Vopn eða fólk?

Posted: desember 15, 2012 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Við erum aftur minnt óþægilega á hrikalegar afleiðingar þess hálfvitaháttar að hafa morðvopn aðgengileg fyrir nánast hvern sem er.

„Byssur drepa, ekki fólk“ er klisja sem margir endurtaka og halda að það þýði að það sé allt í lagi að hafa nánast opið aðgengi að byssum, því fólkið sé vandamálið ekki byssurnar. Þetta er svo sem rétt svo langt sem það nær, en það nær bara mjög stutt. Það er lykilatriði að bilaður einstaklingur geti ekki auðveldlega náð sér í vopn til að framkvæma voðaverk.

Það hanga margir á einhverju ákvæðu bandarísku stjórnarskrárinnar sem þeir túlka þannig að öllum sé frjálst að bera vopn sér til varnar. Sennilega er þetta rétt túlkun. Það sem aftur er galið er að menn skuli líta á þetta sem svo heilagt rit að engu megi breyta og ekkert betrumbæta í ljósi sögunnar og að fenginni reynslu. Bandaríska stjórnarskráin er að mörgu leyti ágætis plagg, hefur reyndar verið breytt hátt í þrjátíu sinnum, en að líta svo á að hver einasta setning hafi verið óskeikul og eigi við um alla eilífð er út í hött. Mig grunar meira að segja að þeir sem stjórnarskrána skrifuðu á sínum tíma væru löngu búnir að breyta þessu væru þeir enn á lífi. Sú hugsun að verja rétt bilaðra einstaklinga til fjöldamorða hefur varla verið tilgangur þeirra, hvað þá að það hafi samræmst þeirra hugsjónum.

Mér varð oft hugsað til þessa frasa þegar sömu stjórnvöld og kyrjuðu þennan söng réðust til atlögu við harðstjóra vegna ætlaðra gereyðingarvopna. Samkvæmt þeirra eigin (hunda)lógík þá eru gereyðingarvopn ekki hættuleg, bara leiðtogar sem eru tilbúnir til að nota þau.

PS. Svona í ljósi athugasemda. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé eina skýringin á sí endurteknum fjöldamorðum í Bandaríkjunum. Það hvarflar ekki að mér að það sé til einhver töfralausn. Og ég er heldur ekki að mæla með yfirdrifinni forsjárhyggju. En á meðan nánast hver sem er getur pantað öflug morðvopn hjá „póstverslun“, svarti markaðurinn blómstrar og litlar kröfur eru gerðar til þeirra sem fá vopnin… þá getum við búist við að svona harmleikur endurtaki sig.

Lokað er á athugasemdir.