Sarpur fyrir desember, 2012

Heimsendir, einu sinni enn

Posted: desember 14, 2012 in Umræða
Efnisorð:

Enn ein heimsendaspáin poppaði upp fyrir nokkru.

Ég ákvað að rjúka til og selja allar mínar eigur og gefa fátækum. En svo sá ég auðvitað að fátækir myndu ekki hafa neitt frekara gagn að mínum óverulegu veraldlegu eigum en ég, fyrst það er jú að koma heimsendir.

Næst ákvað ég að hjóla í að gera upp öll óafgreidd mál við vini, ættingja og kunningja. En bæði voru þau nú engin (sem ég mundi eftir) og þar fyrir utan tók því ekki að standa í þessu ef það var líka að koma heimsendir hjá þeim.

Mér fannst ekki taka því að mæta í vinnuna, klára nýju Fræbbblaplötuna, æfa eða hitta fólk í matar- og / eða drykkjusamkomum. En það voru ekki liðnir nema fáir klukkutímar þegar ég sá að ég myndi deyja úr leiðindum, löngu fyrir ætlaðan heimsendi.

Þannig að ég tók upp fyrri siði. Heimsendir eða ekki, breytir auðvitað engu.

Jú, þér finnst þetta víst!

Posted: desember 12, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég hef alveg þokkalega gaman af því að ræða málin og skiptast á skoðunum við fólk. Þess vegna eyði ég nú til dæmis tíma í að skrifa þessar færslur hér og svara, svona vel flestum, sem þarf að svara. Einstaka skætingi læt ég ósvarað, en það hefur stórminnkað eftir að ég færði mig frá Eyjunni og skrifa hér.

Hitt er að það er ansi erfitt að halda uppi rökræðum þegar „viðræðandi“ er stöðugt að gera mér upp skoðanir og skammast svo út í þessar skoðanir sem hann er búinn að gera mér. Og lætur allar leiðréttingar sem vind um eyrun (augun?) þjóta.

Besta dæmið er sennilega umræða um kirkjuferðir barna á skólatíma. Ég tel vissulega að  trúboð eigi ekkert erindi í menntastofnanir og það sé hlutverk foreldra að fara með börn í kirkju ef þeir kjósa svo.

Ég þarf hins vegar stöðugt að sitja undir að ég vilji

  1. banna fræðslu um kristni eða trúarbrögð í skólum
  2. leggja af einhverja áratuga hefð
  3. banna börnum að fara í kirkju

Og það er alveg sama hvað ég reyni að útskýra oft að ekkert af þessu er rétt – ég fæ bara fleiri og fleiri rök gegn skoðunum sem ég hef ekki!

Æ, jú, þetta getur verið svolítið þreytandi…

Fyrstu viðbrögð við að vera uppnefndur og kallaður einhverjum ónefnum er gjarnan að bregðast illa við og fara í vörn, hugsa viðkomandi „uppnefnara“ þegjandi þörfina.

En ég hef smám saman lært að þetta er gjarnan hið besta mál. Oftar en ekki staðfestir þetta að viðkomandi hefur engin rök og engar upplýsingar – er rökþrota og hefur ekkert málefnalegt fram að færa.

Ég sá í Fréttablaðinu um daginn grein þar sem talað er um „árásargjarnar andtrúarhreyfingar“. Mig grunar að þarna sé meðal annars átt við Vantrú, þar sem ég er meðlimur. Tilefnið átti víst að vera að starfsemi snúist að mestu um að afsanna líkingar úr biblíunni og barátta okkar snúist að mestu um hvort Jesú hafi gengið á vatni eða ekki. Jafnvel að banna trú.

Þessu fer auðvitað víðsfjarri, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til. „Dómsdags kjaftæði“ myndi einhver segja, en ég er auðvitað svo kurteis. Það má vera að í einhverjum tilfellum hafi þeim verið svarað sem telja sögur biblíunnar bókstaflega réttar – til dæmis prestinum í Hafnarfirði nýlega sagðist telja meyfæðinguna sannleikanum samkvæma – en það er fráleitt að baráttan snúist að einhverju leyti um þetta, hvað þá að mestu leyti.

