Flugfélagsstofnendaráðgjöf

Posted: júlí 13, 2019 in Spjall
Efnisorð:,

Eitt ókeypis ráð til þeirra sem eru að hugsa um að stofna nýtt flugfélag.

Ekki svo að skilja að ég sé neikvæður, það er fínt að fá úrval og fínt að hafa valkosti.

En, fyrir alla muni, lærið að minnsta kosti eitt af nýlegu gjaldþroti.

Eflaust voru margar ástæður fyrir nýlegu gjaldþroti.

En mig grunar að ein hafi verið vanmetin.

Það er eflaust hægt að árangri í upphafi með því að keyra upp öðru vísi stemmingu fyrir nýju félagi, nokkrum ódýrum flugsætum, öðrum dýrari og góðri álagningu á alla þjónustu.

En til að svona félag lifi til lengdar þá ímynda ég mér að þjónustan þurfi að vera í lagi, að minnsta kosti ekki fyrir neðan allar hellur.

Ég varð fyrir því óláni að fá nokkrum sinnum afspyrnu vonda þjónustu. Miðað við einkunnir og umsagnir annarra „gesta“ þá var mín reynsla nú ekki beinlínis einsdæmi.

Fyrstu árin reyndi ég að nýta að kaupa ódýr sæti – og ef ekki, þá lét ég mig hafa það að kaupa eitthvað dýrari – og bætti við þjónustu.

Eftir ítrekuð vonbrigði þá var ég svo sem til í að kaupa allra ódýrustu sætin og láta mig hafa það ef hlutirnir voru ekki í lagi, en um leið og ódýrustu sætin voru farin þá leitaði ég annað.

Mig grunar að þannig hafi fleiri hugsað.

Flugfélag sem leggur upp með að selja ákveðinn hluta sæta á mjög lágu verði og önnur á hærra verði getur auðvitað gengið þokkalega.

En þegar enginn vill kaupa annað en allra ódýrustu sætin, þá finnst mér ólíklegt að dæmið gangi upp.

Þannig að – vel meint ábending til þeirra sem eru að hugsa um að stofna nýtt lággjaldaflugfélag – gangi ykkur vel, en ekki koma fram við viðskiptavini ykkar eins og [jæja, læt vera að láta það orð sem mér dettur helst í hug flakka].

 

Lokað er á athugasemdir.