En hver borgar?

Posted: maí 18, 2014 in Stjórnmál, Umræða

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa bókstaflega verið alveg gáttaðir á að fá ekki almennan stuðning við svokallað skuldaleiðréttingarfrumvarp.

Það ætti svo sem að vera augljóst eftir að búið er að benda á marga galla, jafnvel þingmenn stjórnarflokkanna hafa komið fram með vel rökstudda og málefnalega gagnrýni.

Hitt er að það er gjarnan talað eins og það að fólk fái skattaafslátt til að auka séreignarsparnað til að greiða niður lán, sem aftur þá auðvitað ekki sparnaður, heldur niðurgreiðsla á skuld. Það getur komið sér jafn vel fyrir viðkomandi, en köllum hlutina réttum nöfnum, þetta er ekki „sparnaður“ þetta er lækkun skulda.

En það sem mér finnst einkenna umræðuna er að þessi skattaafsláttur vaxi á trjánum, sé gripinn úr lausu lofti – þarna verði peningar til úr engu og allir geti verið glaðir og sáttir.

Það er nefnilega þannig að þegar gefinn er skattaafsláttur, þá verður ríkið af tekjum. Þessum tekjumissi þarf að mæta, annað hvort með niðurskurði í þjónustu eða með auknum sköttum annars staðar. Það er sem sagt alltaf einhver sem greiðir fyrir.. ýmist með því að fá skerta þjónustu eða með hærri sköttum annars staðar.

Þannig að ég spyr.. hver borgar?

Lokað er á athugasemdir.