Baráttan snýst einfaldlega um að fá að hafa okkar trúleysi í friði fyrir ágangi trúboðs og hvers kyns boðun hindurvitna. Félagið var stofnað sem mótvægi við sífellt harkalegri árásum kirkjunnar manna á trúleysingja og stöðugri aukningu trúboðsstarfssemi, þar sem börn eru markhópurinn. Vonandi verður hægt að leggja félagið niður áður en of langt um líður, en á meðan kirkjan notar sífellt stærri hluta af almannafé í markaðsstarf þá virðist nú vera einhver bið..

Gamla kirkjuferða“hefðin“

Posted: desember 9, 2012 in Trú, Umræða

Það eru ansi margir að hneykslast á okkur vondu trúleysingjunum vegna þess að við viljum ekki að börn séu send í trúboð á skólatíma. Trúboð á auðvitað ekkert erindi í skóla eða á skólatíma, jafnvel þó foreldrar þriggja fjórðu nemenda tilheyri sama trúfélagi. Hvað þá þegar vel innan við helmingur er trúaður. Að ég nefni nú ekki að smábrot af þessum sömu foreldrum fer í kirkju utan hátíða og „skyldu“ viðburða.

Aðalrökin virðast þó að þetta sé góð og gild gömul íslensk hefð. Þessu fylgir gjarnan að minnihlutinn sé að kúga meirihlutann með því að vilja stöðva þessar ferðir. Auðvitað er þetta ekki spurning um meirihluta eða minnihluta.

En það sem fer kannski mest í skapið á mér í þessari umræðu er að þetta bara akkúrat engin gömul hefð í nokkrum skilningi. Ég var aldrei sendur í kirkjuferð í skóla. Ég er kannski gamall, en ekki svo gamall að hægt sé að tala um einhverjar hefðir. Og það sem meira er, yngra fólk man ekkert eftir þessu heldur.

Reynslusögur af kukli

Posted: desember 7, 2012 in Umræða

Það hefur verið nokkur umræða um hvers kyns kukl síðustu daga. Það eru óþrjótandi „reynslusögurnar“ af hinum og þessum töfralækningum.

Nú get ég að vissu leyti skilið fólk sem ekki fær svör eða lækningu eftir hefðbundnum leiðum. Fyrir því geta verið mismunandi ástæður. Við sumum sjúkdómum er einfaldlega ekki til (þekkt) lækning. Greining getur verið flókin og læknar eru auðvitað mismunandi, eins og aðrar starfstéttir. Fyrir utan nú það að jafnvel þeir bestu geta gert mistök.

Sögurnar eru nokkuð einsleitar, fólk leitar til læknis og fær ekki lausn strax. Þá freista margir þess að fara næst til kuklara. Og viti menn, smám saman lagast heilsan. Þess vegna er erfitt að átta sig á því að það að gera nákvæmlega ekki er jafn áhrifaríkt. Það sem gleymist kannski oft er að líkaminn er ágætlega þróaður í að „lækna“ sig sjálfur.

Svo flækist málið enn frekar þegar samhliða kuklinu er til dæmis ráðlagt að breyta mataræði og auka hreyfingu, sem eitt og sér getur oft hjálpað til, sérstaklega til lengri tíma.

Af Hæðstarétti

Posted: desember 7, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Mér hefur sennilega misheyrst allan tímann þegar mér heyrðist talað um „Hæstarétt Íslands“.. og skildi nafnið þannig að þetta væri réttur sem væri hærri, merkilegri og jafnvel réttsýnni öðrum.

Sennilega á þetta að vísa til „Hæðstaréttar“ eða „Hæðastaréttar“, svona einhvers konar brandari sem hæðist að hugmyndinni um réttarkerfi og gerir Íslendinga ítrekað að aðhlátursefni í Evrópu.

