Verðbætur á höfuðstól

Posted: desember 4, 2012 in Umræða, Verðtrygging
Efnisorð:, ,

Það er mikið búið að fjalla um fullyrðingar  í Silfri Egils á sunnudag þess efnis að það væri ólöglegt að verðtryggja höfuðstól lána. Ég missti reyndar (aldrei þessu vant) af þættinum – og það tvisvar – og þess vegna þessi síðbúna athugasemd.

En ef ég skil rétt kom fram að það væri (líkast til) ólöglegt að verðtryggja höfuðstól lána. En það fylgdi líka sögunni að það væri í lagi að verðtryggja greiðslurnar af sama láni.

Þetta var svo fyrsta frétt RÚV um kvöldið.

En hver er fréttin?

Það breytir nefnilega nákvæmlega ekki neinu hvort höfuðstóllinn er hækkaður fyrst og afborgun reiknuð svo – eða hvort afborgunin er reiknuð fyrst og svo verðtryggingin.

Þetta er svona grunnskólastærðfræði að a * b = b * a.

Þetta skiptir nákvæmlega ekki neinu máli. Niðurstaðan er sú sama upp á krónu.

Tökum einföld dæmi um lán og höfum þau vaxtalaus til einföldunar:

Skoðum fyrst ef ég tek lán upp á 1.000 krónur til eins árs. Gefum okkur að vísitalan hækki um 10%. Þá greiði ég 1.100 krónur, hvort sem höfuðstóllinn er fyrst hækkaður í 1.100 eða ég greiði 1.000 krónur sem hækka um 10% vegna vísitölu. Í báðum tilfellum er endanlega greiðsla 1.100 krónur. Niðurstaðan er nákvæmlega sú sama.

Sama gildir ef ég tek 1.000 króna lán til tveggja ára. Höfum vísitöluna áfram 100 í upphafi, 105 eftir ár og 110 eftir tvö ár. Þá er afborgunin 500 krónur eftir eitt ár, greiðslan hækkar um 5% og ég borga 525 krónur. Ef ég fer hina leiðina þá hækkar lánið um 5% upp í 1.050 krónur og ég greiði helminginn af því. Sem er einmitt, 525 krónur. Svo þegar seinna árið er liðið borga ég annað hvort 10% hækkun á höfuðstól, sem gerir 550 krónur eða 10% hækkun á greiðslu, sem er – ótrúlegt en satt – 550 krónur.

En þetta er auðvitað stórfrétt. Eða ekki.

Athugasemdir
  1. Þetta er ágætis dæmi um hið meinta „álag“ á íslensku fréttafólki. Stór hluti þeirra „frétta“ semskrifaðar eru er svo fullkomin þvæla að það er ansi fáránlegt að halda fram að fréttafólk hafi ekki tíma til að gera hlutina vel. Því augljóslega er tilgangslaust að skrifa „fréttir“ af þessu tagi. Með því að hætta því væri hægt að eyða tvöföldum tíma í að vinna vel fréttir sem eru um eitthvað.

  2. Ég man eftir fréttaumfjöllun um atriði sem stóðst ekki – og hefði verið auðvelt að ganga úr skugga um að stóðst enga skoðun. Þegar ég gekk á fréttamanninn kom svar á þá leið að ef þetta hefði verið rétt, þá hefði þetta verið svo mikil frétt!