Verðtryggingin, til útskýringar…

Posted: janúar 26, 2014 in Verðtrygging
Efnisorð:

Það er einhver grundvallar misskilningur í gangi vegna verðtryggingarinnar. Ég átta mig ekki á því hvort þetta er hreinn og klár misskilningur, vankunnátta í reikningi eða hreint og klárt lýðskrum… eða kannski einfaldlega vegna þess að hún er „áþreifanleg“ og þægilegt að benda á, hentugur blóraböggull. Það er auðvelt að ná vinsældum með því að tala gegn verðbólgunni og það hljómar vel í mörg eyru að ætla að beita sér gegn henni.

Verðtryggingin er mótvægi við verðbólgu. Verðbólgan er raunverulega vandamálið. Ef ekki væri verðbólga þá væri verðtryggingin ekki sýnileg og skipti engu máli.

Hitt er að verðtryggingin væri heldur ekkert vandamál í verðbólgu ef laun fylgdu verðbólgunni líka.. þá hækkuðu launin einfaldlega jafnt og lánin og sami hluti launa færi til að greiða af lánum. Það sem gleymist í öllum hávaðanum og allri umræðunni um verðtrygginguna, sem vissulega er vandamál fyrir þá sem borga af lánum og fá greidd laun sem ná ekki að fylgja verðbólgu. Það gleymist hins vegar í þessu að aðal vandamálið er einmitt að launin fylgja ekki þróun verðlags. Og það gleymist að þetta er ekki bara vandamál fyrir þá sem borga af verðtryggðum lánum. Þetta er nefnilega líka vandamál fyrir þá sem þurfa að borga hækkandi húsaleigu, þurfa að kaupa mat, föt og aðrar nauðsynjar. Vandamálið er sem sagt ekki verðtryggingin heldur misræmi launa og verðlags.

Að lokum gleymist, eða er reynt að fela, að öll lán eru í rauninni verðtryggð. Aðferðin sem notuð er við óverðtryggð lán kallast breytilegir vextir. Þessir breytilegu vextir taka einmitt við af… verðbólgu. Og fylgja verðlagsþróun en ekki launaþróun. Og það sem verra er, breytilegir vextir byggja ekki á tiltölulega gagnsærri vísitölu, heldur verðbólgu og spádómum um verðbólgu.

Ég veit að það er hægt að finna ýmis dæmi með því að velja rétt tímabil sem sýna fram að á verðtryggð lán komi illa út, en til lengri tíma litið þá er ekkert að verðtryggingunni, hún er ekki vandamálið sem þarf að leysa.

Athugasemdir
 1. Andrés Valgarðsson skrifar:

  Það eru nokkur atriði þó.

  1. Verðtrygging gerir það að verkum að verðbólga er ekki vandamál fjármagnseigenda lengur, nema út af einhverjum afleiddum stærðum. Þeir hafa allt í einu voðalega lítið á því að græða að hjálpa til að halda niðri verðbólgu, þar sem verðbólga verður í reynd tæki til að færa raun-eign frá þeim sem ekki stunda útlánastarfsemi til þeirra sem gera það.

  2. Ef laun væru líka verðtryggð myndum við lenda í óðaverðbólgu, þetta er hlutur sem heitir að reyna að skilgreina sig út úr raun-tölu vandamáli með því að fikta í afleiddum tölum. Ef bæði lán og laun eru verðtryggð hefur þessi þrýstingur sem verðbólga er enga leið til að koma fram.

  Að verðtryggja bara lán flytur þrýstinginn af að bera verðbólguna alfarið yfir á launahliðina.

  Þess vegna er fólk á móti henni.

  • 1. Verðbólga er heldur ekki vandamál fjármagnseigenda á meðan þeir hafa breytilega vexti. Ég efast líka um að það séu fjármagnseigendur sem stýra verðbólgu.

   2. Það er að vissu leyti rétt, þeas. ef öll efnahagsstjórn er í rugli – þetta ætti hins vegar að vera hvatning til allra, ekki bara fjármagnseigenda, að halda verðbólgunni niðri. En fyrir utan það þá er engin aðferð til sem leyfir lægri laun í hærri verðbólgu, nema neikvæðir vextir. Ég man eftir neikvæðum vöxtum.

   3. Lán með breytilegum vöxtum eru verðtryggð, fólk sér hana bara ekki.