Samstaða eða ekki samstaða

Posted: janúar 2, 2014 in Umræða

Ég er farinn, satt að segja, að hafa talsverðar áhyggjur af stefinu sem forseti og forsætisráðherra klifa stöðugt á.

Það er einhver undarlegur mórauður þráður í umræðunni á þá leið að allir sem voga sér að hafa aðra skoðun en stjórnvöld samþykkja séu ljótukallarnir sem rjúfa samstöðu „einhuga þjóðar“, jafnvel fyrirfram bara lygalaupar og niðurrifsfólk.

Samhilða þessu er spilað er á ofur hallrærislega þjóðrembu. Harðar deilur um IceSave heita nú „þjóðarsátt“ þegar forsetinn er búinn að brengla söguna eftir hentugleikum.

Vissulega geta endalausar deilur haft sína ókosti, sérstaklega þegar þær verða persónulegar og ganga út á skítkast og útúrsnúninga – deilur þar sem keppst er um að hafa betur í stað þess að ná niðurstöðu hjálpa auðvitað engum.

Á hinn bóginn er það nefnilega kostur að ræða málin, deila þegar við erum ósammála og komast þá að niðurstöðu. Það leiðir til miklu betri árangurs en að taka við skipunum að ofan frá fámennri valdastétt. Það er mikilvægt að þora að hafa aðra skoðun en stjórnvöld vilja. Og það má ekki þegja af ótta við að rjúfa eftirsóknarverða „samstöðu“.

„Samstaða“ er kannski fín eftir að búið er að komast að niðurstöðu og ná sátt eftir málefnalega umræðu. En „samstaða“ um að taka við skipunum og skoðunum að ofan minnir á eitthvert allt annað ríki en ég hélt að ég tilheyrði.

Ég ætla að minnsta kosti að blása á þetta samstöðutal og leyfa mér að hafa skoðanir.

Lokað er á athugasemdir.