Ætli ég hafi ekki verið ellefu – tólf ára þegar ég ákvað að halda með Derby County í enska boltanum. Sá brot af viku gömlum leik og fannst þeir spila flottan fótbolta. Það var ekki verra að þeir urðu fljótlega enskir meistarar á ævintýralegan hátt. Ég fór að fylgjast betur með, hlusta á lýsingar BBC, kaupa ensk dagblöð.. kaupa ensk fótboltablöð, Goal, Football Star og ég man ekki hvað þau hétu..
Stjóri Derby á þeim tíma var nokkuð skemmtilegur og litríkur einstaklingur, en kannski svolítið ruglaður líka, Brian Clough, an aðallega hafði hann sterkar skoðanir á því að liðin sem hann stýrði spiluðu góðan fótbolta. Hann entist svo sem ekki lengi, en Derby hélt áfram að spila vel og unnu titilinn fljótlega aftur.
Svo tóku við rýrari tímar, liðið féll, féll langt niður, komst upp og féll svo sem aftur. Síðast þegar félagið átti lið í efstu deild féll það með slakasta árangur sem nokkurt lið hefur náð í úrvalsdeild.
Ég fylgdist svo sem ekki alltaf mikið með, um tíma nánast ekki neitt, en Derby var alltaf mitt félag í enska boltanum. Jafnvel þó allt sem varð til að ég valdi þá á sínum tíma hafi fyrir löngu verið farið „á haugana“.
Af hverju heldur maður með liði í enska boltanum? Það er ekki eins og þetta skipti einhverju máli eða breyti nokkru yfirleitt.
Ég hef gaman af að horfa á góðan fótbolta og það að lið sem leggja upp úr því að spila góðan fótbolta nái árangri verður væntanlega til þess að fleiri lið nálgist leikinn þannig. Og við fáum skemmtilegri leiki.
Breiðablik hefur verið þannig lið, en Breiðablik er líka mitt félag, þar æfði ég með félögunum þegar við vorum yngri, vann fyrir félagið í stjórn og meistaraflokksráði í nokkur ár.
En eitthvert lið á Englandi? Ef upphaflegar forsendur eru farnar út á hafsauga, hvers vegna ætti ég að halda með þeim?
Mér finnst Barcelona spila skemmtilegan bolta og þeir eru mitt lið á Spáni. Um tíma var ég veikur fyrir Arsenal, hugmyndafræði Arsene Wenger var akkúrat það sem heillaði mig.. og oftar en ekki var Arsenal að spila flottan fótbolta, og aðrir fjölskyldumeðlimir halda með Arsenal – en það erenginn Wenger lengur þar á bæ.
Guardiola er annar þjálfari sem leggur mikið upp úr fótbolta sem heillar mig, en eitthvað við eignarhaldið og umhverfið í kringum Manchester City truflar mig of mikið.
Kannski er einfaldlega hægt að horfa á fótbolta án þess að halda með liði.