Gamla kirkjuferða“hefðin“

Posted: desember 9, 2012 in Trú, Umræða

Það eru ansi margir að hneykslast á okkur vondu trúleysingjunum vegna þess að við viljum ekki að börn séu send í trúboð á skólatíma. Trúboð á auðvitað ekkert erindi í skóla eða á skólatíma, jafnvel þó foreldrar þriggja fjórðu nemenda tilheyri sama trúfélagi. Hvað þá þegar vel innan við helmingur er trúaður. Að ég nefni nú ekki að smábrot af þessum sömu foreldrum fer í kirkju utan hátíða og „skyldu“ viðburða.

Aðalrökin virðast þó að þetta sé góð og gild gömul íslensk hefð. Þessu fylgir gjarnan að minnihlutinn sé að kúga meirihlutann með því að vilja stöðva þessar ferðir. Auðvitað er þetta ekki spurning um meirihluta eða minnihluta.

En það sem fer kannski mest í skapið á mér í þessari umræðu er að þetta bara akkúrat engin gömul hefð í nokkrum skilningi. Ég var aldrei sendur í kirkjuferð í skóla. Ég er kannski gamall, en ekki svo gamall að hægt sé að tala um einhverjar hefðir. Og það sem meira er, yngra fólk man ekkert eftir þessu heldur.

Athugasemdir
 1. Aðalheiður Ámundadóttir skrifar:

  Sonur minn er sautján ára og var aldrei sendur í neinar svona ferðir. Sjálf er ég 34. ára og man ekki eftir svona ferðum frá mínum æskuárum.

 2. Einar skrifar:

  Ég er 32 ára og fór aldrei í svona. Fyrsta kirkju/trúartengt var fermingarfræðslan í 8 bekk.

  Þegar Stöð 2 byrjaði með barnaefnið hrundi víst mæting í sunnudagaskólann og þá fóru þeir að sækja meira í leik- og grunnskólana. Þetta á að taka fyrir strax.

 3. OK, takk fyrir þetta, ég hélt kannski að þetta hefði eitthvað með aldurinn að gera..

  En þegar ég fermdist þá var allur undirbúningur utan skóla, bæði húsnæðis og skólatíma.

 4. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Kirkjuferðir á skóla- og leikskólatíma og heimsóknir presta í leikskóla eru tiltölulega nýtilkomin hefð, hvort sem það er rétt eða ekki að það tengist beint tilkomu morgunbarnatíma Stöðvar 2 eða ekki. Það er hins vegar ljóst að kirkjan sjálf markaði sér þá stefnu að sækja meira inn í skóla- og leikskólarýmið um og upp úr 2000, eða jafnvel fyrr? ég viðurkenni að ég þekki ekki til hlítar alla þá ályktana- og fræðslustefnusögu. Að kirkjan sem ríkisstofnun skuli markvisst sækja inn í lleikskóla-, skóla- og frístundaheimilarýmið er gagnrýnivert sem slíkt, að þær stofnanir skuli ekki hafa markað sér skýra heildarstefnu um að sporna ekki við þeirri sókn er mér satt að segja óskiljanlegt.

 5. nei, þetta virðist einmitt nýtilkomið (enn nýrra en ég áttaði mig á) að kirkjan troði sér inn í skólana – og fyrtast svo við og tala um gamlar hefðir þegar reynt er að sporna við yfirganginum.

 6. Jóhanna Harðardóttir skrifar:

  Já, þetta er alveg nýtt. Skólinn er nýorðinn umboðsaðili trúarsafnaða (eða ætti maður kannsi að trúarsafnaðar- því þetta er aðeins ríkistrúin sem treður sér svona inn í þessa menntastofnun). Þetta er skólanum til háborinnar skammar og foreldrunum sem mæla þessu bót ekki síður, því með þessu er verið að mismuna börnum á herfilegan hátt. Þeir foreldrar sem vilja að börn þeirra kynnist aðventustarfi ríkiskirkjunnar eiga að sjálfsögðu að fara sjálfir með börnin sín þangað utan skólatíma.

 7. Svanur Sigurbjörnsson skrifar:


  Ég tek undir þetta. Prestur kom aldrei við skólasetningar (Mela- og Hagaskóla) og við fórum aldrei í kirkju á vegum skólans þau ár sem ég var nemi þar (1971-1979). Það hefði þótt fráleitt. Gott að vekja athygli á þessu.

 8. Einar Karl skrifar:

  Svo eru trúleysingjar álitnir nöldrarar og leiðindaskjóður með sérþarfir fyrir að kvarta, því á jólunum eiga allir að vera pínu trúaðir og það á ekki að eyðileggja jólastemmninguna með svona tuði. Fólk jafnvel ásakað um hræsni fyrir að leyfa sér að halda jól en vilja afþakka trúaruppeldi kirkjunnar.

  Ef leikskólabörnin væru send í kirkju í september til að sjá trúarlegt brúðuleikhús myndi fólk kannski átta sig betur á því að þetta er auðvitað ekkert sjálfsagt og eðlilegt. Ekki í september, ekki í febrúar og ekki á aðventunni heldur.

