Sjálfstæð stofnun hlunnfarin af ríkinu

Posted: janúar 5, 2013 in Umræða

Ég veit ekki hvar toppurinn í kjaftæði liggur í áróðri kirkjunnar þessa dagana. Einar Karl Haraldsson skrifar grein í Fréttablaðið og á Vísi þar sem hann bölsótast út í þingmann fyrir að hafa skoðanir á framkomu kirkjunnar (eflaust finnst honum þetta dæmi um „auðmýkt“ kirkjunnar).

Ég læt nægja að nefna þær rökleysur sem fara mest í taugarnar á mér.

Megnið af greininni fer í að „tækla manninn“ þeas. gera lítið úr þingmanninum frekar en því sem hann segir… hefðbundin aðferð þegar engin rök eru fyrir hendi.

Einar segir kirkjuna ekki ríkisstofnun. Kirkjan er á fjárlögum, starfsmenn hennar ríkisstarfsmenn, um þá gilda lög og reglur um opinbera starfsmenn og biskup ferðast á dipómatapassa. Þetta er eins dæmigerð ríkisstofnun og þær gerast.

Þá á þessi sjálfstæða stofnun. sem ekki er ríkisstofnun að mati Einars, svo bágt vegna þess að hún er „hlunnfarin“ af ríkinu. Einar „gleymir“ því að ríkisstofnunin kirkjan er rekin af almannafé sem sótt er í skattfé okkar allra, hvaða trúfélagi sem við tilheyrum og líka okkar hinna sem erum utan trúfélaga. Kirkjan hefur sótt um auknar fjárveitingar af „auðmýkt“ segir Einar og „gleymir“ því að prestar eru á margföldum launum á við sambærilegar stéttir. Það hefði kannski einhver auðmýkt falist í að lækka laun presta, og verið kannski meira í takt við boðskapinn sem einhvern tímann var til staðar, þeas. áður en almannatenglar tóku við stýrinu hjá ríkiskirkjunni. Það hefði meira að segja verið vottur af auðmýkt að fækka starfsmönnum biskupsstofu. Að ég tali nú ekki um þá auðmýkt að hætta að moka peningum í almannatengslaráðgjafa.

En þetta er auðvitað einfalt. Ef þjóðkirkjan vill vera sjálfstæð stofnun og vill ekki láta ríkið hlunnfara sig…. hættið þá þessu helvítis (já, ég meina „helvítis“) væli sem dynur á okkur daglega, og oft á dag…  og takið við að reka ykkur sjálf!

Þessi grein Einars er einfaldlega óboðlegur samsetningur af innantómu væli, rangfærslum og persónulegu skítkasti. Þetta kallaðist kjaftæði þegar ég var yngri. Og þetta kallast kjaftæði í dag.

Athugasemdir
  1. Haukur Kristinsson skrifar:

    Ég er 100% sammála Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Bravo, Sigríður.
    Ríkisstofnun, sem þjóðkirkjan svokallaða er, á ekkert að vafstra í söfnun af þessu tagi.
    Mín vegna hefði biskupinn hinsvegar mátt standa fyrir söfnun innan stéttar presta og meðhjálpara. Kirkjan á að aðstoða fátæka, og aðra sem eiga bágt.

    Ríkið sjálft á ekki bágt! Það gæt t.d. lagt niður ruglembætti forsetans og notað féið sem rennur í þá botnlausu hít til kaupa á mörgum NRI tækjum. Mörgum.

  2. já, Sigríður á hrós skilið fyrir að þora að viðra óvínsæla skoðun rétt fyrir kosningar.

  3. Jón Ásgeir Einarsson skrifar:

    Tja – aldrei þessu vant er ég ekki sammála þér félagi….. Kirkjan er á fjárlögum og þ.a.l. ríkisstofnun en ég sé bara ekki hvað það kemur því við að safna aurum hjá þeim sem eru í kirkjunni fyrir spítalann eða hverju svo sem er. Þetta lið er hvort sem er á launum hjá okkur og það er bara ágætt að láta þá vinna fyrir okkur á þennan hátt í staðinn fyrir að vera að tala um gaur sem dó fyrir tæpum 2000 árum….. Eða á bara Stöð2 að hafa einkaleyfi til að safna peningum með glamúr þáttum…..

    • ég er reyndar á því að ef kirkjan vildi hag Landsspítalans betri þá standa henni aðrar og einfaldari leiðir til boða.

      En þessi færsla mín fjallar nú aðallega um rangfærslurnar og blekkingarnar í grein Einars, ekki þessi söfnun.