Þegar ljóst var að karlalandslið Íslands í fótbolta átti möguleika á að komast á HM í sumar var ég í fyrstu ekkert á því að fara. Svo þegar þetta varð raunverulegra varð áhuginn smám saman meiri og eftir að liðið tryggði sér þátttöku var ég orðinn mjög spenntur. Ekki minnkaði spennan við að eiga möguleika á að sjá þá spila við Argentínu á HM. Þannig að við sóttum um miða.
En svo fóru að renna á okkur einhverjar grímur, að hluta til þær sömu og áður en þetta varð raunhæft.
Og á endanum drógum við umsóknina okkar til baka.
Fyrir það fyrsta þá fórum við á alla leikina í riðlakeppninni á EM í Frakklandi. Virkilega gaman að upplifa þetta, stemmingin einstök og ekki spillti árangurinn fyrir.
En við erum búin að horfa á liðið spila á stórmóti, vissulega ekki HM, en samt…
En aðal ástæðan fyrir að við hættum við er nú eiginlega að mér líkar ekkert sérstaklega vel við það sem er að gerast í Rússlandi. Gott og vel, það má eflaust benda mér á tvöfeldni og ekki er ég alveg með á hreinu hvar ég dreg mörkin.
Ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvernig ég á að útskýra almennilega. Það eru ekki bara stjórnvöld, hegðun þeirra gagnvart öllum sem voga sér að gagnrýna, árásir á blaðamenn, nýlegar breytingar á lögum sem leyfa heimilisofbeldi, fordómar gagnvart fólki vegna kynhneigðar… og ekki bara frá stjórnvöldum – heldur virðist vera nokkuð mikil sátt um þetta í samfélaginu.
En ætli dropinn sem fyllir mælinn sé ekki stuðningur við Assad og fjöldamorð Sýrlandsstjórnar á eigin borgurum, notkun efnavopna gegn almennum borgurum. Ég veit ekki hver eitraði fyrir Skripal og það myndi telja frekar lítið í þessu samhengi þó það sannaðist endanlega að Rússar hefðu staðið á bak við það.
Kannski skipti ég um skoðun þegar nær dregur, kannski vegur stuðningurinn við frábært íslenskt landslið þyngra þegar á reynir, mögulega afsaka ég það með að þetta sé FIFA en ekki Rússland sem stendur fyrir mótinu, það er ekki útilokað að eitthvað breytist í Rússlandi (hversu yfirborðskennt sem það verður og væntanlega til þess eins að bjarga andlitinu fyrir HM). Og kannski langar mig einfaldlega þegar þar að kemur.