 9. Ég er fæddur 1978 (34 ára) og það var aldrei farið í svona kirkjuferð þegar ég var í grunnskóla.

 10. Stormur skrifar:

  Ég hef það beint eftir merkum frammámanni í KFUM að ákveðið hafi verið að sækja inn í skólana þegar sunnudagaskólinn vék fyrir morgunsjónvarpi barnanna. Stór hluti af presta og safnaðarstjórnarmeðlima ólust upp í sunnudagaskólanum og kirkjan er í þveinfaldlega að tryggja sér nýtt blóð til að manna stöður framtíðar máttarstólpa í sínu starfi.
  Á minni grunnskólatíð sem lauk 1981 var aldrei farið í kirkju á vegum skólans en e-h var þó agiterað á skólatíma fyrir sunnudagaskóla.
  Fermingarfræðsla skaraðist ekki við skólatíma.

 11. Ester skrifar:

  Ég man eftir kirkjuferðum í mínum grunnskóla (Garðaskóla), það var alltaf farið í tengslum við skólaslit og þess háttar. Ég kláraði 10. bekk 1999. Undirbúningur fyrir fermingu fór líka að einhverju leiti fram í kristnifræði, eða þar til pabbi minn hringdi allveg brjálaður í skólann… Einhverntímann var ég send inní tölvustofu heila kennslustund meðan hinir krakkarnir mátuðu fermingarkirtla og svona.
  Skólar í Garðabæ hafa líka alltaf „átt í einstaklega góðum tengslum við kirkjuna“, samanber t.d. vinaleiðarmálið. Óþolandi.

 12. Pálmi skrifar:

  Við vorum alltaf dreginn í halarófu upp í Langholtskirkju allur skólinn þegar ég var í Langholtsskóla. (kláraði 10. bekk 2002). Í 10. bekk sagðist ég svo ekki vilja fara og þá var bara annað ekki í boði. Svo ég tók bara geislaspilarann með og fékk svo skammir fyrir það frá aðstoðarskólastjóranum, því ég skyldi nú hlusta á guðs orð svona fyrir jólin og þetta væri bara vanvirðing við kirkjuna hjá mér.

 13. Halldóra Theódórsdóttir skrifar:

  Við fórum á hverju ári í ferð í kirkjuna. Ég var í Hamraskóla (Grafarvogi) til 1999. Ég kvartaði hástöfum ár eftir ár þar sem ég var og er trúlaus og fannst það ekki rétt að ætti að sitja guðsþjónustu þvert á vilja minn. Ég fermdist borgaralega (og var því alltaf í fríi í skólanum þegar hin börnin fóru í fermingarfræðslu), þrátt fyrir það var það ekki fyrr en í 10. bekk sem ég loksins fékk að sleppa kirkjuferðinni. Auk þess man ég að presturinn í Grafarvogskirkju sendi mér og vinkonu minni skilaboð (í gegnum samnemendur okkar) um að við ættum kannski að kíkja í fermingarfræðslu til að sjá hvernig það er. Mér fannst mín trúarafstaða aldrei virt þegar ég var í grunnskóla.

 14. Theodór Gunnarsson skrifar:

  Ég man ekki eftir svona löguðu, en ég er fæddur 1954. Hins vegar man ég að hverfispresturinn kom inn í kennslustund til okkar til að draga okkur í fermingarfræðslu. Honum varð vel ágengt því að ég held að allur bekkurinn hafi fermst hjá honum það árið, ég meðtalinn.

  Ég tel mig hafa beðið lítilsháttar skaða af að hafa látið glepjast til að fermast. Ég fór í þetta gegn betri vitund, af því að þannig var straumurinn og þessi þrýstingur á að fljóta með, og mér hefur alltaf liðið illa með að hafa gert þetta. Ég var óheiðarlegur og ósamkvæmur sjálfum mér, enda vakti ég athygli barnanna minna á að borgaraleg ferming væri valmöguleiki.

 15. Þórður Ingvarsson skrifar:

  Miðið þetta við þúsárafmæli kriztni á Íslandi árið 2000 og þá vandræðalega lélegu mætingu á Þingvöllum af því tilefni sama ár. Og svo þessi merkilegu orð Karl Sigurbjörnssonar, fyrrum biskups, ári seinna:

  >Kennum börnunum bænir! ætti að vera heróp og hvatning kirkjunnar. Og í því skyni ættum við að kalla til samstarfs foreldra og uppalendur, dagmæður, leikskóla og grunnskóla. Barnastaf kirkjunnar hefur verið ómetanlegt starfstæki í miðlun trúar og bænar. Það er útrétt hönd til heimilanna. Gleðilegt er að sjá að þeim foreldrum fer fjölgandi sem fylgja börnum sínum í barnastarf kirkjunnar. (Í birtu náðarinnar eftir Karl Sigurbjörnsson, b.89, Skálholtsútgáfan, 2001)

  Þessi „hefð“ er ekki eldri en þetta.