Ég ætla að kjósa Skúla í borgarstjórn…

Posted: maí 22, 2014 in Uncategorized

Ég hef aldrei verið fastur í flokkslínum og allt of oft hef ég einfaldlega ekki komist til að kjósa vegna vinnu við kosningaútsendingu – enda kannski ekki verið nægilega sannfærður um hver ætti að fá atkvæðið mitt hverju sinni.

Ég játa líka að ég hef oft verið hallur undir ný framboð, hef verið hlynntur fjölbreytni – hef talið kostina fleiri en ókostina.

Í sveitarstjórnarkosningunum núna í vor ætla ég að kjósa Samfylkinguna í Reykjavík. Þar ræður úrslitum, þrátt fyrir nokkra álitlega valkosti, að ég vil umfram allt fá Skúla Helgason í borgarstjórn.

Ekki það að ég sé alltaf sammála honum í einu og öllu. Ég er ekki sammála neinum í einu og öllu. Varla sjálfum mér.

En Skúli er heiðarlegur, rökfastur og málefnalegur. Þá skiptir máli að hann hefur bæði gríðarlegan áhuga á þeim málum sem ég held að skipti hvað mestu – látum nægja að nefna menntamál – er vinnusamur og kemur hlutum í verk.

Það er rétt að taka fram að ég þekki Skúla persónulega, en það hefur ekki önnur áhrif en að styrkja mig í þeirri skoðun að hann eigi erindi í borgarstjórn. Ég myndi aldrei (vona ég) styðja einhvern í starf sem ég treysti ekki til að sinna vel.

Lokað er á athugasemdir.