Jú, þér finnst þetta víst!

Posted: desember 12, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég hef alveg þokkalega gaman af því að ræða málin og skiptast á skoðunum við fólk. Þess vegna eyði ég nú til dæmis tíma í að skrifa þessar færslur hér og svara, svona vel flestum, sem þarf að svara. Einstaka skætingi læt ég ósvarað, en það hefur stórminnkað eftir að ég færði mig frá Eyjunni og skrifa hér.

Hitt er að það er ansi erfitt að halda uppi rökræðum þegar „viðræðandi“ er stöðugt að gera mér upp skoðanir og skammast svo út í þessar skoðanir sem hann er búinn að gera mér. Og lætur allar leiðréttingar sem vind um eyrun (augun?) þjóta.

Besta dæmið er sennilega umræða um kirkjuferðir barna á skólatíma. Ég tel vissulega að  trúboð eigi ekkert erindi í menntastofnanir og það sé hlutverk foreldra að fara með börn í kirkju ef þeir kjósa svo.

Ég þarf hins vegar stöðugt að sitja undir að ég vilji

  1. banna fræðslu um kristni eða trúarbrögð í skólum
  2. leggja af einhverja áratuga hefð
  3. banna börnum að fara í kirkju

Og það er alveg sama hvað ég reyni að útskýra oft að ekkert af þessu er rétt – ég fæ bara fleiri og fleiri rök gegn skoðunum sem ég hef ekki!

Æ, jú, þetta getur verið svolítið þreytandi…

Athugasemdir
  1. Arnar skrifar:

    Möguleg skýring á þessu gæti verið að þeir gera manni ekki upp skoðanir eins og þær sem þú ert að lýsa geta ansi lítið sett út á málflutninginn og eru því annað hvort sammála eða tjá sig ekki.
    Annars held ég (ath, bara skoðun, ekki sannleikur) að það séu fyrst og fremst tveir hópar af fólki sem eru fylgjandi þessu kirkjuferðum skólanna, annars vegar þeir sem telja að kristilegt innlegg frá kirkjunar þjónum eftir skóla sé ekki nóg og að börnin þurfi ábót á skólatíma og hins vegar kristið fólk sem ekki trúaðara en svo að það nennir ekki að taka þátt í trúboðinu sjálft, hvort sem það sé að fara með börnin í kirkju eða gera það heimafyrir. Hef ekki ennþá séð neinn reyna að færa rök fyrir því hvers vegna þetta verður að fara fram á skólatíma, enda ekki líklegt það séu til góð eða sannfærandi rök fyrir því.

  2. Skeggi Skaftason skrifar:

    Smá trúboð á jólunum er bara fínt. Það finnst flestum Íslendingum. Börnin eiga að fá að upplifa ævintýrin um Jesús og jólasveinana. Þess vegna finns mörgum að Vantrú sé að berjast á móti „jólahefðum“. Fólki finnst krúttlegt að börnin trúi á Jesús, meyfæðinguna, engla og upprisuna, og fái mandarínu í skóinn frá jólasveininum.

    Um þetta skrifar Friðrika Benónýsdóttir í Fbl í dag:
    http://visir.is/burt-med-jesus-og-jolasveina/article/2012712139981

  3. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

    Grein Friðriku er frábært dæmi um það sem Valgarður er að gagnrýna. Hvorki hann né aðrir hafa heimtað að aðrir ,,fórni sínum jólahefðum“.