færri, en það þarf samt að hafa fyrir hlutunum og klára „verkefnið“, þetta gerðu Blikar vel og ég hef enn trú á góðu sumri.