Höfuðdýfur

Posted: júlí 8, 2019 in Íþróttir, Fótbolti
Efnisorð:,

Eins og ég hef gaman af að horfa á fótbolta þá finnst mér alltaf fúlt að sjá þegar leikmenn eru að svindla, spila á reglurnar, reyna að plata dómara og nýta sér reglur sem ætlaðar eru til að vernda leikmenn til að ná árangri.. í allt öðru en að spila fótbolta.

Nýlega voru settar þær reglur að dómara bæri að stöðva leik grunur væri um höfuðmeiðsli – sjálfsögð og eðlileg varrúðarráðstöfun.

En nú virðist æ algengara að leikmenn geri sér upp höfuðmeiðsli til að stöðva sókn andstæðinga og/eða tefja leik, hægja á leiknum og vinna þannig tíma.

Auðvitað eru einhver tilfelli þar sem höfuðmeiðsli eru raunveruleg og ekki ætla ég að gera lítið úr því að fara varlega og hafa allan varann á.

EN…

Ég geri ráð fyrir að þetta sé stundum viljandi blekkingarleikur í ljósi þess að

  • það hefur aukist mjög mikið eftir að reglunum var breytt að leikmenn falla og halda um höfuðið.
  • við endursýningar virðist gjarnan lítil sem engin snerting vera við höfuð leikmanns
  • það er mun algengara að leikmenn liðs sem er að reyna að verja forystu leggist niður með hendur um höfuð

Nú skilst mér að alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA sé að hugsa um nokkrar breytingar á knattspyrnureglunum að leyfa auka skiptingar vegna höfuðmeiðsla (þeas. þær skiptingar telji ekki með í fjölda leyfðra skiptinga), að leyft verði að hafa fleiri varamenn og að taka upp „hlaupandi“ skiptingar (‘rolling substitutes’), þeas. leikmaður geti farið af velli, annar komið í hans stað á meðan hann fær aðhlynningu og síðan geti hann komið inn á aftur.

Væri ekki kjörið að bæta við þeirri reglu að leikmaður sem verður fyrir höfuðmeiðslum eða þykist verða fyrir höfuðmeiðslum og fær dómara þannig til að stöðva leik, þurfi undantekningarlaust að fara af leikvelli, varamaður fái að koma inn í staðinn – en viðkomandi leikmaður fái ekki að taka frekari þátt í leiknum?

Lokað er á athugasemdir.