Fyrstu viðbrögð við að vera uppnefndur og kallaður einhverjum ónefnum er gjarnan að bregðast illa við og fara í vörn, hugsa viðkomandi „uppnefnara“ þegjandi þörfina.
En ég hef smám saman lært að þetta er gjarnan hið besta mál. Oftar en ekki staðfestir þetta að viðkomandi hefur engin rök og engar upplýsingar – er rökþrota og hefur ekkert málefnalegt fram að færa.
Ég sá í Fréttablaðinu um daginn grein þar sem talað er um „árásargjarnar andtrúarhreyfingar“. Mig grunar að þarna sé meðal annars átt við Vantrú, þar sem ég er meðlimur. Tilefnið átti víst að vera að starfsemi snúist að mestu um að afsanna líkingar úr biblíunni og barátta okkar snúist að mestu um hvort Jesú hafi gengið á vatni eða ekki. Jafnvel að banna trú.
Þessu fer auðvitað víðsfjarri, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til. „Dómsdags kjaftæði“ myndi einhver segja, en ég er auðvitað svo kurteis. Það má vera að í einhverjum tilfellum hafi þeim verið svarað sem telja sögur biblíunnar bókstaflega réttar – til dæmis prestinum í Hafnarfirði nýlega sagðist telja meyfæðinguna sannleikanum samkvæma – en það er fráleitt að baráttan snúist að einhverju leyti um þetta, hvað þá að mestu leyti.
Baráttan snýst einfaldlega um að fá að hafa okkar trúleysi í friði fyrir ágangi trúboðs og hvers kyns boðun hindurvitna. Félagið var stofnað sem mótvægi við sífellt harkalegri árásum kirkjunnar manna á trúleysingja og stöðugri aukningu trúboðsstarfssemi, þar sem börn eru markhópurinn. Vonandi verður hægt að leggja félagið niður áður en of langt um líður, en á meðan kirkjan notar sífellt stærri hluta af almannafé í markaðsstarf þá virðist nú vera einhver bið..
Líkar við:
Líka við Hleð...