Ég bauð mig fram til Alþingis fyrir hönd Sólskinsflokksins 1979. Okkar aðal stefnumál var að breyta veðrinu, ma. með því að setja veðurfræðinga á bónus þannig að þeir fengju einungis greitt fyrir góðviðrisdaga. Fleiri stefnumál voru á þessum nótum.
Þetta var satt best að segja ekki í fullri alvöru.
En mér verður hugsað til framboðsins þegar allir eru að safna vinsældum með því að tala um að banna verðtrygginguna. Verðtryggingin er ekki vandamál, verðbólgan er vandamál. Ef engin væri verðbólgan þá skipti verðtryggingin engu máli. Vísitalan mælir verðbólgu (þó að vísu megi deila um hvað á að taka með í þeim útreikningum) og staða verðtryggðra lána er svo reiknuð út frá vísitölunni.
Þegar ég heyri fólk tala um að banna verðtrygginguna þá finnst mér það álíka gáfulegt og að banna hitamæla eða vísitölu. Þetta hljómar vel – sérstaklega fyrir fólk sem kann ekki að reikna – en þetta er nákvæmlega það.. eitthvað sem bara hljómar vel.