Fyrstu viðbrögð við að vera uppnefndur og kallaður einhverjum ónefnum er gjarnan að bregðast illa við og fara í vörn, hugsa viðkomandi „uppnefnara“ þegjandi þörfina.
En ég hef smám saman lært að þetta er gjarnan hið besta mál. Oftar en ekki staðfestir þetta að viðkomandi hefur engin rök og engar upplýsingar – er rökþrota og hefur ekkert málefnalegt fram að færa.
Ég sá í Fréttablaðinu um daginn grein þar sem talað er um „árásargjarnar andtrúarhreyfingar“. Mig grunar að þarna sé meðal annars átt við Vantrú, þar sem ég er meðlimur. Tilefnið átti víst að vera að starfsemi snúist að mestu um að afsanna líkingar úr biblíunni og barátta okkar snúist að mestu um hvort Jesú hafi gengið á vatni eða ekki. Jafnvel að banna trú.
Þessu fer auðvitað víðsfjarri, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til. „Dómsdags kjaftæði“ myndi einhver segja, en ég er auðvitað svo kurteis. Það má vera að í einhverjum tilfellum hafi þeim verið svarað sem telja sögur biblíunnar bókstaflega réttar – til dæmis prestinum í Hafnarfirði nýlega sagðist telja meyfæðinguna sannleikanum samkvæma – en það er fráleitt að baráttan snúist að einhverju leyti um þetta, hvað þá að mestu leyti.
Baráttan snýst einfaldlega um að fá að hafa okkar trúleysi í friði fyrir ágangi trúboðs og hvers kyns boðun hindurvitna. Félagið var stofnað sem mótvægi við sífellt harkalegri árásum kirkjunnar manna á trúleysingja og stöðugri aukningu trúboðsstarfssemi, þar sem börn eru markhópurinn. Vonandi verður hægt að leggja félagið niður áður en of langt um líður, en á meðan kirkjan notar sífellt stærri hluta af almannafé í markaðsstarf þá virðist nú vera einhver bið..
Gildir þetta ekki líka um allt markaðsstarf? Ég vil t.d. gjarnan fá að vera í friði fyrir stöðugum auglýsingum frá mjólkurframleiðendum. Ég hef engan áhuga á að neyta mjölkurvara og þegar ég veit að það eru algjör hindurvitni að börn og unglinar þurfi að neyta þeirra og að þær séu meira að segja hættulegar heilsu þeirra samkvæmt vísindarannsóknum, þá er spurning hvort ég eigi ekki að stofna samtök gegn mjólkurframleiðendum?
Nei, þetta gildir nú ekki um allt markaðsstarf, þó auglýsingar fari nú oftar en ekki í taugarnarnar á mér. Svo við höldum nú líkingunni þá væri þetta eins og að auglýsa vörur sem hvergi fást og aldrei hefur verið sýnt fram á að séu til.
Þú stofnar auðvitað þau samtök sem þú hefur áhuga á, sjálfur drekk ég ekki mikið af mjólk en vildi ógjarnan vera án osta – þannig að ég verð ekki með. Og ekki hef ég séð staðfestar vísindarannsóknir sem segja mjólk hættulega börnum. En þú hefur auðvitað þina hentisemi með það…
Reyndar finnst mér líkingin við markaðsstarf vera alveg ágæt. Það er nefnilega ekkert sem mælir móti því að kirkjan markaðssetji sig, ekkert frekar en t.d. Hagkaup. Það væri hins vegar verulega óeðlilegt að ríkið styrkti Hagkaup sérstaklega til markaðsstarfa, hvað þá að það gerði upp á milli smásöluaðila og skammtaði sumum meira en öðrum og sumum ekkert. Og þetta á auðvitað við um trúfélög líka.
Sú líking á reyndar við – en fyrir mér er munurinn líka sá að td. Hagkaup er að selja það sem þeir segja selja – ja, oftast – og ef ekki þá er kvartað td. til neytendasamtakanna.
Kirkjan er hins vegar að selja eitthvað sem þeir geta ekki sýnt fram á að sé til.
Kannski er hugmynd að fá Neytendasamtökin í lið með okkur?
