Sarpur fyrir desember, 2012

Mitt lið í enska boltanum er Derby County – og hefur verið frá 1970.

Ég er samt laumu Arsenal aðdáandi, svona á sama hátt og ég er Barcelona aðdáandi, að minnsta kosti á meðan Derby er í næst efstu deild. Arsenal og Barcelona spila skemmtilegan fótbolta og eiginlega myndi ég hafa miklu minni áhuga á fótbolta, amk. eyða talsvert minni tíma í að horfa, ef ekki væru þessu tvö lið.

Það þarf ekki að fjölyrða um yfirburði og velgengni Barcelona.

En ég á eiginlega ekki orð yfir viðbrögðum svokallaðra „stuðningsmanna“ Arsenal síðustu árin – þau ganga að mestu út á að „níða skóinn af“ Arsene Wenger, að hans tími sé löngu kominn og þar fram eftir götum. Svona þegar þeir eru ekki að bölsótast yfir einstaka leikmönnum. Maðurinn hefur stýrt liðinu á mesta blómaskeiði í sögu félagsins, en öllum er sama. Ekki bætir úr að bæði innlendir og erlendir sparkspekingar hneykslast svo á árangri liðsins eins og biluð plata.

Jú, þeir hafa ekki unnið bikar siíðustu ár… en þeir hafa verið í toppbaráttunni árum saman, hafa náð langt í meistaradeildinni ár eftir ár, spila besta fótboltann á Englandi, náðu þeim einstaka árangri að fara taplausir í gegnum ensku deildina, spiluðu í úrslitum meistaradeildarinnar – allt án þess að taka þátt í bölvuðu ruglingu sem er í gangi varðandi launagreiðslur og leikmannakaup.

En það er skammast yfir að þeir kaupi ekki leikmenn. Svo kaupa þeir leikmenn og þá er skammast yfir að þeir séu ekki nógu góðir. Enska deildin er einfaldlega frábrugðin öðrum og engin leið að kaupa leikmenn af einhverju öryggi, sumir ná að aðlagast, aðrir ekki, flestir þurfa tíma.

Svo er skammast yfir að leikmenn séu látnir fara og að ekki séu framlengdir samningar tímanlega. Það gleymist þó að það þarf tvo til að framlengja samning. Og það gleymist líka að ekkert félag rembist við að halda óánægðum leikmönnum sem vilja fara. Enda, til hvers?

Svo er staglast á að kaupa meira og meira. Eins og úrvals leikmenn liggi á lausu. Vasar eigenda, þó digrir séu, eru ekki botnlausir eins og vasar eigenda Real Madrid, Paris SG, Chelsea eða Manchester City. Launakröfur margra topp leikmanna eru þar fyrir utan löngu komnar út í vitleysu… eða réttara sagt langt út fyrir öll vitleysismörk. Hver væri tilgangurinn að kaupa meðalmennsku?

Arsenal á virðingu skilið fyrir að reyna að halda haus þegar kemur að verði og launum leikmanna. Það er fráleitt að halda að það breyti einhverju að fá annan mann til að stýra á meðan félagið heldur sömu stefnu. Og það er líka fráleitt að halda að þó þeir skipti um stefnu, að einhver annar myndi ná betri árangri.

Þegar nýjar reglur UEFA taka gildi standa félög eins og Arsenal miklu betur að vígi. Að minnsta kosti ef þær reglur virka.

Enda hvað fæst fyrir að kaupa allt sem hreyfist?

Real Madrid vann spænsku deildina í fyrra en hefur ekki spila til úrslita í meistaradeild síðan ég-man-ekki-hvenær – og jafnvel Google biðst vægðar.

Manchester City vann ensku deildina í fyrra en hefur setið eftir í meistaradeildinni ár eftir ár, hafa jafnvel ekki náð inn í forkeppnina.

Chelsea dritar peningum í allar áttir, en endar í fimmta sæti í ensku deildinni í fyrra.

Það eru ekkert mjög mörg ár síðan „aðdáendur“ Manchester United sungu sama sönginn, Ferguson er búinn að missa þetta, kominn tími á annan mann… skyldu þeir enn vilja hafa skipt á þessum tíma?

Íslenska þjóðkirkjan hefur nú bjargað fleiri þúsundum barna á þessari öld frá þeirri vá að komast ekki í kirkju.

Rannsóknarnefnd kirkjunnar komst að því fyrir síðustu aldamót að fjöldi barna var bara ekkert að fara í kirkju. Hrint var af stað öflugu átaki til að leysa þennan bráðavanda íslenskra barna. Átakið fólst í því að mæta í skóla og leikskóla og draga börnin í kirkju.

Foreldrar barnanna eru kirkjunni ævarandi þakklát.

