Posts Tagged ‘Karate’

Bardagaíþróttir

Posted: júlí 19, 2017 in Umræða
Efnisorð:,

Nú hef ég æft karate í nokkur ár – og líkar vel.  Ekki það að ég hafi nokkurn áhuga á slagsmálum og vonandi kemur aldrei til að ég þurfi að nýta mér það litla sem hefur skilað sér í þekkingu / þjálfun í raunverulegum bardaga. En að æfa karate er fínasta þjálfun, agi, einbeiting, samhæfing hugar og hreyfingar – að ógleymdum góðum félagsskap – gerir það að verkum að þetta er eina íþróttin sem ég hef enst eitthvað til að stunda… fyrir utan auðvitað fótbolta.

En ég datt aftur í að horfa á blandaðar bardagalistir um helgina og hef dottið í umræður þar sem fólk ruglar saman því að finnast einstaka íþrótt ekki geðfelld og því að gera lítið úr því íþróttafólki sem hana stundar. Þessu fylgir einhvers konar grautur af óþarfa æsingi, skítkasti og rökleysum dynja á þeim sem voga sér að finnast greinin ekki geðfelld.

Ég geri ekki lítið úr því að þetta er flott íþróttafólk sem við eigum, margir mættu taka þau sér til fyrirmyndar þegar kemur að þjálfun, einbeitingu og að ná árangri – að ógleymdu því hvað þau koma vel fyrir, hafa haldið haus og eru laus við allan hroka og yfirlæti… nokkuð sem æstustu stuðningsmenn þeirra mættu taka sér til fyrirmyndar.

En mér finnst eitthvað verulega ógeðfellt við greinar þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn með því að meiða og það er beinlínis hluti af keppninni að meiða. Þetta hefur ekkert með slysa- eða dánartíðni að gera.. það er einfaldlega eðli leiksins sem ég kann ekki við.

Og, nei, ég vil ekki banna þessar greinar, fullorðið fólk má ráða því sjálft hvaða áhættu það tekur.

Takk Einar

Posted: júní 2, 2015 in Íþróttir
Efnisorð:, ,

Ég missti víst af síðustu karate æfingunni hjá Einari Hagen hjá Breiðabliki núna áðan.

Smá formáli..

Þegar ég kynntist Iðunni, Helga bróður hennar og vinum þeirra fyrir ríflega þrjátíu árum voru Helgi og vinir hans flestir að æfa karate. Helgi var mjög sannfærandi þegar hann var (meira að segja nokkuð oft þegar við fengum okkur í glas) að tala um hvað þetta væri skemmtilegt. Og einhvern veginn fór á bak við eyrað að ég myndi nú örugglega prófa… bara ekki alveg strax.

Fyrir nokkrum árum fann ég svo fyrir að vera orðinn jafnvel enn stirðari og máttlausari en ég hafði verið.. og var þó heldur betur stirður fyrir.

Þannig að ég fór að leita að leiðum til að veslast ekki alveg upp, fótbolti einu sinni í viku yfir veturinn var ekki nóg – og ég var nánast að kafna úr leiðindum þegar ég reyndi fyrir mér í líkamsræktarstöðvum.

Þannig að ég ákvað að láta loksins verða af að prófa karate og mætti auðvitað hjá „mínu“ félagi, þeas. Breiðablik. Og dró Iðunni með mér.

Einar Hagen var þjálfari.

Með hæfilegri blöndu af ódrepandi áhuga, húmor, endalausri þolinmæði og auðvitað góðu aðstoðarfólki náði hann að kveikja áhuga og halda okkur gangandi fyrstu árin. Jú, auðvitað hjálpaði til að við vorum heppin með aðra æfingafélaga.

Nú er þetta ekki spurning.. ég er búinn að finna eitthvað sem smell passar fyrir mig. Með fótboltanum að sjálfsögðu (sem ég ætti þó ekki að segja frá). Smá slys fyrir síðustu jól varð til að ég mætti minna en ella eftir áramót, en ég er að verða góður og mæti aftur í haust.

Sennilega er ég þó svolítið á skjön við flesta sem æfa karate. Ég hef ekki nokkurn áhuga á slagsmálum, horfi aldrei á karate (eða yfirleitt bardaga) myndir og vona að ég þurfi aldrei að nota það litla sem ég þó er búinn að læra. En það er eitthvað við samspil huga og hreyfingar sem heillar mig.. jafnvel þó heilinn detti gjarnan úr sambandi þegar líður á æfingu – eða kannski er það líkaminn misskilur skilaboðin. Þetta er einfaldlega hreyfing sem hefur einhverja merkingu.

PS. Reyndar er rétt að hafa í huga að miðað við hvernig hann hefur talað um veðrið á höfuðborgarsvæðinu þá er ekki víst að þau endist lengi fyrir austan…