Mjólkurframleiðendur markaðsetja það að maður verði að fá kalk úr mjólk annars fái menn beinþynningu. Þetta er „vara“ (að vera laus við beinþynningu) sem er stenst ekki, en markaðsetningin er fjármögnuð með opinberu fé alveg eins og vara og þjónusta kirkjunnar. Þeir sem reyna að benda á þá vísindalegu staðreynda að mjólk er hættuleg heilsu fólks verða fyrir árásum mjólkurframleiðenda eins og félagar Vantrúar verða fyrir árás frá trúarfélögum og eru uppnefndir vegna skorts á rökum og sönnunum hjá mjólkurframleiðenda.
Það er ástæða fyrir því að þú hefur ekki séð staðfestar vísindarannsóknir sem segja mjólk hættulega vegna þess að þeim er kerfisbundið haldið frá almenningi með mikilli fyrirhöfn og fjármunum. Þetta er svipað og kirkjan gat haldið staðreyndum frá almenningi öldum saman. Almenningur hafði einfaldlega aldrei séð staðfestar vísindarannsóknir sem afsönnuðu tilvist Guðs og félaga. Mjólkurframleiðendur koma hins vegar upp um sig, þegar umræðan hefst um að flytja inn nýtt mjókurkúa kyn til landsins til að auka framleiðsluna. Þá er bent á að mjólk úr íslenskum kúm er ekki “ alveg eins skaðleg“ börnum og mjólk úr erlendum kúm.
Ég veit að Valgarður horfir aldrei á myndbönd og fyrirlestra af internetinu, en ég leyfi mér að benda hér fyrirlestur frá lækni fyrir aðra þá sem vilja kynna sér hættuna af mjólkurvörum og ég hvet vantrúaða til að skipta út mjólkurframleiðendum fyrir kirkjuna og þá sér maður að aðferðirnar eru alveg eins, líka hvernig þeir nota skólakerfið til að koma áróðri sínum til barna. Það er félagafrelsi hér á landi og ég virði að Valli vilji ekki vera í antimjólk félaginu, alveg eins og ég er ekki félagi í Vantrú þó ég sé um margt mjög sammála Vantrú.
http://www.drmcdougall.com/video/marketing_milk_and_disease.htm
Ekki veit ég hvers vegna þessi umræða er komin út í vangaveltur um mjólk. En við í Vantrú erum frekar fáliðuð og náum ekki að taka allar „syndir“ heimsins á okkar herðar, höfum einbeitt okkur að þessum hefðbundnu hindurvitnum.
Það er rétt, YouTube fyrirlestrar eru ákafleg vond fyrirbæri og ég sé enn eftir tímanum sem ég hef sóað í að horfa á hverja myndskreytta þvæluna á eftir annarri (án þess að ég sé að stimpla allt sem vitleysu).
En bentu mér á ritrýnda, endurtekna vísindalega rannsókn og það er aldrei að vita nema ég gangi í ekki-mjólkur-félagið. Þó ég vilji nú sennilega frekar taka áhættu á heilsunni en að sleppa ostum og fleiri afurðum.
Neikvæð áhrif neyslu mjólkuvara á heilsu er fjölmörg, en sterkust eru þau sennilega hvað varðar sykursýki barna (sykursýki 1 þar sem brisið hættir að gera framleitt insúlín og barnið deyr nema það fái insulín utanfrá það sem eftir er ævinnar.) . Það er ekki bara að sýnt hefur verið fram á samband neyslu kúamjólkur ungbarna og sykursýki, heldur er orsakasamhengið einnig vel þekkt og rannsakað. Auðvitað eru til rannsóknir fjármagnaðar af mjólkuriðnaðinum sem sýna fram á hið gangstæða, en slíkar andstæðar niðurstöður eru líka þekktar varðandi samband reykinga og lungakrabbmeinsl, eða CO2 losunar og gróðurhúsalofttegunda. Hér eru nokkrar ritrýndar vísindagreinar um rannsóknir á áhrifum kúamjólkur á sykursýki 1 hjá ungbörnum:
Karjalainen H, Matrin JM, knip M, et al “ A bovine albumin peptide as a possible trigger of insulin-dependent Diabetes Mellitus“ New Engl. Journ. Med 327 (1992) 302-307
Akerblom hK, and Kip M. „Putatitive environmental factors and Type 1 diabetes. “ Diabetes metabolish Rev. 14 (1998) 31 – 67
Naik RG, and Palmer JP. „Preservation of beta-cell function in Type 1 diabetes. “ Diabetes Rev. 7 (1999) 154-182
Virtanend SM, Rasanens L, Aro A, et al. Infant feeding in Finnish children less than 7 yr of age with newly diagnosed IDDM. Childhood diabetes in Finland Study Group.“ Diabetes Care 14 (1991) 415-417
Savilahti E, Akerblom HK, Taino V-M, et al “ Children with newly diagnosed insulin dependent diabetes mellitus have increased levels of cow’s antibodies“ Diabetes Res 7 (1988) 137-140
Yakota A, Yamaguchi T, Ueda T, et al. “ Comparison of islet cell antibodies, islet cell surface antibodies and anti-bovine serum albumin antibodies in Type 1 diabetes. “ Diabetes Res. Clin. Pract. 9 (1990) 211-217
Hammond-Mckibben D, and Dosch H-M, “ Cow’s milk, bovine serum albumin, and IDDM: can we settle the controversies? “ Diabetes Care 20 (1997) : 897-901.