Ánægður og trúrækinn faðir sagði við Baksýnisspegilinn: „Við vissum jú að það væri eitthvað til sem kallaðist kirkja og þangað væri hægt að sækja eitthvað sem hét messa. Við bara rötuðum ekki og þess vegna fóru börnin á mis við þennan mikilvæg þátt fyrstu ár ævinnar. Þökk sé kirkjunni þá hefur nú verið messað yfir börnunum okkar“.

Móðir nokkurra barna var klökk af þakklæti: „Guði sé lof að kirkjan greip inn í og náði í börnin. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til að við foreldrarnir förum að hafa fyrir því að mæta með börnin í messu“.

Aðspurð um gagnrýni á þessar ferðir stóð ekki á svari.. „Já, það er ekki að þessu trúlausa pakki að spyrja. Ætlast þetta lið kannski til að við séum að sinna börnunum okkar? Eins og við höfum ekkert betra við tímann að gera? Þau geta bara sagt börnunum sínum að halda fyrir eyrun. Svo er sálfræðiþjónusta vegna eineltis orðin það góð að það gerir sko ekkert til þó einu og einu barni sé strítt“.

Vopn eða fólk?

Posted: desember 15, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Við erum aftur minnt óþægilega á hrikalegar afleiðingar þess hálfvitaháttar að hafa morðvopn aðgengileg fyrir nánast hvern sem er.

„Byssur drepa, ekki fólk“ er klisja sem margir endurtaka og halda að það þýði að það sé allt í lagi að hafa nánast opið aðgengi að byssum, því fólkið sé vandamálið ekki byssurnar. Þetta er svo sem rétt svo langt sem það nær, en það nær bara mjög stutt. Það er lykilatriði að bilaður einstaklingur geti ekki auðveldlega náð sér í vopn til að framkvæma voðaverk.

Það hanga margir á einhverju ákvæðu bandarísku stjórnarskrárinnar sem þeir túlka þannig að öllum sé frjálst að bera vopn sér til varnar. Sennilega er þetta rétt túlkun. Það sem aftur er galið er að menn skuli líta á þetta sem svo heilagt rit að engu megi breyta og ekkert betrumbæta í ljósi sögunnar og að fenginni reynslu. Bandaríska stjórnarskráin er að mörgu leyti ágætis plagg, hefur reyndar verið breytt hátt í þrjátíu sinnum, en að líta svo á að hver einasta setning hafi verið óskeikul og eigi við um alla eilífð er út í hött. Mig grunar meira að segja að þeir sem stjórnarskrána skrifuðu á sínum tíma væru löngu búnir að breyta þessu væru þeir enn á lífi. Sú hugsun að verja rétt bilaðra einstaklinga til fjöldamorða hefur varla verið tilgangur þeirra, hvað þá að það hafi samræmst þeirra hugsjónum.

Mér varð oft hugsað til þessa frasa þegar sömu stjórnvöld og kyrjuðu þennan söng réðust til atlögu við harðstjóra vegna ætlaðra gereyðingarvopna. Samkvæmt þeirra eigin (hunda)lógík þá eru gereyðingarvopn ekki hættuleg, bara leiðtogar sem eru tilbúnir til að nota þau.

PS. Svona í ljósi athugasemda. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé eina skýringin á sí endurteknum fjöldamorðum í Bandaríkjunum. Það hvarflar ekki að mér að það sé til einhver töfralausn. Og ég er heldur ekki að mæla með yfirdrifinni forsjárhyggju. En á meðan nánast hver sem er getur pantað öflug morðvopn hjá „póstverslun“, svarti markaðurinn blómstrar og litlar kröfur eru gerðar til þeirra sem fá vopnin… þá getum við búist við að svona harmleikur endurtaki sig.

Heimsendir, einu sinni enn

Posted: desember 14, 2012 in Umræða
Efnisorð:

Enn ein heimsendaspáin poppaði upp fyrir nokkru.

Ég ákvað að rjúka til og selja allar mínar eigur og gefa fátækum. En svo sá ég auðvitað að fátækir myndu ekki hafa neitt frekara gagn að mínum óverulegu veraldlegu eigum en ég, fyrst það er jú að koma heimsendir.

Næst ákvað ég að hjóla í að gera upp öll óafgreidd mál við vini, ættingja og kunningja. En bæði voru þau nú engin (sem ég mundi eftir) og þar fyrir utan tók því ekki að standa í þessu ef það var líka að koma heimsendir hjá þeim.

Mér fannst ekki taka því að mæta í vinnuna, klára nýju Fræbbblaplötuna, æfa eða hitta fólk í matar- og / eða drykkjusamkomum. En það voru ekki liðnir nema fáir klukkutímar þegar ég sá að ég myndi deyja úr leiðindum, löngu fyrir ætlaðan heimsendi.

Þannig að ég tók upp fyrri siði. Heimsendir eða ekki, breytir auðvitað engu.