1908 eða 2008

Posted: desember 7, 2012 in Umræða

Nokkuð hefur verið gagnrýnt á undanförnum árum það fyrirkomulag sem er í gildandi lögum að konur skuli ekki hafa kosningarétt. Fram kom í yfirlýsingu frá Jafnréttisstofu 1. desember 1908 að það væri tæpast í samræmi við jafnréttislög og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn ráði því alfarið hvort einstaklingur hafi kosningarétt. Einnig taldi Jafnréttisstofa að ekki væri að sjá að það fælust í því neinir hagsmunir, hvorki fyrir konur né aðra, að konur hafi ekki kosningarétt. Nefndin ræddi þessi álitamál en sambærileg sjónarmið komu fram hjá nokkrum umsagnaraðilum. Jafnframt töldu einstakir umsagnaraðilar að betur færi á því að konur hafi kosningarétt því að annars væri verið að grafa undan getu þeirra til að taka sjálfstæða ákvörðun. Meiri hlutinn hefur fullan skilning á slíkum sjónarmiðum og telur rétt að haldið sé áfram að skoða þessi álitaefni. Meiri hlutinn telur hins vegar öðru fremur mikilvægt að tiltöluleg sátt sé um þau viðkvæmu mál sem hér um ræðir og leggur því ekki til breytingar í þessa veru að svo stöddu.

Svo þarf bara að skipta út kosningarétti kvenna fyrir (sjálfvirka) skráningu barns í trúfélag til að sjá að við erum kannski ekkert svo langt komin í sjálfsögðum mannréttindum.

Að skrá hvítvoðunga í félög

Posted: desember 6, 2012 in Umræða

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis tekur undir sjónarmið Jafnréttisstofu að það sé samræmist ekki jafnréttislögum að skrá nýfædd börn í trúfélög.

Eins tekur nefndin fullt mark á þeirri skoðun umsagnaraðila að ekki sé rétt að skrá börn í trúfélög og að engir hagsmunir séu í því að skrá barn í trúfélag. Það eru sem sagt engin rök fyrir því að skrá börn í trúfélög. Ekkert sem mælir með því, en margt sem mælir á móti.

Samt skrifar meirihluti nefndarmanna undir það álit að ekki sé rétt að breyta þessu að sinni.

Þarna eru meira að segja þingmenn sem ég hef haft talsvert álit á, geta tekið rökum og gefi engan afslátt af mannréttindum.

Endalaus frétt

Posted: desember 6, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég var að hlusta á tíufréttir RÚV áðan. Þar var fyrsta frétt um áberandi dómsmál. Sagt var að vitni hefði mætt í dag sem ekki mætti í gær (eða fyrradag) og farið út í hvaða skýringar vitnið gaf á fjarverunni og hvað dómaranum fannst um þær skýringar.

Síðan var sagt að saksóknari hefði spurt vitnið hvort það hefði vitað að til stæði að gjaldfella ákveðið lán.

Þá var útskýrt hvers vegna þessi hugsanlega gjaldfelling skipti máli.

En það var ekki sagt hverju vitnið svaraði!

Og kannski enn umhugsunarverðara, ég var í rauninni ekki hissa, svona endaslepptar fréttir eru, því miður, allt of algengar.

PS. jú, það er mögulegt, þó langsótt sé, að vitnið hafi ekki verið búið að svara þegar fréttin fór í loftið – en þá hefði verið lágmark að taka það fram.

Þreyttar auglýsingar

Posted: desember 5, 2012 in Umræða

Ég er kannski eitthvað undarlegur þegar kemur að auglýsingum – eins og svo mörgu  öðru.

Ég dett eiginlega oftast út þegar auglýsingar byrja í sjónvarpinu, fletti hratt yfir heilsíðu- eða opnuauglýsingar í blöðum og tek lítið eftir auglýsingum á vefsíðum.

Auðvitað geta komið ágætis ábendingar um nýjar vörur eða gott tilboð. Og það er svo sem allt í lagi ef menn koma sér að efninu.

Það sem ég skil ekki er hvernig nokkrum manni dettur í hug að einhverjar væmnar sögur af fólki, skræpóttir skríkjandi leikarar eða áferðafallegar landslagsmyndir verði til að ég kaupi einhverja vöru eða skipti við eitthvert fyrirtæki. Þetta eru einfaldlega marklausir langhundar sem gera ekki annað en mögulega fara í taugarnar á mér.

Kannski er ágætt markmið að taka nú eftir hvaða fyrirtæki þetta eru og setja sér að versla ekki við þau. Ég vil í öllu falli ekki koma þeim skilaboðum til þeirra, í verki, að óþolandi auglýsingar virki. Mitt lóð á vogarskálarnar er ekki þungt, svona eins og eitt atkvæði í kosningum. En ég ætla að minnsta kosti að gera mitt.