Akerblom HK, Vaarala O, Hyoty H, et al. “ Environmental factors in the etiology of Type 1 diabetes“ Am. J. Med. Genet (Semin. Med Genet.) 115 (2002) 18-29
Borch-Johnsen K, Joner G, Mandrup-Poulsen T, et al. „Relation between breast feeding and incidence rates of insulin-dependent diabetes mellitus, a hypothesis“ Lancet 2 (1984); 1083-1086.
Perez-Bravo F, Carrasco E, Gutierrez-Lopez MD, et al. „Genetic predisposition and environmental factos leading to the development of insulin-dependent diabetes mellitus in Chilean children“ J. Mol Med 74 (1196) 105-109
Kostraba JN, Cruickshanks KJ, LawelerHeavner J, et al. „Early exposure to cow’s milk and solid foods in infancy, genetic predisposition, and risk of IDDM. “ Diabetes 42 (1993) 288-295.
Dahl-Joergensen K, Joner G and Hanssen KF. „Relationship between cow´s milk consumption and incidence of IDDM in childhood. “ Diabetes Care 14 (1991): 1081-1083.
Gerstein HC. „Cow’s milk exposure and Type 1 diabetes mellitus: a critical overview of the clinical literature.“ Diabetes Care 17 (1994): 13-19.
Kimpimaki T, Erkkola M, Korhonen S, et al. „Cow´s milk consumption, HLA DQB1 genotype and Type 1 Diabetes. “ Diabetes 49 (2000) 912-917
Monetini L, Cavallo MG, Stefanini L, et al. „Bovine beta casein antibodies in breast- and bottle-fed infants: their relevance in Type 1 diabetes.“ Diabetes Metab. Res. Rev. 17 (2001) 51 – 54
Norris JM, and Pietropaolo M. „Review article. Controversial topics series: milk proteins and diabetes“ J. Endocrinol. Invest. 22 (1999) 568-580
Ef maður slær inn „Cow´s milk diabtes Type 1“ í leitarvél Hvar.is sem leitar að vísindagreinum, þá fær maður fleiri hundruð rannsóknir. Ég ætla ekki að fylla þetta blog með vísindagreinum.
Fjölmargar endurteknar rannsóknir sýna fram á samband neyslu kúamjólkur
og blöðruhálskrabbameins, eistnakrabbmeins, MS sjúkdóms, ótímabærs kynþroska og hækkað IGF-faktors, gigtar, aukins blóðþrýstings og kólestróls (áhættuþættir fyrir æða og hjartasjúkdóma) .
Rétt þegar ég hélt að mjókurumræðan væri búin… en þetta er ansi langur listi.
Þrjár spurningar til að spara mér tíma ef ég skyldi nú fara að skoða
1. Til einföldunar, ég sé að fyrsta greinin hefur „possible“ í titlinum, ég væri alveg til í að þú bentir mér á hvaða greinar sýna fram á afdráttarlaus tengsl, svo ég þurfi nú ekki að vaða í gegnum þetta allt.
2. Ég hef ekki kynnt mér þetta vel, nema hvað ég kynnti mér nokkuð vel rannsóknir á hugsanlegum orsökum MS, þar voru ýmsar kenningar og hugmyndir, en ekkert staðfest, hvorki varðandi mjólk eða annað. Reyndar komin einhver ár síðan.
