Jólin

Posted: desember 25, 2012 in Trú, Umræða

Ég vil nota tækifærið og senda óskir um gleðileg jól til allra, trúlausra sem trúaðra, hverrrar trúar sem þeir eru. Við höfum verið heppin með okkar jólahald og ég á ekki betri jólaósk en að sem flestir hafi það jafn gott og við.

Þessi jól leitar hugurinn reyndar til tveggja vina sem eru að berjast við erfiða sjúkdóma.

En svona ef einhver skyldi hafa áhuga þá eru háðirnir orðin frekar hefðbundin hjá okkur.. fyrst á dagskrá er laufabrauðsgerð með fjölskyldunni, einhvern sunnudaginn í desember. Minn hluti fjölskyldunnar hittist svo í skötu / saltfiskveislu á Þorláksmessu, stundum röltum við í bæinn eftir átið, nú eða þá að við drífum okkur heim til að klára síðustu verkin. Í öllu falli klárum við að pakka inn (eða reynum) og sjóðum hangikjöt, oftar en ekki eitthvað fram eftir nóttu.

Aðfangadagur fer gjarnan í síðustu verkefnin en hefur verið rólegri síðustu ár.. byrjum á graut í hádeginu, þar sem sama sagan (af Jonna og bjórnum) er endurtekin af staðfastri reglusemi.

Aðalrétturinn um kvöldið er svo kalkúnn, stundum hnetusteik fyrir Jonna. Graflax er gjarnan í forrétt og ísterta í eftirrétt. Fjórða hvert ár koma tengdaforeldrarnir og eru með okkur. Við sleppum messum, bæði kirkjuferðum, í útvarpi og sjónvarpi. En spilum gjarnan eftir að hafa gefið okkur góðan tíma í að opna jólapakka.

Jóladagur byrjar helst á bók og brauði frá Öggu systur minni, en þegar líður á daginn er jólaboð fyrir minn hluta fjölskyldunnar. Á annan í jólum er svo jólaboð með fjölskyldu Iðunnar.

Milli jóla og nýárs höfum við reynt að halda skákmót, þó það hafi reyndar dottið niður síðustu árin en Bridgemótið daginn fyrir gamlársdag hefur verið haldið nokkuð reglulega í tæp tuttugu ár.

Gamlársdagskvöld höfum við svo byrjað með tengdaforeldrunum, stundum koma fleiri systkini Iðunnar og síðustu árin hafa Hafsteinn, Jóna og börn verið með okkur. Lengi vel fylgdi almennilegt partý fram eftir nóttu, en síðustu ár hafa verið frekar róleg.

Í stuttu máli, við höfum verið mjög heppin með þennan tíma og vonandi verður svo áfram.

Lokað er á athugasemdir.