Ég verð að játa að ég varð alveg kjaftstopp þegar ég heyrði að Breiðablik hafi sagt Arnari Grétarssyni upp sem þjálfara karlaliðsins í knattspyrnu.
Nú skal setja þann fyrirvara að ég hef ekki innanbúðarupplýsingar, en svo langt sem ég veit og hef heyrt, þá var ekkert óvænt sem kom upp sem réttlætir þetta.
Þetta er því miður orðin allt of algeng aðferð í knattspyrnuheiminum, örvæntingarfull viðbrögð stjórnarmanna sem geta ekki unnið undir pressu og sjá ekki lengra fram í tímann en nokkra daga – hafa enga framtíðarsýn.
Hafi stjórnin ekki treyst Arnari til að stýra liðinu á þessu tímabili var rétti tíminn til að skipta um þjálfara eftir síðasta tímabil. En þegar þjálfari er endurráðinn þá á að þurfa meira til en tvo tapleiki til að ákvörðunin sé endurskoðuð.
Gott og vel, auðvitað getur komið upp sú staða að lítið sé annað til ráða en að skipta um þjálfara.. en það eru undantekningar, sem oftast má rekja til flumbrugangs við upphaflega ráðningu.
Ég vil ekki styðja svona hegðun og svona framkomu við starfsfólk. Ég hef sagt upp árskortinu og tek mér frí frá vellinum í sumar.