2012

Posted: janúar 2, 2013 in Spjall
Efnisorð:

Er ekki við hæfi að renna yfir síðasta ár? Nei, kannski ekki – en ég ætla nú að gera það samt.

2012 var eiginlega alveg ágætt, mikið af góðum stundum með vinum og til þess að gera lítið af leiðindum og þau utanaðkomandi og óviðráðanleg.

Ferðalög til annarra landa voru þau að við Iðunn fórum í 2ja vikna frí til Benalmadena á Costa del Sol og í helgarferð til London, báðar ferðir í sérstaklega góðum félagsskap. Iðunn skrapp svo til Stokkhólms og ég fór á árlega sýningu í Amsterdam.

Við fórum tvær sérstaklega vel heppnaðar ferðir með Sambindinu og ekki voru ferðirnar á Einifell síðri. Annars þurfti svo sem heldur ekki að fara langt – ótal „hittingar“ við ýmis tækifæri, matarklúbbar, Madridarhópur, Goutons Voir, Postular, skírnarveislur, árshátíðir, vinnustaðaskemmtanir og fjölskylduboð voru einstaklega vel heppnuð 2012. Eitt ógleymanlegt brúðkaup og nokkrar útskriftarveislur settu svip sinn líka á árið.

Og ekki gleyma mörgum stórafmælum – Nonni, Helgi, Siggi, Sóley, Sylvía, Hrund & Skarpi – sem fagnað var með eftirminnilegum hætti. Og já, gullbrúðkaup tengdaforeldranna kallaði líka á glæsilega veislu.

Eitt þarf að taka út, útskrift Viktors Orra úr stjórnmálafræði var einn af hápunktum ársins, ekki bara glæsilegt frammistaða, því svona há einkunn hafði ekki verið gefin í stjórnmálafræði frá stofnun deildarinnnar (þó annar félagi hans hafi gert enn betur) heldur er Viktor greinilega búinn að finna sína hillu, ótal verkefni og mastersnám í framhaldinu.

Af íþróttafréttum, ef svo má kalla, þá var gaman að ná loksins að vinna hina margrómuðu Postuladeild í innanhúsfótbolta og við Iðunn byrjuðum að æfa Karate hjá Breiðabliki í byrjun árs og héldum því, að sjálfsögðu, út árið.

Fræbbblarnir spiluðu á nokkrum skemmtilegum hljómleikum, helst kannski að nefna Rokk í Reykjavík 2.0, GogoYoko Extravagansa og Dillon á Menningarnótt. Og svo kom skemmtileg viðbót við tónlistarferilinn þegar ég söng nokkur lög með Bjössa Thor og félögum á Jazz og blúshátíð Kópavogs í Salnum.

Við Fræbbblar gáfum út jólalagið „Ótrúleg jól 2012“ og kláruðum „Judge a Pope just by the Cover“ til útgáfu 1. janúar 2013. Þá fjölgaði vel í hljómsveitinni þegar tveir upphaflegir meðlimir (ja, nánast) gengu aftur til liðs við hljómsveitina.

Og tengt Fræbbblunum, þá var gaman að taka þátt í Popppunkti einu sinni enn, og ekki spillti fyrir að ná sigri í þessari lotu.

Af neikvæðu hliðinni er helst að nefna alvarleg veikindi á tveimur vígstöðvum í vinahópnum, vonandi verður framhald á góðum fréttum á nýju ári.

Og ósvífin framkoma réttarkerfisins við elsta soninn er nokkuð sem ekki verður fyrirgefið.

Svo beitti ég mér fyrir að ekki yrði ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá, en hafði varla erindi sem erfiði í ruglingslegri atkvæðagreiðslu. En það minnir þó á nauðsyn þess að spyrna við sífellt aukinni markaðssókn ríkiskirkjunnar, nokkuð sem virðist ætla að verða langtíma verkefni.

Lokað er á athugasemdir.