Jú, þér finnst þetta víst!

Posted: desember 12, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég hef alveg þokkalega gaman af því að ræða málin og skiptast á skoðunum við fólk. Þess vegna eyði ég nú til dæmis tíma í að skrifa þessar færslur hér og svara, svona vel flestum, sem þarf að svara. Einstaka skætingi læt ég ósvarað, en það hefur stórminnkað eftir að ég færði mig frá Eyjunni og skrifa hér.

Hitt er að það er ansi erfitt að halda uppi rökræðum þegar „viðræðandi“ er stöðugt að gera mér upp skoðanir og skammast svo út í þessar skoðanir sem hann er búinn að gera mér. Og lætur allar leiðréttingar sem vind um eyrun (augun?) þjóta.

Besta dæmið er sennilega umræða um kirkjuferðir barna á skólatíma. Ég tel vissulega að  trúboð eigi ekkert erindi í menntastofnanir og það sé hlutverk foreldra að fara með börn í kirkju ef þeir kjósa svo.

Ég þarf hins vegar stöðugt að sitja undir að ég vilji

  1. banna fræðslu um kristni eða trúarbrögð í skólum
  2. leggja af einhverja áratuga hefð
  3. banna börnum að fara í kirkju

Og það er alveg sama hvað ég reyni að útskýra oft að ekkert af þessu er rétt – ég fæ bara fleiri og fleiri rök gegn skoðunum sem ég hef ekki!

Æ, jú, þetta getur verið svolítið þreytandi…

Fyrstu viðbrögð við að vera uppnefndur og kallaður einhverjum ónefnum er gjarnan að bregðast illa við og fara í vörn, hugsa viðkomandi „uppnefnara“ þegjandi þörfina.

En ég hef smám saman lært að þetta er gjarnan hið besta mál. Oftar en ekki staðfestir þetta að viðkomandi hefur engin rök og engar upplýsingar – er rökþrota og hefur ekkert málefnalegt fram að færa.

Ég sá í Fréttablaðinu um daginn grein þar sem talað er um „árásargjarnar andtrúarhreyfingar“. Mig grunar að þarna sé meðal annars átt við Vantrú, þar sem ég er meðlimur. Tilefnið átti víst að vera að starfsemi snúist að mestu um að afsanna líkingar úr biblíunni og barátta okkar snúist að mestu um hvort Jesú hafi gengið á vatni eða ekki. Jafnvel að banna trú.

Þessu fer auðvitað víðsfjarri, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til. „Dómsdags kjaftæði“ myndi einhver segja, en ég er auðvitað svo kurteis. Það má vera að í einhverjum tilfellum hafi þeim verið svarað sem telja sögur biblíunnar bókstaflega réttar – til dæmis prestinum í Hafnarfirði nýlega sagðist telja meyfæðinguna sannleikanum samkvæma – en það er fráleitt að baráttan snúist að einhverju leyti um þetta, hvað þá að mestu leyti.

Baráttan snýst einfaldlega um að fá að hafa okkar trúleysi í friði fyrir ágangi trúboðs og hvers kyns boðun hindurvitna. Félagið var stofnað sem mótvægi við sífellt harkalegri árásum kirkjunnar manna á trúleysingja og stöðugri aukningu trúboðsstarfssemi, þar sem börn eru markhópurinn. Vonandi verður hægt að leggja félagið niður áður en of langt um líður, en á meðan kirkjan notar sífellt stærri hluta af almannafé í markaðsstarf þá virðist nú vera einhver bið..

Gamla kirkjuferða“hefðin“

Posted: desember 9, 2012 in Trú, Umræða

Það eru ansi margir að hneykslast á okkur vondu trúleysingjunum vegna þess að við viljum ekki að börn séu send í trúboð á skólatíma. Trúboð á auðvitað ekkert erindi í skóla eða á skólatíma, jafnvel þó foreldrar þriggja fjórðu nemenda tilheyri sama trúfélagi. Hvað þá þegar vel innan við helmingur er trúaður. Að ég nefni nú ekki að smábrot af þessum sömu foreldrum fer í kirkju utan hátíða og „skyldu“ viðburða.

Aðalrökin virðast þó að þetta sé góð og gild gömul íslensk hefð. Þessu fylgir gjarnan að minnihlutinn sé að kúga meirihlutann með því að vilja stöðva þessar ferðir. Auðvitað er þetta ekki spurning um meirihluta eða minnihluta.

En það sem fer kannski mest í skapið á mér í þessari umræðu er að þetta bara akkúrat engin gömul hefð í nokkrum skilningi. Ég var aldrei sendur í kirkjuferð í skóla. Ég er kannski gamall, en ekki svo gamall að hægt sé að tala um einhverjar hefðir. Og það sem meira er, yngra fólk man ekkert eftir þessu heldur.