Posts Tagged ‘Íslandsmótið’

Líkurnar á því að ekki náist að klára Íslandsmótin í fótbolta aukast stöðugt.

Nú eru reglurnar að hluta til skýrar um hvernig á að afgreiða mót sem ekki næst að klárast. Það vantar reyndar aðeins upp á hvernig á að greina á milli liða sem eru með jafnmörg stig.

Væntanlega er ekki í boði að breyta þeim héðan af.

Og auðvitað er kostur að hafa þær einfaldar.

En er ekki enn mikilvægara að hafa þær sanngjarnar?

Það er nefnilega þannig að liðin hafa mætt mis sterkum andstæðingum og eiga þannig mis erfiða leiki eftir. Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um hvernig „auðveldu“ leikirnir myndu fara. En er ekki ákveðin sanngirni í því að reikna endanlega stöðu út frá stigum og stigum andstæðinganna? Og það er líka ákveðin sanngirni í að skoða hvaða leikir eru eftir.

Tökum dæmi og höfum það einfalt. Segjum að það séu fáar umferðir eftir, þrjú lið berjast um titilinn, eitt þeirra er með 30 stig en hin tvö með 29 stig. Annað liðanna sem er með 29 stig hefur spilað báða leikina við hin, en liðið með 30 stig á eftir að mæta öðru liðanna sem er með 29 stig.

Fyrir mér hefur liðið sem hefur lokið innbyrðis leikjunum náð besta árangrinum og líkurnar mestar á að það lið myndi að lokum vinna mótið. Þetta lið ætti þess vegna að vera meistari.

Það er hægt að nota einfalda reiknireglu til að afgreiða þetta, en látum það bíða að sinni.