Posts Tagged ‘kirkjan’

Brandarinn um kirkjujarðirnar

Posted: janúar 17, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Það hefur stöðugt hljómað frá kirkjunni síðustu mánuði – og reyndar ár – að laun starfsmanna kirkjunnar séu „afgjald“ vegna þeirra jarða sem kirkjan hafi afhent ríkinu 1907. Um þetta hafi verið gerður samningur 1997.

Það hefur lengi vafist fyrir okkur sem stöndum utan þjóðkirkju að skilja hvernig arður af jörðum átti að standa straum af kostnaði við laun (og annan rekstur) presta um ókomna framtíð. Því það gat jú enginn vitað hvernig annar hluti þessarar jöfnu myndi standa, þeas. fjöldi og launakjör presta.

Hitt er að við höfum oft spurt hvaða jarðir þetta séu, hversu mikils virði þær séu og hvaða tekjur ríkið hafi af þeim. Það hefur verið lítið um svör. Tveir prestar reiknuðu verðmæti þeirra upp í 17.000 milljarða, eða um þrjátíu falt verðmæti allra fasteigna á landinu. Þeir gátu ekki tilgreint hvaða jarðir þetta eru. Þeir gátu heldur ekki sagt hvaða tekjur ríkið hefur af þeim (augljóslega).

Nú datt Svavari nokkrum Kjarval í hug að spyrja ríkið hvaða jarðir væru í þessum samningi. Svarið kom og var eiginlega stórkostlegt og má finna hér hér.

Þarna kemur í ljós að þegar ríkið gerði samninginn 1997 vissi enginn hvaða jarðir þetta voru. Það bætir svo ekki úr skák að kirkjan virðist hafa haldið öllum jörðum sem voru bitastæðar og sem hægt var að hafa einhverjar tekjur af.

Ég veit eiginlega gekki hvort er fyndnara, hlægilegra eða grátbroslegra.

Talsmenn kirkjunnar sem stöðugt vísa til að ríkið hafi svo miklar tekjur af jörðum sem þeir vita ekki hverjar eru.

Eða samningamenn ríkisins 1997 að gera samning um jarðir upp á fleiri þúsundir milljarða án þess að hafa hugmyndum hvaða jarðir þetta voru.

Við trúleysingjar höfum fengið nokkuð margar lítt geðfelldar „sendingar“ síðustu daga og vikur. Oftast koma þær frá þeim sem hafa fundið sig í kristinni trú og/eða telja sig sjálfa stærri á einhverju „andlegu sviði“. Þetta kemur úr öllum áttum, í fljótu bragði man ég eftir prestum, rithöfundi, sjómanni og jafnvel bókmenntafræðingi.

Þetta er kannski að einhverju leyti í takt við þá aðferðafræði kirkjunnar síðustu ár að það sé í góðu að segja hvað sem er um trúleysingja. Tilgangurinn helgar jú meðalið og hefur forgang fram yfir boðskap og boðorð sem þess á milli er haldið á loft.

Þannig virðist það vera við hæfi – svona þegar hlé er tekið á því að boða kærleiksboðskapinn – að smyrja hverju sem er á okkur trúleysingjana, gera okkur upp hatur og ég veit ekki hvað – jú, og ekki gleyma að líf okkar sé í lausu lofti.

Ég held reyndar að það kæmi betur út fyrir kirkjuna til lengri tíma litið að fylgja eigin kærleiksboðskap og virða áttunda  [eða níunda] boðorðið (númerin breytast eftir útgáfum, en ég er sem sagt að tala um að bera ekki ljúgvitni gegn náunganum). Þetta virkar kannski til skamms tíma en til lengri tíma hafa svona áróðursvélar gjarnan hrunið eins og spilaborg í stormi.

Rekstur kirkjunnar kostar fjóra milljarða á ári úr sameiginlegum sjóðum.

Þá er þjónusta presta verðlögð sérstaklega.

Prestar eru á margföldum byrjunarlaunum miðað við aðrar stéttir – fyrir utan greiðslur fyrir athafnir.

Kirkjan segir afdráttarlaust að henni beri ekki að veiti fólki þjónustu nema allir aðilar séu þar meðlimir. Nema þegar hún er í kosningabaráttu, þá segir hún að henni beri skylda til að þjóna öllum.

Kirkjan neitar öðrum söfnum  (ma. kristnum) um afnot af húsnæði sem ríkið á, en eru í umsjón kirkjunnar.

Prestar geta neitað fólki um þjónustu vegna kynhneigðar.

Vill einhver (annar en prestar) hafa ríkiskirkjuna áfram?

Ég hef talað lengi fyrir því að aðskilja ríki og kirkju. Einfaldlega vegna þess að skoðanir fólks eiga ekkert erindi í ríkisrekstur.

Mér er ekkert illa við kirkjuna, ég þekki mikið af góðu fólki sem þar starfar, gerir það heiðarlega og eftir bestu samvisku. Hún er bara ekki fyrir mig. Og það á ekki að reka hana með fé úr sameiginlegum sjóðum.

Ég neita því ekki að ýmis ummæli fyrrverandi biskups lögðust oft illa í mig. Hrein og klár ósannindi í bland við grímulausa fyrirlitningu á lífsskoðunum annarra gera það að verkum að þar fannst mér einn versti forystumaður kirkjunnar.

Ég dæmi ekki alla kirkjunnar þjóna eða meðlimi út frá ummælum biskups. Og ég batt talsverðar vonir við nýjan biskup. Í fyrstu kom Agnes vel fyrir og ég hef svo sem ekki gefið upp alla von um betri samvinnu.

En það hefur aðeins slegið á þær vonir við að fylgjast með umræðunni um þjóðkirkju ákvæði í stjórnarskrá. Fyrir rúmri viku sagði biskupinn ákvðið í Silfri Egils að þjóðkirkjan ætlaði ekki í kosningabaráttu vegna málsins.

Á mánudag birtist auglýsing á „mbl.is“. Og rétt áðan heyrði ég auglýsingu fyrir tíu-fréttir á Rás2 hjá RÚV.

Upplýsingavefur kirkjunnar leyfir ekki önnur sjónarmiða en skoðanir kirkjunnar.

Þá hélt biskup því ranglega fram að ef breyta ætti kirkjuskipan í stjórnarskrá þá þyrfti að fara fram önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Þetta er rangt, þetta þarf aðeins ef breyta á kirkjuskipan með lögum án breytingar á stjórnarskrá, ekki ef breyta á stjórnarskránni sjálfri.

Biskup hélt því líka ranglega fram að Hæstaréttardómur væri fyrir því að þjóðkirkju fyrirkomulagið væri brot á mannréttindum.

Og biskup hélt því líka ranglega fram að úrskurðað hefði verið að þjóðkirkja stangaðist ekki á við mannréttindasáttmála Evrópu.