3. Þú segir að mjólkuriðnaður styrki rannsóknir sem benda til annarra niðurstaðna, Það skiptir mig engu hver styrkir rannsókn, aðeins hvort gætt hafi verið faglegra vinnubragða. Eru sem sagt alvöru rannsóknir sem sýna gagnstæðar niðurstöður?
Þannig að, til einföldunar, eru til einhverjar afdráttarlausar rannsóknir sem standast skoðun. Ef þú nefnir bara eina, til að spara tíma, þá er sjálfsagt að skoða. En ég geri kröfu um alvöru rannsókn sem sýnir alvöru niðurstöður, ekki getgátur eða vangaveltur eða eitthvað hugsanlegt.
Ég hef einfaldlega ekki nægilegan áhuga á efninu til að skoða 30 greinar með vangaveltum og hugsanlegum áhrifum. Svo langt sem ég hef kynnt mér málið þá drekka fullorðnir sennilega of mikið af mjólk, sjálfur hef ég minnkað mjólkurdrykkju mikið, enda finnst mér hún ekkert sérstaklega góð, ostum er ég ekki til í að sleppa, og tek einfaldlega þá áhættu.. enda lítið annað en vatn eftir ef maður trúir öllum sögum um mögulegar hættur.
Ég vona að ég valdi ekki vonbrigðum með því að minnast ekki á mjólkurvörur, þráðurinn virðist farinn að snúast mikið um þær. Mér fannst samlíkingin við markaðssetningu hins vegar áhugaverð og vildi benda á að menn hafa séð ástæðu til að setja strangari reglur um markaðssetningu sem beinist að börnum en aðra markaðssetningu, sbr. http://www.neytendastofa.is/Pages/240. Þar er þeim sem beita slíkum auglýsingum m.a. uppálagt að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga, sem er einkar mikilvægt að hafa í huga ef menn vilja nota þessa samlíkingu um kirkjuna.
Já, það hefur einmitt verið átak í gangi að þessu leyti, en kirkjan hefur sloppið. Mér þykir þetta skemmtilegur vinkill…
Það var ekki ætlun mín að snúa umræðunni upp í umræður um mjólkurvörur, en það sem vakti fyrir mér var að varpa fram þeirri spurningu, hvort við ættum ekki stundum að umbera sumt af því sem kemur frá fólki sem við erum ekki sammála, í stað þess að stofna félög til að fara í baráttu við þá sem við teljum fara með rangt mál og eru duglegir að markaðsetja sig.
Eðlilegt getur verið að stofna til hófsamrar rökræðu á opinberum vettvangi og jafnvel kæra til yfirvalda/eftirlitsaðila ef beitt er ólöglegum aðferðum og blekkingum, eða jafnvel verið að valda almenningi skaða, en láta síðan þar við sitja.
Það sem Valli segir um kirkjun má alveg eins heimfæra upp á t.d. stjórnmálafokka sem markaðsetja sig með opinberu fé þar sem þeir segjast t.d. skapa störf og fleiri vörur og þjónustur sem eru ekki til. Ástæða þess að ég vil ekki ganga í Vantrú er einfaldlega sú baráttuheift sem félagar Vantrú sýna í „trúboði“ sínu gegn trú og hindurvitnum. Ég umber það alveg þó einhverjir fullorðinir kaupi það sem kirkjan boðar og sætti mig við að farið sé með fleipur opinberlega, en treysti á að meirihluti fólks sé skynsamur og hófsamur.
Færslan snýst um þá tilhneigingu margar til að uppnefna fólk þegar rökum sleppir og þeir standa á gati. Ég hef engar athugasemdir við málefnalega umræðu, hvort sem fólk er sammála eða ósammála mér.
En, nei, það er afdráttarlaust að við eigum við ekki að umbera það að sótt sé að börnum með trúboði í skólum og leikskólum. Þessi markaðssókn hefur ágerst á síðustu árum og kirkjan hefur brugðist við með rangfærslum og beinum lygum þegar reynt er að sporna við fótum (sbr. orð biskups í fyrra).
En ég verð að biðja þig um að sleppa þessu kjaftæði (afsakaðu, en ég á ekki betra orð) um að vantrú hafi sýnt einhverja „heift“ eða standi í einhverju „trúboði“, Svona órökstuddar yfirlýsingar eru einmitt það sem þessi færsla snýst um. Það er reyndar eitt af því sem markaðsdeild kirkjunnar er að reyna að koma inn hjá fólki.
