Þreyttar auglýsingar

Posted: desember 5, 2012 in Umræða

Ég er kannski eitthvað undarlegur þegar kemur að auglýsingum – eins og svo mörgu  öðru.

Ég dett eiginlega oftast út þegar auglýsingar byrja í sjónvarpinu, fletti hratt yfir heilsíðu- eða opnuauglýsingar í blöðum og tek lítið eftir auglýsingum á vefsíðum.

Auðvitað geta komið ágætis ábendingar um nýjar vörur eða gott tilboð. Og það er svo sem allt í lagi ef menn koma sér að efninu.

Það sem ég skil ekki er hvernig nokkrum manni dettur í hug að einhverjar væmnar sögur af fólki, skræpóttir skríkjandi leikarar eða áferðafallegar landslagsmyndir verði til að ég kaupi einhverja vöru eða skipti við eitthvert fyrirtæki. Þetta eru einfaldlega marklausir langhundar sem gera ekki annað en mögulega fara í taugarnar á mér.

Kannski er ágætt markmið að taka nú eftir hvaða fyrirtæki þetta eru og setja sér að versla ekki við þau. Ég vil í öllu falli ekki koma þeim skilaboðum til þeirra, í verki, að óþolandi auglýsingar virki. Mitt lóð á vogarskálarnar er ekki þungt, svona eins og eitt atkvæði í kosningum. En ég ætla að minnsta kosti að gera mitt.

Athugasemdir
  1. Óskar P. Einarsson skrifar:

    Þetta baráttumál fær mitt atkvæði!