2014

Posted: janúar 1, 2014 in Spjall
Efnisorð:

Ég hef ekki grun um hvað gerist árið 2014 og hef í sjálfu sér enga þörf fyrir að reyna að spá fyrir um það.

Ég strengi aldrei áramótaheit.. ég einfaldlega reyni að skoða reglulega hvað má gera betur og hvað má betur fara, án tillits til dagatalsins.

Ég þykist þó vita að við förum í skíðaferð til Austurríkis um miðjan janúar til að fagna fimmtugsafmæli Bryndísar með henni. Ekki svo að skilja að ég hafi stigið á skíði í meira en fjörutíu ár, en ég ætla að minnsta kosti að prófa.. og ef ég fell ekki fyrir þessu þá er ég sannfærður um að mér kemur ekki til með að leiðast.

Ég vona líka að við náum að halda í þá venju að kíkja fljótlega í helgarferð með Höskuldi og Sirrý.

Og Sambindið ætti að ná sinni, nú árlegu, helgarferð.

Þá stefnir fótboltahópurinn á að kíkja á leik með vorinu, en góð áform á þeim nótum hafa ekki alltaf gengið eftir. Að minnsta kosti ættum við að hittast á hverju mánudagskvöldi yfir vetrartímann og halda tvær uppskeruhátíðir að venju. Ég er meira að segja strax farinn að hlakka til þeirrar næstu sem verður núna um helgina.

Þá er alltaf einhvert tal um að fara í siglingu, mjög skemmtilegt að fara í þannig frí, bæði ódýrt og mikið sem fæst fyrir peninginn. Nú eða kannski er kominn tími til að kíkja aftur til Benalmadena.. þetta ræðst auðvitað allt af því hvernig fjárhagurinn verður.

Ég er svo nokkuð viss um að Einifells ferðirnar verða nokkrar og stórskemmtilegar. Og GoutonsVoir hópurinn hittist oft og eldar og borðar og drekkur. Vonandi hittist hinn ónefndi matarklúbburinn okkar oftar á nýju ári en því síðasta. Við eigum svo áskriftarmiða í leikhús og fyrsta sýningin er strax næsta sunnudag.

Fiskidagurinn er svo alltaf á dagskrá, með einhverjum fyrirvörum þó…

Við Fræbbblar höfum verið að vinna að nýrri plötu í tvö ár.. nokkur lög hafa komið út en ekki beinlínis fengið góðar viðtökur. En vonandi náum við að klára plötuna og koma út ekki seinna en í vor. Og ég vona líka að okkur takist að halda Punk 2014 hátíðina í Kópavoginum.

Þá geri ég ráð fyrir að halda áfram að mæta reglulega í Karate, vonandi næ ég að mæta enn betur en í fyrra – þetta er skemmtileg hreyfing, jafnvel þó ég sé enn ótrúlega stirður.. á móti kemur að þetta mjakast hægt og bítandi.

Svo er alltaf á dagskrá að mæta á leiki hjá Breiðabliki – og ekki væri verra að liðinu takist að ná Íslandsmeistaratitilinum í ár. Að öðru fótboltaleyti væri gaman að sjá Arsenal vinna titil og Derby County ná að vinna sæti í úrvalsdeildinni.

Þá er ekki síður spennandi tímar tengdir vinnunni…

 

Lokað er á athugasemdir.