Ég missti víst af síðustu karate æfingunni hjá Einari Hagen hjá Breiðabliki núna áðan.
Smá formáli..
Þegar ég kynntist Iðunni, Helga bróður hennar og vinum þeirra fyrir ríflega þrjátíu árum voru Helgi og vinir hans flestir að æfa karate. Helgi var mjög sannfærandi þegar hann var (meira að segja nokkuð oft þegar við fengum okkur í glas) að tala um hvað þetta væri skemmtilegt. Og einhvern veginn fór á bak við eyrað að ég myndi nú örugglega prófa… bara ekki alveg strax.
Fyrir nokkrum árum fann ég svo fyrir að vera orðinn jafnvel enn stirðari og máttlausari en ég hafði verið.. og var þó heldur betur stirður fyrir.
Þannig að ég fór að leita að leiðum til að veslast ekki alveg upp, fótbolti einu sinni í viku yfir veturinn var ekki nóg – og ég var nánast að kafna úr leiðindum þegar ég reyndi fyrir mér í líkamsræktarstöðvum.
Þannig að ég ákvað að láta loksins verða af að prófa karate og mætti auðvitað hjá „mínu“ félagi, þeas. Breiðablik. Og dró Iðunni með mér.
Einar Hagen var þjálfari.
Með hæfilegri blöndu af ódrepandi áhuga, húmor, endalausri þolinmæði og auðvitað góðu aðstoðarfólki náði hann að kveikja áhuga og halda okkur gangandi fyrstu árin. Jú, auðvitað hjálpaði til að við vorum heppin með aðra æfingafélaga.
Nú er þetta ekki spurning.. ég er búinn að finna eitthvað sem smell passar fyrir mig. Með fótboltanum að sjálfsögðu (sem ég ætti þó ekki að segja frá). Smá slys fyrir síðustu jól varð til að ég mætti minna en ella eftir áramót, en ég er að verða góður og mæti aftur í haust.
Sennilega er ég þó svolítið á skjön við flesta sem æfa karate. Ég hef ekki nokkurn áhuga á slagsmálum, horfi aldrei á karate (eða yfirleitt bardaga) myndir og vona að ég þurfi aldrei að nota það litla sem ég þó er búinn að læra. En það er eitthvað við samspil huga og hreyfingar sem heillar mig.. jafnvel þó heilinn detti gjarnan úr sambandi þegar líður á æfingu – eða kannski er það líkaminn misskilur skilaboðin. Þetta er einfaldlega hreyfing sem hefur einhverja merkingu.
PS. Reyndar er rétt að hafa í huga að miðað við hvernig hann hefur talað um veðrið á höfuðborgarsvæðinu þá er ekki víst að þau endist lengi fyrir austan…