Afsakaðu að ég skuli nota lýsinguna „baráttuheift“. Ég hefði frekar átt að nota orðið „baráttuákefð“, því mér finnst það lýsa mun bettur minni upplifun af málflutningi og starfi Vantrúar. Eftir á að hyggja er orðið „heift“ rangt orð Því miður get ég ekki rökstutt tilfinningar mínar eða upplifun. Tilfinningar og upplifun er ekki eitthvað sem ég tek meðvitað ákvörðun um eftir vandlega og skynsamlega rökhugsun, heldur bara einhver hormón og efnaskipti sem fara af stað vegna utanaðkomandi áreitis (sem gæti hugsalega verið ómeðvitað tilkomið hjá mér vegna árangursríks áróður kirkjunnar).
Ég nota orðið „trúboð“ í ógeiginlegri merkingu hér. Ég meinti ekki að Vantrú væri að boða einhverja trú eða vantrú, heldur að meðlimir Vantrúar flytja málstað sinn og röksemdir af sama krafti, sannfæringu og tíðni og trúboðar að boða sína trú. Svona eins og það sé djúp innri köllun meðlima Vantrúar til að berjast fyrir staðreyndum og vísindum, gegn kukli og hindurvitnum og noti flest tækifæri til þeirrar baráttu. Ég hef bara ekki þá orku og sannfæringu að vera að standa í rökræðum við trúaða af miklum krafti og tel að tímanum sé betur varið í margt annað mikilvægara og gagnlegra.
En afhverju eigum við afdráttarlaust ekki að umbera það að sótt sé að börnum með trúboði? Getur þú bent mér á einhverja ritrýnda, endurtekna vísindalega rannsókn sem sýnir fram á skaðsemi þess fyrir börn að þau heyri um innihald hinnar vinsælu skáldsögu Biblíu og goðsögnina um helvíti og himnaríki, eða þau læri að fara með bænir, eða fræðist um eitthvað sem kirkja aðhefst?
Ég vil meina að þessi tilfinning þín fyrir Vantrú sé afleiðing af gegndarlausum áróðri kirkjunnar, þetta stenst enga skoðun.
Orðið trúboð, hvort sem í óeiginlegri eða eiginlegri merkingu felur í sér að troða skoðunum sínum upp á aðra. Það er ekki hlutverk Vantrúar, aðeins að berjast gegn þessum yfirgangi kirkjunnar.
Það er enginn að tala um skaðsemi þess að börn læri um trúarbrögð, svo ég slái nú á enn eina bábiljuna um skoðanir Vantrúar og annarra trúlausra. Áróðursmaskína kirkjunnar hefur hins vegar haldið því að fólki að þetta sé stefna okkar.
Trúboð einnar trúar í skólum, þeas. að kenna börnum að sögur biblíunnar séu sannleikur, einhverjir yfirnáttúrulegir atburðir hafi átt sér stað í raun og veru, svo sem meyfæðing og upprisa, að einhver vera hafi skapað heiminn, að heimurinn sé fárra þúsunda ára gamall og þar fram eftir götunum… þetta á einfaldlega ekkert erindi í menntastofnanir. Þetta boða samt margir prestar, auk þess að breiða út til að mynda skoðanir um samkynhneigða sem hafa valdið óbærilegum kvölum. Það þarf enga rannsókn til að sýna fram á skaðsemi trúarbragða og trúboðs. Það að kenna bábiljur í menntastofnun að þessu leyti er jafn fráleitt og hver önnur vitleysa.
Þá máttu ekki gleyma því að það er mörgum foreldrum þvert um geð að staðleysum sé troðið ofan í börnin á skólatíma, það er ekki hlutverk skólans að rugla í börnum gegn vilja foreldranna.
Og það er skelfilegt að fylgjast með hvernig sumir foreldrar barna þurfa ýmist að sætta sig við að börnin fari í trúboðsferðir – eða verði útundan með því sem það kostar á þessum aldri.
Ég vona að þú hafir unnið betur úr þessum mjólkur upplýsingum – og skoðað báðar hilðar – en þú virðist hafa gert þegar þú tekur afstöðu til Vantrúar. Þetta eru ekkert annað en fordómar.